Forsagan
Fyrir nokkrum vikum náðust kjarasamningar fyrir meginhluta félagsmanna í verkalýðsfélögum landsins. Ferlið sem leiddi til þeirrar ánægjulegu niðurstöðu var að ýmsu leyti athyglisvert og lærdómsríkt fyrir alla sem að því stóðu. Hér er gerð tilraun til að lýsa því og aðdraganda þess nánar og draga af því lærdóma handa þeim sem vilja skilja það betur.
Kjarabarátta verkalýðshreyfingarinnar setti mikinn svip á þjóðlífið á árunum 1950-1990. Verkföll voru alltíð og leiddu oft til verulegra launahækkana í prósentum en þeim var síðan mætt með hækkuðu verðlagi á innlendri vöru og þjónustu. Útflutningsatvinnuvegir kölluðu þá á lækkað gengi krónunnar og hún var lækkuð handvirkt sem kallað er, það er með sérstökum ákvörðunum ríkisstjórnar eða seðlabanka. Gengislækkunin leiddi til minni kaupmáttar launatekna þegar upp var staðið, jafnvel í svipað horf og hann hafði verið áður en samningar voru gerðir. Vísitölutrygging launa bættist við þessa mynd og flækti hana enn frekar.
Þessi gangur mála hvað eftir annað sætti að sjálfsögðu gagnrýni flestra aðila og það leiddi að lokum til svokallaðrar þjóðarsáttar á árunum kringum 1990, en hún fólst í stuttu máli í því að menn féllust á að halda krónutöluhækkunum launa í hófi gegn því að þeim yrði ekki jafnharðan velt út í verðlagið.
Með þjóðarsáttinni gerbreyttist ferli kjaramála í landinu eins og alþjóð veit. Í fyrstu virtist sem allt léki í lyndi og flestir voru ánægðir með hina nýju tilhögun. En smám saman komu fram alvarlegar veilur í henni, einkum vegna svokallaðrar nýfrjálshyggju sem varð til þess að ríkisvaldið læddist smám saman undan þeim skuldbindingum sem þjóðarsáttin fól í sér gagnvart því. Þannig þyngdust skattar á lágtekjufólk smám saman verulega og bætur almannatrygginga lækkuðu vegna skerðinga af völdum lífeyriskerfisins, svo að dæmi séu tekin. Lítill vafi leikur á því að þessi lævísi og þessi skammsýni ríkisvaldsins átti verulegan þátt í að skapa þá óánægju og ólgu sem birtist í aðdraganda lífskjarasamninganna á síðustu tveim árum. Þannig rættist hið fornkveðna, að sök bítur sekan.
Ný kynslóð hefur látið til sín taka í verkalýðshreyfingunni á síðustu árum, og á síðasta ári urðu athyglisverð skoðanaskipti milli nýja hópsins og hinnar eldri forystu Alþýðusambandsins. Unga fólkið taldi að baráttuaðferðir þjóðarsáttarinnar hefðu gengið sér til húðar, meðal annars vegna þess sem hér var sagt um sígandi flótta ríkisvaldsins frá skuldbindingum sínum og um versnandi kjör lágtekjufólks af þeim sökum. Nú þyrfti að snúa aftur til fyrri aðferða með harðari baráttu og verkföllum ef svo vildi verkast. Eldri forystan svaraði með töflum, tölum og línuritum sem áttu að hennar mati að sýna hvernig þjóðarsáttin hefði skilað meiri kaupmáttaraukningu en verkfallaleiðin hafði gert á áratugunum '50-'90. En þá gleymdist að sjálfsögðu hin mikla kjarabót réttindanna sem náðist á því tímabili og áður var lýst.
Og svo mikið er víst að sá mikli byr sem hin nýja verkalýðsforysta hefur fengið í seglin er glöggt merki um að ný sjónarmið hennar hafa hitt í mark, bæði í félögunum sjálfum og eins meðal almennings í landinu. Nýfrjálshyggja og ójöfnuður höfðu gengið úr hófi fram og nú vildu margir snúa við á þeirri braut og beita til þess tiltækum vopnum.
Vandaður undirbúningur hefur skilað sér
Forvitnilegt er að skoða hvernig hin nýja verkalýðsforysta undirbjó samningaverkefnið af sinni hálfu. Mikil og ígrunduð áhersla var frá byrjun lögð á að bæta kjör þeirra lægstlaunuðu, meðal annars með því að krefjast launahækkana um fasta krónutölu í stað prósentuhækkana sem hafa annars tíðkast eins lengi og elstu menn muna. Fastheldni manna á þann sið kom glöggt fram í því að Samtök atvinnulífsins kusu að horfa algerlega framhjá þessu atriði þegar þau birtu mynd sína af kröfum Eflingar og Starfsgreinasambandsins. Þannig settu þau fram stórlega ýkta mynd af kröfum verkalýðsfélaganna á vefsíðu sinni og hún kom síðan fram í öðrum fjölmiðlum og í viðbrögðum fjármálaráðherra. Þó að á þetta væri bent á opinberum vettvangi virðist ekki hafa verið beðist afsökunar á þessum ómálefnalegu vinnubrögðum. Varla er vafi á því að þetta hefur ekki orðið til að flýta samningum
[adspot[Þá er vert að nefna að Efling fékk sérfróða og þrautreynda menn, Indriða Þorláksson fyrrverandi ríkisskattstjóra og Stefán Ólafsson prófessor, til að gera vandaða skýrslu um þróun skattamála, og síðan voru hugmyndir félaganna í þeim málum byggðar á henni. Fjármálaráðuneytið lét þessa skýrslu hins vegar sem vind um eyru þjóta þegar það lagði fram fyrstu tillögur sínar í skattamálum. Þær sýndu skilningsleysi á kröfunni um bætt kjör láglaunafólks enda fengu þær dræmar viðtökur víðast hvar í samfélaginu og ollu mörum vonbrigðum. Ríkisstjórnin sem heild virðist hafa séð að sér síðar, þegar brandur verkfallanna var kominn á loft, og stórbætti hún þá hugmyndir sínar í skattamálum með því að færa áhersluna í ríkari mæli á láglaunahópa.
Vandaður undirbúningur eins og hér er lýst hefur ekki verið daglegt brauð við gerð kjarasamninga hér á landi. Það yrði því gleðiefni ef allir aðilar samninga tækju upp þau vinnubrögð að fá til liðs við sig sérfróða menn sem mundu hjálpa þeim að skilja og meta þær hugmyndir og kröfur sem uppi eru öllum megin borðsins og breyta þannig marklitlu þófi í markvisst samstarf um hið sameiginlega markmið, að ná samningum.
Ávinningarnir
Miðað við fyrri sögu kjaramála og kjarasamninga eru helstu ávinningar lífskjarasamninganna þessir:
- Veruleg og þörf bót á launakjörum hjá láglaunafólki.
- Róttæk breyting á skattamálum og barnabótum þeirra lægst launuðu og leiðrétting á skekkju sem hefur færst í vöxt smám saman að undanförnu.
- Stóraukin framlög hins opinbera til húsnæðismála á félagslegum grunni, þar sem við höfum hingað verið eftirbátar flestra nágrannaþjóða.
- Fordæmi sett um það að unnt er að semja um krónutöluhækkanir.
Því miður nær þetta samkomulag, eðli málsins samkvæmt, ekki til allra lágtekjuhópa en við höldum í vonina um að íslensk stjórnvöld beri gæfu til að því eftir með því að bæta kjör aldraðra og öryrkja með auknum fjárveitingum og minni skerðingum í almannatryggingakerfinu, sem eru orðnar allt of miklar. Til þess mætti til að mynda nota nýjan hátekjuskatt og hækkun á fjármagnstekjuskatti, til samræmis við nágrannalönd.
Höfundur er prófessor á eftirlaunum við Háskóla Íslands
Tenglar:
Stefán Ólafsson um samninginn.
Um lýsingu SA á kröfum Eflingar og SGS, eftir ÞV.
Um skattamálin og músina sem læðist, eftir ÞV.