Upp úr þurru birtist frumvarp frá Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra þar sem opnað er á þann möguleika á skipa glæpamenn í stjórn Fjármálaeftirlitsins tíu árum eftir að þeir hafa verið dæmdir.
Verði frumvarp Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra, um breytingar á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru, að lögum mun verða dregið verulega úr þeim hæfisskilyrðum sem þarf að uppfylla til að sitja í stjórn Fjármálaeftirlitsins (FME). Skýring á því hvers vegna dregið sé úr hæfi til að stýra Fjármálaeftirlitinu er ekki rökstudd í greinargerð
Einn liður fyrrnefnds frumvarps snýr að því að breyta lögum um eftirlit með fjármálastarfsemi. Í þeim lögum er fyrir skýrt ákvæði um að stjórnarmenn Fjármálaeftirlitsins skuli „hafa óflekkað mannorð og mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða þeim sérlögum sem gilda um eftirlitsskylda aðila.“
Í tillögum Sigríðar felst afnám kröfunnar um að stjórnarmenn í Fjármálaeftirlitinu hafi óflekkað mannorð.
Í umsögn Alþýðusambandsins segir hins vegar að auk hennar sé „þeim sem gerst hafa sekir um um alvarleg brot á hegningarlögum, lögum á sviði fjármálamarkaðar eða félaga eða þolað íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir sem einstaklingar eða forsvarsmenn fyrirtækja, veitt sjálfkrafa hæfi að liðum 10 árum eftir hafa verið dæmdir.“
Í umsögn Fjármálaeftirlitsins er stigið varlega til jarðar, þó með nokkrum þunga, þegar vel er að gáð.
Þar er bent á hið augljósa, að þessi vilji ráðherra til að opna á ráðningu dæmdra glæpamanna í stjórn Fjármálaeftirlitsins gæti dregið dilk á eftir sér. „Fjármálaeftirlitið vill því velta því upp hvort það gæti rýrt traust á slíkum ákvörðunum stjórnar ef þar sætu menn sem hafa hlotið refsidóm.“
Í þessu máli getur ráðherra ekki skýlt sér á bak við það að þetta sé ríkisstjórnarmál, enda er það ekki í stjórnarsáttmála. Augljóst er að meginþorri þingmanna á Alþingi mun hafna þessu dellumáli ráðherrans. Eftir mun ríkisstjórnin standa eftir sködduð enda á hún að eyða tíma sínum í annað en að opna á svona glórulausa hluti.
Ég hélt fyrst að þetta hefði verið einhvers konar gjörningur í tengslum við útgáfuna á Kaupthinking, bók Þórðar Snæs Júlíussonar ritstjóra um bankann sem fjármagnaði eigin hlutafé með fordæmalausum hætti þar til hann hrundi eins og spilaborg, en svo reyndist ekki vera.
Þetta var einfaldlega vilji ráðherrans sem þarna birtist, að opna á það að dæmdir glæpamenn - þá væntanlega á sviði efnahagsbrota ekki síst, þar sem sú „sérþekking“ gæti virkað á vettvangi Fjármálaeftirlitsins - ættu að stýra eftirliti á markaði.
Í ljósi sögunnar er mál ráðherrans með nokkrum ólíkindum.
Þetta kallar á ítarlegar skýringar frá ráðherranum, þar sem engin rök fyrir þessari breytingu eru með frumvarpinu. Þegar búið verður að drepa málið alveg - sem meirihluti Alþingis mun gera - þá stendur eftir að dómsmálaráðherra landsins lagði fram frumvarp þar sem opnað var á fyrrnefndan möguleika, glæpamannavæðingu stjórnar Fjármálaeftirlitsins.
Merkilegt er líka að þetta skuli gert aðeins nokkrum mánuðum eftir að það er lagt til að Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands verði sameinuð, til að styrkja eftirlit á fjármálamarkaði. Ekki verður séð að þessi galna hugmynd falli vel að því að styrkja eftirlit með okkar örsmáa fjármálamarkaði, svo notað sé svipað og hófstillt orðalag og Fjármálaeftirlitið notar í sinni umsögn.