Það var gleðilegt að sjá það, að Vaðlaheiðargöngin hafa verið opnuð fyrir umferð. Þau umbylta samgöngum á efnahagslega mikilvægu svæði fyrir landið allt. Göngin snúast ekki um að stytta ferðatíma um mínútur til eða frá, heldur gætir áhrifa þeirra með mun djúpstæðari hætti.
Þetta sýnir saga samgöngubóta í landinu.
Norður- og Austurland hafa á undanförnum árum gengið í gegnum miklar breytingar hvað varðar samgöngur.
Héðinsfjarðargöng voru opnuð 2010 en þau tengja saman Ólafsfjörð og Siglufjörð í Fjallabyggð. Róbert Guðfinsson, sá mikli athafnamaður og frumkvöðull, hefur staðið fyrir myndarlegri atvinnuuppbyggingu í sínum heimabæ, Siglufirði. Hann hefur látið hafa eftir sér að göngin séu ekki aðeins mikil samgöngubót, heldur líka forsenda uppbyggingar á svæðinu. Hann segir að einkafjárfestar verði að horfa meira út á land, og láta þar til sín taka.
„Ég tel að fjölgun erlendra ferðamanna sé eitt af stærstu tækifærum landsbyggðarinnar til að ná vopnum sínum aftur. Reykjavíkursvæðið og Gullfoss og Geysir taka ekki við einni og hálfri milljón ferðamanna á ári á næstu tíu árum eins og nýjustu spár gera ráð fyrir. Því mega þessi samfélög úti á landi ekki vera íhaldssöm og blinduð af fortíðarhyggju heldur verða þau að nýtatækifærin og einkafjármagnið verður einnig að skynja þessi tækifæri úti á landi,“ sagði Róbert meðal annars í viðtali við Sigló.is, fyrir fimm árum. Hann reyndist sannspár á þessum tíma.
Norðarfjarðargöng voru opnuð fyrir rúmlega ári og hafa umbylt atvinnu- og búsetuskilyrðum á Austurlandi. Umferð um þau hefur verið meiri en reiknað var með og íbúar og ferðamenn á svæðinu, njóta góðs af þeim. Atvinnurekendur á Eskifirði, Norðfirði og Reyðarfirði geta eflaust lýst því í smáatriðum, hvaða máli göngin hafa skipt fyrir krónur og aura. En í stuttu máli þá borga þau sig óskaplega fljótt upp, og fela í sér mikinn sparnað og betri lífsgæði til lengdar litið.
Loksins eru Vaðlaheiðargöngin að opna, eftir erfiðar og flóknar framkvæmdir. Þau eru, eins og jarðgöng á Íslandi hafa alltaf verið, mikil innviðabylting. Þau tryggja góðar og skilvirkar samgöngur á miklu sóknarsvæði í efnahags- og félagslegu tilliti. Þau auka öryggi og lífsgæði.
Ferðaþjónusta á Norðurlandi hefur verið afar vaxandi atvinnugrein, sé tekið dæmi af því hvernig þessi styrking styður beint við atvinnu- og mannlífið. Helmingur allra ferðamanna sem heimsækir Ísland á sumrin kemur á Norðurland og heimsækir náttúruundrin þar. Í heildina eru yfir 800 þúsund erlendir ferðamenn sem heimsækja svæðið á ári, og skilja eftir gjaldeyristekjur sem eru mun hærri en kostnaðurinn við göngin, svo það sé nefnt. Heildarsamhengið er það sem horfa þarf á, þegar innviðir eru styrktir.
Þannig geta kostnaðarsamar framkvæmdir, sem aldrei er innheimt sérstaklega vegna - eins og vegir um allt land eru dæmi um - skipt sköpum fyrir sóknina til framtíðar.
Mývatnssvæðið, Jökulsárgljúfur, Akureyri, Húsavík, Ásbyrgi, Vatnajökulsþjóðgarðssvæðið, árnar allar, og mannlíf til sjávar og sveita. Svæðið allt er með nokkrum ólíkindum, þegar kemur að tækifærum í ferðaþjónustu og stórbrotinni náttúru.
Göngin eru afar mikilvæg, þegar kemur að því að styrkja tækifærin inn í framtíðina í greininni. Þá virðist einnig augljóst, að ný búsetusvæði muni opnast og verða vinsælli. Útivistarparadís að vetri upp á Vaðlaheiði, verður friðsælli og skemmtilegri möguleiki með tilkomu ganganna.
Ég tilheyri þeim hópi - sem ég vill meina að sé meirihluti Íslendinga - sem er áhugamaður um að innviðirnir á Íslandi verði bættir stórkostlega á komandi árum. Þetta á jafnt við um höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina, og algjör óþarfi hjá stjórnmálamönnum eða öðrum, að skipta Íslandi upp í andstæða póla hvað þetta varðar.
Ísland er lítið í alþjóðlegum samanburði, örríki, sem myndar sterka heild á lítilli eyju, sem hagkerfi. Þar er gott að búa og framtíðartækifæri. Höfuðborgarsvæðið og byggðir um landið eru hluti af einni heild.
Ég spái því að Vaðlaheiðargöngin eigi eftir að sanna sig sem stórkostleg búbót, eins og Norðfjarðargöng og Héðinsfjarðargöng. Á átta árum hafa samgöngur umbylst í landshlutanum. Opnun þeirra er góð jólagjöf til landsmanna, og til marks um að innviðirnir í landinu eru að styrkjast.