Björn Bjarnason, fyrrverandi dóms- og menntamálaráðherra og áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum í áratugi, hefur á undanförnum vikum og mánuðum tjáð sig afdráttarlaust um þriðja orkupakkann svonefnda.
Í stuttu máli segir hann marga efasemdamenn vera að misskilja málið og að ekki þurfi að óttast það að Ísland framselji fullveldi eða eignarhald yfir orkuauðlindum landsins, með því að taka 3. orkupakkann upp í íslensk lög.
Án þess að gera deilur um þriðja orkupakkann að sérstöku umtalsefni að þessu sinni, þá hefur hann nefnt í skrifum sínum, að svo virðist sem miklar efasemdir um þriðja orkupakkann komi frá Noregi. Stundum beint með símtölum til þingmanna og síðan með öðrum boðleiðum.
Fjallað var ítarlega um þriðja orkupakkann á vef Kjarnans á dögunum, en segja má að hann hafði valdið miklum titringi í íslenskum stjórnmálum að undanförnu.
Noregur og orkumál
Það er ástæða til að tala um Noreg í þessu samhengi. Þar í landi eru orkumál hryggjarstykkið í hagkerfinu og umfjöllun um þau eiga líka hið pólitíska svið oft og tíðum.
Ástæðan fyrir því er ekki aðeins hin mikla velmegun landsins, sem fylgt hefur olíufundinum í norskri lögsögu, fyrir meira en hálfri öld - og síðan framsýnt fyrirkomulag norska olíusjóðsins frá 1996. Heldur ekki síður ákvörðun sem um náðist þverpólitískur meirihluti, að gera Noreg að risaveldi fyrir umhverfisvæna orku.
Sæstrengjaþjóð
Statkraft er 100 prósent í eigu norska ríkisins, og má segja að stefnu Noregs þegar kemur að endurnýjanlegum orkugjöfum og raforkusölu, sé hrint í framkvæmd í gegnum fyrirtækið. Svipað og segja má um Landsvirkjun og Landsnet á Íslandi.
Norsk stjórnvöld og Statkraft hafa þegar sett sér markmið um að raforkusala til Evrópu verði jafn ábatasöm norska hagkerfinu og olíuframleiðsla í náinni framtíð. NordNed sæstrengurinn milli Noregs og Hollands, sem tekinn var í notkun um mitt ár 2008, tengir saman Noreg og Holland. Raforkusala um sæstrenginn hefur reynst mun ábatasamari en reiknað var með þegar rökrætt var um framkvæmdina á vettvangi stjórnmála og hjá Statkraft.
Fyrir liggur að Statkraft ætlar sér að leggja fleiri sæstrengi, bæði á Eystrasalti og svo lengsta sæstreng í heimi til Bretlands. Samtals verða þeir orðnir sex innan 15 ára, ef allt gengur eftir.
Statkraft ætlar sér mun stærri hlut á sviði vindorku, en hinn 2. október síðastliðinn var greint frá kaupum þess á umsvifamiklum vindorkuverkefnum á Írlandi og í Bretlandi.
Stærðargráða þeirra nemur um 1.500 megavöttum, eða um tveimur Kárahnjúkavirkjunum, en fyrirtækið hefur þegar samþykkt stefnu um að hafa 6 þúsund megavatta virkjanir á sviði vindorku fyrir 2025. Það eru um tíu Kárahnjúkavirkjanir, svo það sé sett í einfalt og auðskiljanlegt samhengi.
Noregur er ekki bara olíustórveldi heldur líka raforkustórveldi þegar kemur að endurnýjanlegri orku. Ástæðan fyrir því er framsýn og skynsamleg stefna stjórnmálamanna í landinu. Flóknara er það ekki. Vegna þess að þegar það tekst, að marka skynsamlega stefnu í svona mikilvægum málum, þá er framkvæmdin auðveldari.
Hvernig skilgreinist þetta á vinstri og hægri kvarðann?
Það er ekki gott að segja hvernig á að greina stefnu Norðmanna á pólitíska kvarða, en stundum er það þannig með skynsama stefnu að hún þarf ekkert að vera eignuð einum eða neinum.Nokkrar staðreyndir má taka til, sem verða að teljast merkilegar, um Noreg og norska hagkerfið:
1. Norska ríkið þjóðnýtir svo til allar olíuauðlindir sínar. Það á um 70 prósent hlut í Statoil á móti norskum lífeyrissjóðum og einkafjárfestum. Hagnaður á olíuframleiðslu er skattlagður með tæplega 80 prósent skatti.
Afraksturinn er settur í norska olíusjóðinn, sem norska ríkið á og stýrir í gegnum sérstakt samkomulag við seðlabanka Noregs. Sjóðurinn er í dag stærsti fjárfestingasjóður heimsins og á eignir sem nema rúmlega eitt þúsund milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 125 þúsund milljörðum króna.
Þetta er upphæð sem nemur 24 milljónum króna á hvern núlifandi Norðmann. Til samanburðar þá nema eignir íslenskra lífeyrissjóða 11,4 milljónum króna á hvern Íslending. Sjóðurinn fjárfestir ekki í Noregi, nema með agnarsmáu hlutfalli af heild, og þá einkum í innviðaverkefnum. Þannig er lítill hluti sjóðsins notaður í að fjármagna umfangsmikla samgöngu- og fjarskiptastefnu landsins.
Norðmenn hefðu alveg geta valið aðra leið, eins og Rússar, Sádí-Arabía, Nígería, Venesúela og fleiri olíuframleiðsluríki gerðu. Þessum ríkjum hefur gengið illa að nýta þessar miklu auðlindir sínar fyrir almannahag, ekki síst vegna spillingar, og hafa ekki náð að byggja upp nándar nærri eins góð lífskjör og samfélög, eins og Norðmenn hafa gert.
Auðsöfnunni í olíugeiranum fylgja mikil völd og Norðmenn hafa sífellt verið að fá meira vægi á hinu pólitíska sviði, enda á norska ríkið meira en 1,3 prósent af öllum hlutabréfum í heiminum í gegnum olíusjóðinn. Það er enginn norskur olígarki til. Nema þá ríkissjóðurinn norski sé skilgreindur þannig.
2. Norska ríkið hefur haft þá reglu, að það á kjölfestueignarhluti í mörgum af kerfislægt mikilvægum fyrirtækjum í landinu. Má þar nefna Statoil, DNB bankann, álframleiðandann Norsk Hydro, fjarskiptafyrirtækið TeleNor, og síðan hið fyrrnefnda Statkraft.
Ástæðan er sú, að í Noregi hefur tekist að ná þverpólitískri sátt um blandaðan markaðsbúskap, þar sem ábyrgð og eignarhald hins opinbera er viðurkennd, á sama tíma og markaðsbúskapur fær einnig að styrkja ávöxtunarmarkað fjármagns. Má nefna að Statoil er skráð á markað í Noregi, og styrkir þannig fjármagnsmarkaðinn í landinu, eins og gefur að skilja.
Þessi stefna markast af því, að það sé betra fyrir almenning í Noregi, að vera með eignarhald á þessum fyrirtækjum hjá hinu opinbera, með einkafjárfestum. Þarna sé ákveðið jafnvægi, sem þurfi að vera fyrir hendi, og stuðli meðal annars óbeint að betri kjörum á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum.
Getum lært af Norðmönnum
Ísland getur alveg lært af Noregi, þegar kemur að langtímastefnumörkun í málum, eins og til dæmis í orkumálum. Það er algjör óþarfi að leyfa gömlum körlum á Íslandi að leiða umræðuna um mál sem varða framtíð Íslands.
Fleiri þurfa að fá að leggja til málanna, og Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti stjórnmálaflokkur landsins, virðist þurfa að passa sérstaklega upp á þetta. Merkilegt var að sjá það um daginn, þegar eldri karlar í flokknum tóku yfir Valhöll og messuðu yfir „unga fólkinu í flokknum. „Við hina ungu forystusveit Sjálfstæðisflokksins í dag langar mig að segja: Gætið að ykkur. Sá þráður í sálarlífi þessa flokks sem snýr að fullveldi og sjálfstæði er mjög sterkur,“ sagði Styrmir Gunnarsson meðal annars í ræðu sinni, og talaði til ungu kynslóðarinnar í flokknum.
Tengingar orkuneta landa er í grunninn siðferðilegt mál fyrir alla íbúa jarðar, þar sem þær stuðla að betri nýtingu orku og gera vistvænni orkubúskap mögulegan. Þriðji orkupakkinn snýst að stóru leyti um þetta og hvernig eigi að takast á við þessar áskoranir með sameiginlegu regluverki fyrir raforku- og jarðgasmarkað. Þátttaka í þessu verkefni byggir á fullveldi ríkjanna, en felur ekki í sér framsal á fullveldinu. Hræðsluáróður um þátttöku í þessu er óþarfur, því verkefnin sem þessu tengjast eru nógu flókin fyrir.
Ísland er í þeirri einstöku stöðu í heiminum, að um 80 prósent af raforku landsins fer til stórnotenda, einkum þriggja álframleiðanda. Landið er auk þess ekki með neinar tengingar við umheiminn þegar kemur að raforku um streng.
Það sem passa þarf sérstaklega er að álframleiðendurnir skipti sér ekki af því, hvernig orkustefna landsins verður mótuð. Ef Ísland ætlar að vera eyland þegar kemur að orkumálum, þá er það stefna útaf fyrir sig. Hún virðist hins vegar ólíkleg, sé litið til alþjóðlegra skuldbindinga og þróunar í orkumálum heimsins.
En það er líka eflaust eitthvað sem álframleiðendurnir vilja, enda gæti orkuverðið margfaldast ef sæstrengurinn myndi tengja Ísland við umheiminn. Það myndi skila sér í vasa eiganda orkusalans, Landsvirkjunar, sem er íslenskur almenningur. Alþingi ræður svo hvernig orkuverð eigi að mótast til almennings. Sá réttur fer ekkert með þriðja orkupakkanum.
Sæstrengurinn er flókið mál og það virðist erfitt að koma honum á dagskrá. Fróðlegt er í þessu samhengi, að velta fyrir sér hvernig Norðmenn hafa markað sína stefnu, og eru að framkvæma hana. Það er ekkert að óttast þegar kemur að því að kynna sér þau mál og vinstri og hægri í stjórnmálum skiptir ekki öllu máli.