Tilkynningin frá því í gær um að Icelandair hefði fengið lán upp á 80 milljónir Bandaríkjadala, um 10 milljarða króna, frá innlendri lánastofnun (sem reyndist vera Landsbankinn, að sögn Morgunblaðsins í morgun), sýnir að félagið er að takast á við gjörbreyttan veruleika í íslenskri ferðaþjónustu.
Eins og áður hafði verið greint frá var félagið að brjóta gegn skilmálum í fjármögnun, með versnandi afkomu á síðasta ári og endurfjármögnun skulda blasti við. Ríkisbankarnir, Íslandsbanki og Landsbankinn, eru nú meðal lánveitenda félagsins en félagið er að miklu leyti í eigu íslenskra lífeyrissjóða.
Eftir góða afkomu og mikinn uppgang, alveg fram til lok árs 2016, hefur verið í gangi ákveðin endurskipulagning á félaginu og versnandi afkoma - 6,8 milljarða tap á fjórða fjórðungi síðasta árs - sýnir að staðan er verulega krefjandi.
Hún verður það áfram, eins og fram kom í máli Boga Nils Bogasonar, forstjóra, á aðalfundi félagsins á dögunum. Skuldir í lok síðasta árs námu rúmlega 900 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 110 milljörðum króna. Eigið fé félagsins var á sama tíma rúmlega 470 milljónir Bandaríkjadala, eða um 56,5 milljarðar króna.
Baklandið hjá almenningi
Í þessum ólgusjó er að reynast Icelandair vel að vera með almenning að baki sér, bæði í gegnum ríkisbankana og lífeyrissjóðina. Með þeim hætti getur félagið treyst betur á bakland félagsins í hluthafahópnum og einnig þegar kemur að lánsfjármögnun.
Þetta skiptir máli einnig samhliða vanda WOW air og tilraunum félagsins til að bjarga sér, með fjárfestingu frá bandaríska félaginu Indigo Partners. Orðspor og afkoma þessara tveggja keppinauta skiptir Ísland sem heild máli, þannig að vandi annars hvors verður ekki aðskilinn heildarmyndinni.
Ekki liggur fyrir enn hvort fjárfestingin muni ganga eftir, en fyrir liggur að bandaríska félagið hefur farið fram á að Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi, gefi verulega eftir hlut sinn, létt verði á skuldum félagsins og þjónusta þess endurskipulögð í grundvallaratriðum. Margt þarf að ganga upp og ljóst er að fyrirtækið er að glíma við mikinn fjárhagsvanda, þar sem iðgjaldaskuldir eru byrjaðar að safnast upp. Slíkt er yfirleitt til marks um algjöra neyðarstöðu í rekstri fyrirtækja.
Orðsporið skiptir máli
Kastljósið í flugiðnaði beinist nú að flugflotanum. WOW air er með Airbus vélar en Icelandair Boeing.
Eftir tvö flugslys á skömmum tíma, þar sem 737 Max 8 vélar Boeing koma við sögu (ítarlega hefur verið fjallað um þetta á vef Kjarnans), er bandaríski flugrisinn undir mikilli pressu og flugmálayfirvöld nær allsstaðar annars staðar en í Bandaríkjunum, hafa brugðist við með því að hamla notkun á fyrrnefndum vélum.
Flugfélög hafa gert slíkt hið sama, þar á meðal Icelandair sem hefur tekið þrjár vélar af fyrrnefndri tegund úr flotanum, sem telur samtals 33 vélar. Orðspor Boeing hefur mikil áhrif á orðspor þeirra flugfélaga sem nota vélarnar, eins og sést hefur á falli á markaðsvirði þeirra eftir slysið hrikalega í Eþíópíu á sunnudaginn þar sem 157 - allir um borð - létust. Icelandair hefur fallið um 15 prósent á tveimur dögum og fjölmörg flugfélög um allan heim um viðlíka.
Það verður að koma í ljós hversu mikill vandi skapast vegna þess að öll spjót standa nú á Boeing, en augljóst er íslensk ferðaþjónusta á mikið undir. Það er stórmál þegar fólk hættir að treysta flugvélunum. Fyrir Ísland er mikið í húfi, eins og vandinn þessa dagana sýnir. Okkar litla eyja, með aðeins 350 þúsund íbúa, á orðið verulega mikið undir ferðaþjónustunni og hefur kannski átt of góðu að venjast á undanförnum árum.
Augljós kólnun í kortunum
Staðan eins og hún blasir við núna er að ferðaþjónustan sé komin í miklar varnarstellingar. Er þá ótalið að nefna kjaraviðræðurnar, sem geta hæglega leitt til meiri erfiðleika, ef ekki tekst að semja um kaup og kjör starfsfólks á næstunni.
Höfum hugfast að fjöldi ferðamanna á ári fór úr 450 þúsund á ári árið 2010 í 2,7 millljónir í fyrra. Þessi breyting hafði mikil áhrif á íslenska efnahagslífið til hins betra. Aðalatriðið í þessari hagfelldu þróun voru skilvirkar og góðar flugsamgöngur. Þessar samgöngur eru nú að versna og nær öruggt má telja, að því muni fylgja kólnun í hagkerfinu, vítt og breitt.
Þrátt fyrir allt, þá eru stoðir Íslands góðar. Skuldir hjá heimilum, fyrirtækjum og hinu opinbera, hafa dregist saman á undanförnum árum og Seðlabankinn hefur sýnt á undanförnum mánuðum og vikum, að hann er tilbúinn að nota yfir 700 milljarða gjaldeyrisforða til að koma í veg fyrir kollsteypu í gengi krónunnar. Á skömmum tíma hefur gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal og evru veikst nokkuð, en með inngripum (sem fjallað hefur verið ítarlega um að vef Kjarnans) hefur Seðlabankinn unnið gegn frekari veikingu og of miklum óstöðugleika.
Varnarstellingarnar í hagkerfinu, einkum í ferðaþjónustu, sjást orðið glögglega og framundan má búast við frekari merkjum um þær í flestum atvinnugreinum. Eftir mikinn uppgangstíma ætti þetta ekki að koma á óvart en vonandi tekst að búa þannig um hnútana að flugsamgöngur haldist áfram góðar og að ímynd Íslands sem ákjósanlegs ferðamannastaðar verði jákvæð hjá fólki í ferðahug í útlöndum.