Hér er komið að öðrum kafla af Kynlegum fróðleik um menn. Nú er það Sköpunarsagan og framhaldið af henni í Paradís sem okkur er tamt að grípa til þegar við tjáum okkur um samskipti kynjanna.
Sköpunarsagan: Tilurð mannsins
Guð sagði: „Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum, sem skríða á jörðinni."
Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu. Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau:
„
Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni."
Og Guð sagði: "Sjá, ég gef ykkur alls konar sáðberandi jurtir á allri jörðinni og alls konar tré, sem bera ávöxtu með sæði í. Það sé ykkur til fæðu. Og öllum villidýrum og öllum fuglum loftsins og öllum skriðkvikindum á jörðinni, öllu því, sem hefir lifandi sál, gef ég öll grös og jurtir til fæðu."
Og það varð svo. Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.
Svo kom upp einhver misskilningur í sambandi við fæðuna, þar sem Guð hafði viljað að bæði menn og dýr væru vegan. Eitthvað fórst þetta líka fyrir með kynferði Guðs og manna eins og komið verður inn á hér á eftir, þannig að upphaflega planið breyttist smávegis.
Sagan um Paradís
Þegar hér er komið sögu var Guð búinn að skapa manninn í sinni mynd – karl og konu – og fannst sköpunarverk sitt harla gott.
Svo leið tíminn og einhverra hluta vegna fór Guð að efast um sig og finnast verkið ófullnægjandi. Guð ákvað sem sé dag nokkurn að maðurinn ætti ekki að vera einn - var greinilega búinn að steingleyma því að maðurinn væri bæði karl og kona. Þess í stað var maðurinn allt í einu orðinn eingöngu karl og Guð ákvað að koma honum fyrir í aldingarðinum Eden, þar sem hann brýndi fyrir honum að borða alls ekki af skilningstrénu. Stuttu seinna, þegar maðurinn, þ.e.a.s. karlinn, fékk sér síðdegisblund einhverju sinni, sætti Guð færis og tók úr karlinum rifbein sem hann notaði til að búa til karlynju.
Þennan gjörning útskýrði Guð svo með því að maðurinn, þ.e.a.s. karlinn, ætti ekki að vera einmana og það hafi verið ástæðan fyrir sköpun þessarar meðhjálpar sem væri akkúrat búin til við hæfi karlsins.
Ljóst er að þarna hefur orðið einhver verulegur forsendubrestur, því að Guð var alveg búinn að gleyma konunni sem hann skapaði forðum daga um leið og hann bjó til karlinn. Núna var sem sé komin karlynja og Guð kynnti hana til leiks sem ástæðuna fyrir því að maður yfirgæfi föður sinn og móður og byggi við eiginkonu sína svo að þau yrðu eitt hold. Þarna var allt í einu komin einhver áður óþekkt móðir fram á sjónarsviðið og gefið til kynna að karlynjunnar biði það hlutskipti að verða eiginkona. NB allt þetta gerðist í kjölfar þess að Guð bað manninn, þ.e.a.s. karlinn, um að borða ekki af skilningstrénu! Hvað var eiginlega í gangi?