Ég las magnaða bók um daginn, Smásögur heimsins - Norður-Ameríka. Hún er hluti af bókaröð með smásögum víða að úr heiminum, sem Bjartur gaf út.
Höfundar koma allir frá Norður-Ameríku og eru að takast á við hinar ýmsu spurningar í knöppu formi smásagna.
Fólk að tala saman
Einn af snillingum þessa forms er Ernest Hemingway. Sögur hans lifa og munu lifa. Þær fjalla margar hverjar um hversdagslega hluti, oft hyldjúpar, en líka einfaldar og aðgengilegar. Fólk að tala saman, voru hans ær og kýr. Það má koma ýmsu fyrir í því formi, ef því er sýnd sú virðing sem það á skilið.
Þegar hann fékk Nóbelsverðlaun 1954 - ári á undan Halldóri Laxness - var það meðal annars rökstutt með smásagnasnilli hans. Það þótti umdeilt, enda voru smásögur lengi að fá þá virðingu sem þær áttu skilið.
Hæðirnar eins og fílar
Í bókinni er sagan Hæðir eins og hvítir fílar. Þar er lýst hversdagslegu samtali manns og konu á bar, við lestarstöð á milli Madríd og Barcelona. Þar sést yfir hæðirnar sem standa upp úr náttúrunni eins og hvítir fílar.
Hemingway nær að fanga mikið í þessari stuttu sögu - hún er einungis fimm blaðsíður. Þarna eru þagnir, fólk úr öllum áttum, það er amstur dagsins, það er lestur í tjáningu við ókunnuga, það er bros og daður, það er eitthvað óáþreifanlegt og tært við þessar lýsingar. „Mér líður vel,“ sagði hún. „Það er ekkert að mér. Mér líður vel.“ segir í lokaorðum sögunnar.
Lesandinn er skilinn eftir í lausu lofti. En sá sem ekki veltir fyrir sér þessum tveimur persónum að tala saman á barnum við lestarstöðina og getur ekki ímyndað sér leiksvið sem Hemingway dregur fram í textanum, hann hlýtur að eiga við eitthvað vandamál að stríða.
Margslungið og fallegt
Ætli þetta teljist ekki list eins og hún gerist best. Vekjandi upp spurningar og hugsanir, en um leið lýsing á einhverju sem er margslungið og fallegt.
List á oft erfitt uppdráttar í opinberri umræðu og þá einkum einhvers konar viðurkenning á efnahagslegu mikilvægi hennar í okkar samfélagi. Einu sinni á ári blossar upp umræða um listamannalaun og eru þau oft dregin fram í neikvæðu ljósi. Það er í svo til eina skiptið á hverju ári, sem það fer fram opinber umræða um gildi lista fyrir samfélagið.
Á dögunum skrifaði ég leiðara þar sem ég sagði, að mér fyndist að það kæmi vel til greina að margfalda listamannalaun og það ætti að vera hluti af því að gera hlutina vel. Kjarni menningar skilgreiningarinnar liggur ekki síst í því, að gera hlutina vel.
Án þess að endurtaka þar efnislega það sem fram kemur, þá finnst mér að stjórnvöld þurfi að huga að því að stórauka stuðning við menningarstarfsemi og listamenn.
Heilindi
Annað sem list þarf til að blómstra í samfélagi eru heilindi.
Það þarf að vera vinna á bak við listina. Dugnaður. Elja. Þolinmæði. Virðing. Allt sem þarf til að það sé alveg öruggt, að það sé reynt að vanda til verka eins og hægt er. Listin spyr ekki alltaf um umfang, en hún þarf heilindi af hálfu þess sem ber hana á borð.
Er þetta ekki gott langtímamarkmið?
Að vilja gera hlutina vel og af heilindum. Stórsókn í listum er eflaust hættuleg, ef hún er framkvæmd bókstaflega, enda fátt jafn fjarri list - þar sem hlutirnir eru gerðir vel og af heilindum - eins og hraðsoðin hugsun eða stefna.
Stundum þarf að nostra við það að gera hlutina vel og sjá þá hvítu fíla sem móta rammann í kringum samtal okkar um list og gildi hennar í samfélaginu. Það er vonandi að stjórnvöld muni taka ákall listamanna - hvort sem það er í kvikmyndagerð, hönnun, ritstörfum, myndlist, arkitektúr eða öðrum listgreinum- alvarlega.
Það er þörf á því að sýna íslenskri list meiri virðingu - með mun meiri fjármunum, beint - en ekki síður með því að vinna að langtímasýn af heilindum og með það að markmiði að gera það sem gera þarf vel.
Niðurrifsstarfsemi
Benedikt Erlingsson, leikari og leikstjóri, sagði eitt sinn í viðtali sem ég tók við hann árið 2015, að honum fyndist eins og það væri í gangi niðurrifsstefna gagnvart menningarstarfsemi í landinu, fremur en uppbygging. Stór orð frá manni sem veit hvað hann syngur.
Til að gefa listamönnum það svið sem þarf til að þeir geti teiknað upp hvíta fíla á hæðum á Spáni, ljóslifandi á fimm síðum þannig að maður gleymi þeim aldrei - svo eitthvað sé nefnt - þá er lágmark að það sé á þá hlustað.
Stjórnvöld eru hvött til þess standa við stóru orðin þegar kemur að því að styðja við list og meta hana að verðleikum í fjárfestingu og langtímastefnu.