Tekjuójöfnuður jókst gríðarlega mikið á Íslandi á áratugnum fram að hruni – meira en dæmi eru um í öðrum vestrænum samfélögum. Sú aukning var frá stöðu eins allra mesta jafnaðar sem var að finna á Vesturlöndum fyrir árið 1995. Hámarki náði ójöfnuðurinn árið 2007.
Eftir hrun jafnaðist tekjuskiptingin mikið á ný, vegna samdráttar fjármagnstekna og aukinna jöfnunaráhrifa í skatta- og bótakerfunum.
Á uppsveiflunni frá 2011 til 2017 hefur ójöfnuður hins vegar tekið að aukast á ný. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, sem sýnir hlutdeild hátekjuhópanna af heildartekjum allra framteljenda (Heimild: Fjármálaráðuneytið).
Hlutur tekjuhæsta eina prósentsins fór úr um 7% árið 2011 upp í 9,4% á síðasta ári. Hlutur tekjuhæstu fimm prósentanna fór úr 20,7% upp í 22,6%. Þetta þýðir að tekjur hæstu hópanna hafa verið að aukast hraðar en tekjur lægri tekjuhópa.
Ójöfnuðurinn jókst á hverju ári eftir að uppsveiflan eftir hrun komst á skrið, nema á árinu 2015. Þetta er umtalsverð breyting á tekjuskiptingunni.
Megin ástæðan fyrir þessum aukna ójöfnuði er að fjármagnstekjur (sem einkum koma í hlut allra tekjuhæstu hópa) hafa verið að aukast meira en almennar launatekjur. Þar eð fjármagnstekjur eru skattlagðar mun minna en atvinnutekjur og lífeyristekjur og þar eð þeim sem fá barna- og vaxtabætur hefur snarfækkað (einkum fólk í lægri tekjuhópum) þá má búast við að ójöfnuður eftir skatta og bætur hafi aukist enn meira en myndin sýnir. Gríðarlegar verðhækkanir á húsnæðismarkaði, sem bitna hlutfallslega mest á lágtekjufólki, magna þessa þróun enn frekar.
Langtímaþróun ójafnaðarins
Þrátt fyrir að tekjuskiptingin hafi jafnast strax í kjölfar hrunsins þá fer því fjarri að hún hafi orðið álíka jöfn og hún hafði verið á árunum í kringum 1995 og fyrr. Nærri lagi er að tekjuskiptingin er nú svipuð og hún hafði verið milli áranna 2002 og 2003.
Tekjuskiptingin er því á hærra ójafnaðarstigi í dag en var fyrir árið 2002. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, sem sýnir nettó ójafnaðarsveiflu frá 1995 til 2017.
Hlutur tekjuhæstu fimm prósenta framteljenda var 17,3% árið 1995 en var orðinn 22,6% í fyrra, samkvæmt gögnum Ríkisskattstjóra. Hlutur tekjuhæsta eina prósentsins var 5,2% og er nú kominn í 9,4% - hefur hátt í tvöfaldast. Á sama tíma fór auðvitað hlutur hinna 95 prósentanna, alls þorra almennings, úr 82,7% niður í 77,4%.
Skipting þjóðarkökunnar er þannig umtalsvert ójafnari nú á dögum en var fyrir árið 2002.
Ójafnaðaraukningin skýrist almennt af mikilli aukningu fjármagnstekna sem einkum koma í hlut hæstu tekjuhópanna og þær tekjur eru skattlagðar með mun minna móti en atvinnutekjur stritandi almennings og lífeyristekjur eldri borgara og öryrkja. En ójöfnuðurinn á Íslandi skýrist einnig af stóru skattatilfærslunni, sem fól í sér lækkun skattbyrðar í hæstu tekjuhópunum (einkum vegna þeirra fríðinda sem fjármagnstekjuskatturinn færir hátekjufólki) og aukinnar skattbyrðar lægstu og milli tekjuhópa (sjá hér). Lækkun eignaskatta og skatta á hagnað fyrirtækja átti einnig sinn þátt í þessari þróun allri. Skattbyrðin var færð af hæstu hópum og yfir á lægri tekjuhópa, hlutfallslega mest yfir á þá allra lægstu. Rýrnun velferðarbóta átti einnig hlut í þessari þróun, ekki síst á allra síðustu árum (sjá hér).
Þróun tekjuójafnaðarins frá ári til árs
Loks má einnig sjá á þriðju myndinni hvernig tekjuhlutdeild þessara hátekjuhópa þróaðist frá ári til árs, á aldarfjórðungnum milli 1992 og 2017.
Þarna má á skýran hátt sjá hina gríðarlegu aukningu ójafnaðarins á áratugnum fram að hruni, jöfnunina fyrst eftir hrunið og hvernig hún náði ekki að færa tekjuskiptinguna alla leið niður á jafnaðarstigið sem hér ríkti áður en nýfrjálshyggjan ruddi auknum ójöfnuði leið inn í samfélagið.
Síðan er augljós hin nýja aukning ójafnaðarins, sem tók við frá og með árunum 2011 til 2017.
Rétt er einnig að skoða þessa þróun í tekjuskiptingunni í samhengi við þróun ójafnaðar í eignaskiptingunni, sem Þórður Snær Júlíusson hefur sýnt á glöggan hátt í nýlegum greinum í Kjarnanum (sjá t.d. hér og hér).
Skýringar: Gögnin koma frá Ríkisskattstjóra og ná til allra framteljenda. Tekjuhugtakið er heildartekjur fyrir skatt (allar skattskyldar tekjur, þ.m.t. allar fjármagnstekjur sem taldar eru fram hér á landi). Gögnin fyrir árin 1997 til 2017 voru nýlega lögð fram á Alþingi af fjármálaráðherra, en gögn fyrir árin 1992 til 1996 koma úr bók Stefáns Ólafssonar og Arnaldar Sölva Kristjánssonar, Ójöfnuður á Íslandi (sem kom út hjá Háskólaútgáfunni 2017).
Höfundur er prófessor við HÍ og starfar í hlutastarfi sem sérfræðingur hjá Eflingu - stéttarfélagi.