Samtals fá 358 úthlutað úr Launasjóði listamanna á þessu ári. Úr sjóðnum er úthlutað til misjafnlega langs tíma, en lengst er úthlutað til 18 mánaða.
Launin eru ekki full laun, heldur eru þau 392 þúsund 498 krónur á mánuði, sem greiðast í verktakagreiðslu.
Til úthlutunar eru 1.600 mánaðarlaun samkvæmt fyrrnefndri skilgreiningu, en sótt var um 9.611 mánuð.
Árangurshlutfall sjóðsins er því 17 prósent, reiknað eftir mánuðum. Alls bárust 890 umsóknir um starfslaun frá einstaklingum og hópum. Umsækjendur voru samtals 1.543.
Kjarninn fór eitt sinn í heimsókn til Kaupmannahafnar og hitti meðal annars sendiherrann þar, Benedikt Jónsson, og starfsfólk í sendiráðinu. Það var fróðlegt og skemmtilegt spjall um starfsemi utanríkisþjónustunnar og ýmislegt fleira.
Talið barst meðal annars að ímynd Íslands erlendis og hvernig fólkið í utanríkisþjónustunni skynjaði hana í störfum sínum.
Benedikt var fljótur að nefna að þegar kæmi að menningarmálum - í víðum skilningi - þá væri Ísland með einstaklega sterka stöðu, og að hún væri mikilvægust. Þetta hefðu bæði kannanir sýnt en ekki síður reynsla hans yfir langt tímabil frá mörgum löndum.
Svipaðar sögur heyrir maður víðar, og ég held að Íslendingar búsettir erlendis geti flestir staðfest, að ímynd Íslands er verulega samofin menningarstarfsemi og náttúru okkar, frekar en öðru. Merkilegt framlag Íslands til heimsins er helst á sviði menningarinnar og tengslum hennar við náttúru. Þetta birtist í tónlist, kvikmyndum, hönnun, arkitektúr, bókmenntum, ljósmyndum, málverkum.
Það sem mér finnst sláandi við listamannalaunin er hversu lág þau eru. Hugsunin að baki laununum, eins og umfjöllunin um þau er í lögunum, er að þau geti gefið listamönnum svigrúm til að sinna listsköpuninni.
Ekki er hægt að segja 392.498 krónur á mánuði séu góð laun. Þau veita ekki svigrúmið sem þarf, eins og lagt er upp í lögunum um listamannalaunin. Það held ég að sé nokkuð augljóst. Má þar nefna hönnuði og rithöfunda, og aðrar stéttir sem heyra undir Launasjóð listamanna.
Sá sem ekki áttar sig á gildi lista, hönnunar og menningarstarfs fyrir samfélagið er eins og maðurinn sem tekur ekki leiðsögn eða finnur fyrir því þegar broddflugan stingur hann. Umhugsunarefni er hversu lágar fjárhæðir koma til listamanna á hverju ári, í samhengi við mikilvægi verkefna þeirra fyrir hagkerfið og menningarlífið.
Nú þegar Ísland á jafn mikið undir því og raunin er, að taka vel á móti erlendum ferðamönnum - að halda að þeim áhugaverðri ímynd landsins - ætti að hugsa hlutverk þeirra stétta sem heyra undir Launasjóð listamanna upp á nýtt.
Ein sviðsmyndin væri sú, að þrefalda listamannalaunin, þannig að þau yrðu tæplega 1,2 milljónir króna á mánuði og auka verulega við fjárstuðninginn fyrir heildina. Vissulega væri það mikil breyting, en í stóra samhenginu er hún lítil. Hún á jafn mikið rétt á sér eins og endurgreiðsla kostnaðar við rannsóknir og þróun hjá fyrirtækjum í iðnaði, svo dæmi sé tekið, eða endurgreiðsla hluta kostnaðar hjá fyrirtækjum í kvikmyndaiðnaði. Þetta eru hliðar á sama teningi.
Í bókinni Réttlæti og ranglæti fjallar Þorsteinn Gylfason heitinn heimspekiprófessor um menningu. Orðrétt segir hann:
„Menning er að gera hlutina vel. Tökum soðna ýsu. Í menningarlegu byggðarlagi er ýsa ný. Kannski sækir maður hana glænýja niður á bryggju fyrir hádegið. Svo er hún soðin í vatni eða bökuð í ofni vatnslaus. Það má ekki votta fyrir blóði inni við beinið. En fiskurinn má ekki heldur vera alveg laus frá beininu: hann á að vera að byrja að losna. Og hann á að gljá eins og laukur gljái. Þetta er menning.“
Svo mörg voru þau snilldarlega stíluðu orð. Það er betra að gera hlutina vel, og þegar kemur að listinni þá ætti stefnumörkun og nálgun að málaflokknum, að byggja á raunhæfri skilgreiningu á því hvað teljast geta verið listamannalaun. Eins og þau eru núna, þá er ekki séð að það sé mikið hægt að gera fyrir þau, sem þenur út veröld okkar og bætir við. Þær stéttir sem falla undir Launasjóð listamanna sinna því sem segja má að sé tærasta form frumkvöðlastarfsemi sem hægt er að hugsa sér. Aukinn fjárstuðningur við þessar stéttir skilar sér með sama hætti út í samfélagið eins og aukinn stuðningur við tækni og rannsóknir. Jákvæð áhrif þess eru óumdeild, og þannig ætti það einnig að vera um listina.