Stjórnvöld eru nú komin með það á stefnuskrána að selja banka. Töluvert er síðan það gerðist, því þegar grannt er skoðað, þá hafa ríkisstjórnir talað fyrir því að minnka umfang ríkisins á fjármálamarkaði alveg frá því Ísland var komið út úr verstu vandræðunum, í kjölfar hrunsins.
Ríkið á Íslandsbanka, Landsbankann að nær öllu leyti (rúmlega 98 prósent), Byggðastofnun, LÍN og Íbúðarlánasjóð. Segja má að aðkoma ríkisins að fjármálaþjónustu sé því ekki aðeins afgerandi mikil, heldur yfirgnæfandi. Þessu eignarhaldi fylgir ábyrgð og áhætta enda markaðshlutdeild ríkisins á bilinu 75 til 80 prósent.
Tiltekt
En ástæðurnar fyrir þessu mikla umfangi liggja fyrir. Þær má rekja til skipbrotsins haustið 2008, hruns fjármálakerfisins. Neyðarlög og framkvæmd fjármagnshafta tryggði samningsstöðu Íslands þegar kom að uppgjöri við kröfuhafa, og því má segja að fjármálakerfið hafi endað í fangi ríkisins að miklu leyti.
Það sem er mikilvægast af öllu, er að efnahagsreikningar ríkisbankanna eru tiltölulega einfaldir, ónýtt lán hafa verið hreinsuð út og áhættan hefur þannig minnkað mikið. Starfsemin er alveg einangruð við 200 þúsund manna vinnumarkað, þann íslenska, og ekki útlit fyrir að útrás íslenskra banka sé á teikniborðinu.
Í hvítbók íslenskra stjórnvalda um endurskipulagningu fjármálakerfisins er að finna gott yfirlit yfir íslenska fjármálakerfið og það alþjóðlega samhengi sem það er í. Ólíkt nær öllum öðrum þróuðum ríkjum þá er íslenska fjármálakerfið ekki alþjóðlegt, nema að örlitlu leyti. Áhætta er þannig bæði skýrari og einfaldari, og bundin við Ísland, en ekki jafn mikið þvert á landamæri.
Fölsk ríkisábyrgð
Eitt af því sem bankastarfsemi í heiminum einkennist af er hin „falska“ ríkisábyrgð. Vegna kerfislægs mikilvægis þá koma seðlabankar bönkum til bjargar, og ríkissjóðir eru notaðir til að lina höggið af falli banka. Óhætt er að segja að þetta hafi ekki breyst eftir hrunið á mörkuðum fyrir rúmum áratug. Þvert á móti eru bankar enn stærri en þeir voru - einkum þeir á Wall Street.
Vandamálið - Of stórir til að falla (Too Big To Fail) - er því enn fyrir hendi og ekkert sem hefur dregið úr því. Á Íslandi er þetta raunin, nema hvað það liggur núna alveg fyrir - í ljósi þess að ríkið á bankanna að miklu leyti - að ríkisábyrgðin er fyrir hendi og hún er ekki fölsk.
Ríkissjóður hefur fengið meira en 200 milljarða úr ríkisbönkunum í formi arðs á undanförnum sex árum, en það er upphæð sem nemur tæplega helmingi eiginfjárstöðu þeirra um þessar mundir.
Áður en ríkisbankarnir verða seldir þyrftu stjórnvöld að svara því skýrt, hvernig verði brugðist við ef bankarnir lenda síðar í vandræðum. Ísland er ekki hluti af evrusvæðinu og ekki sömu aðstæður og hjá mörgum alþjóðlegum bönkum í Evrópu. Ekki er hægt að búast við því að íslensku bankarnir muni fá stuðning frá öðrum en ríkissjóði og seðlabankanum, ef þeir lenda í vandræðum.
Spurningin: Er ríkisábyrgð á bönkunum fyrir hendi? Hvernig verður brugðist við ef bankarnir lenda í vandræðum? Þurfa hluthafar bankanna að borga ríkisábyrgðargjald, ef ríkisábyrgð er beint eða óbeint fyrir hendi?
Hverjir eru æskilegir eigendur?
Leitin að æskilegum eigendum íslenska bankakerfisins á Íslandi kann líka að verða nokkuð strembin. Vegna umfangsins - þar sem bókfært eigið fé ríkisbankanna er um 450 milljarðar króna - þá er ekki víst að það verði auðvelt að finna einhvern sem getur komið fram með slíka fjármuni á Íslandi.
Eitt vitum við, að það verður ekki í boði að fjármagna kaup á hlutafé í öðrum bankanum með lánum frá hinum ríkisbankanum, líkt og gerðist við sölu á Búnaðarbankanum og Landsbankanum, á árunum 2002 og 2003.
Þannig að það þarf að koma fram með mikið eigið fé og það ætti að vera kappsmál að fá sem hæst verð vitaskuld. Það getur verið áhætta að flýta sér um of og skapa offramboð af bankabréfum, einkum ef skráður markaður verður notaður til að selja hlutabréfin.
Lífeyrissjóðirnir virðast líklegir til að eiga bankanna á móti ríkinu og síðan ríkasta fólk landsins, einkum eigendur útgerða, enda eru þeir í allt annarri deild heldur en aðrir landsmenn þegar kemur að ríkidæmi. Þeir eiga auðveldara með að koma fram með mikið eigið fé en aðrir.
Í þessu ferli þarf líka að varast að búa ekki til nýja kerfisáhættu, þar sem sömu aðilarnir geta orðið stórir eigendur margra fyrirtækja í ólíkum geirum, eins og gerðist fyrir hrun bankanna.
Flókið og margslungið verkefni er framundan, ef stjórnvöld ætla sér að fara í það að selja bankanna. Stærsta spurningin er sú, hvort það er ríkisábyrgð á bankastarfsemi eða ekki. Það er stórt siðferðilegt álitamál og alls ekki einkamál bankamanna eða hagfræðinga.