Það er ljót tilhneiging okkar ylhýru íslensku að troða öllum störfum og stöðum í karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn. Sérstaklega stingur þetta í augum þegar kemur að persónufornafnanotkun í tengslum við embætti og stöður sem álitnar eru valdamiklar.
Fyrst má benda á nýlegt viðtal Fréttablaðsins sem bar fyrirsögnina: „Biskup brotlegur“ ásamt mynd af Agnesi Sigurðardóttur, biskup Íslands. Hér er ekkert við málfræðina að sakast enda biskup karlkynsorð rétt eins og ráðherra, formaður, kóngur, prestur, forseti, ráðherra, bankastjóri, ríkisendurskoðandi, umboðsmaður, forstjóri, rektor og öll betri störf. Veldur þetta því að allir lagabálkar og orðræða um þessar valdastöður bera merki þessarar karllægu slagsíðu. Hér er brot úr nýjum dómstólalögum frá 2016: „Ráðherra skipar fimm menn sem mynda stjórn dómstólasýslunnar. Einn þeirra skal kjörinn af hæstaréttardómurum úr þeirra röðum og skal hann vera formaður, annar kjörinn af landsréttardómurum úr þeirra röðum og sá þriðji kjörinn af héraðsdómurum úr þeirra röðum“ 6 karlar að bardúsa eitthvað.
Annað dæmi um málnotkun á þessum nótum er þegar persónufornöfn eru notuð í umræðum um stofnanir og fyrirtæki. Hér má nefna umræðu um banka og fólkið sem starfar innan þeirra. Aldrei nokkurn tímann hef ég heyrt rætt um banka þar sem kvenpersónufornafn er notað til að lýsa gjörðum starfsmanna þeirra. „Þær eru bara glæpamenn í þessum bönkum!“, oftar en ekki er karlpersónufornafni skellt á starfsfólk banka: „Þeir eru ekki búnir að læra neitt á hruninu.“ Tel ég þetta stafa af þessari tilhneigingu textasmiða til að nota persónufornafnið „hann“ sem oftast er bein afleiðing þess að karlkynsorð eru notuð yfir allt og alla í efri lögum samfélagsins. Tærasta birtingarmynd þessa eru umræður á alþingi en þar eru ráðherrar ávarpaðir sem „hæstvirtir ráðherrar“ og þingmenn sem „háttvirtir þingmenn“. Vert er að geta þess að 38% þessara þingmanna skilgreina sig sem þingkonur og 5 af 11 ráðherrum eru í raun ráðfrýr.
Enn önnur birtingarmynd þessa einkennilega kima máls okkar birtist á plakati sem ég rakst nýlega á, en þar stóð: „Þú ert ekki ein/einn/eitt.“ Hér hafa textasmiðir rekist á þann skrítna vankant málsins að í ákveðnum tilvikum er ekki hægt að ávarpa einstakling án þess að kyngera hann/hana/það í leiðinni. Í ensku hefur verið reynt að leysa úr þessari flækju með því að nota orðið „they“ í stað „he/her/it“. Að mínu mati er ekki góð lausn að kalla kynsegin fólk „það“ og segja þeim að „það sé ekki eitt“. Líklega væri farsælast ef málið þróaðist á þann veg að „ein“ myndi einnig festa sig í sessi sem ókyngreint eintöluorð og strákar þyrftu ekki að taka því persónulega þó einhver segði: „Þú ert ekki ein.“
Á íslensku má alltaf finna svar, við stöndum frammi fyrir ákveðnum vanda þar sem skipting nafnorða í þrjú kyn reynist torveldari og torveldari með hverju árinu. Einnig er ljóst að nýlegt frumvarp forsætisnefndar um kynrænt sjálfræði mun kalla á breytingar á ýmsum skilgreiningum í hinum ýmsu lögum og opinberu skjölum. Tungumálið verður þá að þróast með og má horfa til „frænda“ okkar Dana sem hafa fundið ágætis lausn á þessu tiltekna vandamáli með skiptingu kynjanna í samkyn annars vegar og hvorugkyn hins vegar.
Við skulum ekki leyfa tungumálinu að hægja á ferðinni til opnara samfélags.