Í aðdraganda og við fall WOW air skapaðist umræða um eitt atriði, sem skiptir Ísland miklu máli. Það er flugbrúin - tengingin við umheiminn með flugvélum.
Um 43 prósent af gjaldeyristekjum þjóðarbússins hefur mátt rekja til þeirra ferðamanna sem koma til landsins en um 98 prósent þeirra kemur með flugvélum og afgangurinn með skemmtiferðaskipum.
Fall WOW air var áfall fyrir hagkerfið og ferðaþjónustuna, en vandamálunum er ekki lokið. Icelandair glímir við vanda vegna fyrirsjáanlegra vandamála sem snúa að endurskipulagningu flugflota félagsins.
Flugslysin í Indónesíu 29. október og í Eþíópíu 13. mars, þegar 737 Max vélar Boeing toguðust niður til jarðar með þeim afleiðingum að allir um borð, 346, létust, hafa leitt til mikilla áskorana og erfiðleika í flugi. Frá þeim tíma hafa spjótin í rannsóknum beinst að MCAS-kerfi vélanna, eins og fjallað hefur verið um ítarlega á vef Kjarnans, en það á að sporna gegn ofrisi.
Ennþá er notkun á Max vélunum bönnuð og ekki ljóst hversu langur tími mun líða þar til kyrrsetningu lýkur.
Það er ekki nóg að bandarísk flugmálayfirvöld gefi Boeing heilbrigðisvottorð heldur þurfa líka að koma ákvarðanir um slíkt í öðrum löndum, svo að notkun á Max vélunum geti orðið almenn á nýjan leik í alþjóðaflugi.
Ekki er augljóst hvenær þetta gerist og raunar gæti farið svo, að langt sé í að notkun á Max vélum verði heimiluð á heimsvísu.
Lokaniðurstöður rannsókna liggja ekki fyrir og jafnvel þótt Boeing segist hafa unnið að því að uppfæra hugbúnaðinn og laga galla, þá verður vinnsluferill félagsins endurskoðaður í heild sinni. Það er ekki lítið mál fyrir þennan rótgróna risa í flugiðnaði.
Alríkislögreglan FBI og bandaríska dómsmálaráðuneytið fylgjast einnig með hverju skrefi og hafa sett af stað sjálfstæðar rannsóknir.
Icelandair er eitt þeirra félaga sem hefur veðjað á Max vélarnar í sínum flota og íslensk ferðaþjónusta er þar með háð þeim, enda Icelandair í mikilvægasta hlutverki allra fyrirtækja þegar kemur að þessari atvinnugrein.
Getur orðið mikið viðbótarhögg
Icelandair var búið að taka þrjár Max vélar í notkun, sem nú hafa verið kyrrsettar.
Uppfærð flugáætlun Icelandair miðar við að Boeing 737 MAX flugvélar félagsins verði kyrrsettar til 16. júní næstkomandi, að því er fram hefur komið í tilkynningu félagsins til kauphallarinnar. „Með þeim mótvægisaðgerðum sem gripið hefur verið til með því að bæta leiguvélum við flota félagsins hefur tekist að takmarka áhrifin á leiðarkerfið verulega.Félagið gekk frá leigu á tveimur Boeing 767 breiðþotum sem tilkynnt var um þann 1. apríl síðastliðinn. Í dag gekk félagið frá leigu á þriðju vélinni en hún er af gerðinni Boeing 757-200 og er 184 sæta. Hún verður í rekstri frá 15. maí fram í lok september 2019 segir í tilkynningu félagsins. Á tímabilinu 1. apríl – 15. júní mun félagið fella niður um 3,6% af flugferðum sínum sem samsvarar rúmlega 100 ferðum á tímabilinu. Í flestum tilfellum er um að ræða flug til áfangastaða þar sem fleiri en eitt flug eru í boði sama dag. Þrátt fyrir þessar ráðstafanir helst sætaframboð félagsins nánast óbreytt þar sem notast verður við Boeing 767 flugvélar sem eru stærri en Boeing 737 MAX vélarnar. Af þeim sökum er gert ráð fyrir óverulegum áhrifum á heildarfjölda fluttra farþega á tímabilinu,“ segir í tilkynningu félagsins.
Til lengdar litið vandast málið. Það þarf að finna lausn á flotamálum félagsins, sem er ekki dýrari en floti með Max vélum, og þjónustustigið má ekki versna. Það þarf ekki að rýna mikið í stöðuna til að sjá að þetta verður verulega krefjandi fyrir félagið.
Vonandi tekst stjórnendum félagsins að finna góðar lausnir til að vernda íslensku flugbrúna, því annars getur voðinn verið vís. Höggin fyrir íslenska hagkerfið geta vel orðið nokkuð stór - á við annað fall WOW air t.d. - ef ekki tekst að finna góðar lausnir við að endurskipuleggja flotann og leiðakerfið, vegna kyrrsetningar á Max vélunum.
Gæti hjálpað til
Það er mikilvægt fyrir Icelandair að fá nýjan hluthafa í hópinn. PAR Capital Management verður næst stærsti hluthafi félagsins, með samþykki hluthafafundar sem hefst klukkan 16:00 í dag, með um 11,3 prósent hlut. Kaupin eru upp á 5,64 milljarða króna.
Eitt af því sem gæti gerst með innkomu þessa stóra alþjóðlega hluthafa, er að félaginu muni ganga betur að leysa úr flotavandanum. PAR Capital á mikla hagsmuni undir vegna Boeing véla, enda er félagið stór hluthafi í félögum sem notast við Boeing vélar, þar á meðal Delta Airlines, Southwest airlines og Jetblue. Auk þess er félagið með mikla hagsmuni í alþjóðlegri ferðaþjónustu meðal annars í gegnum hlutafjáreign í bókunarsíðum Expedia, Booking og Trip Advisor.
Þrátt fyrir þessa innkomu PAR Capital þá blasir það við, að Icelandair gæti vel þurft að auka hlutafé enn frekar, til að mæta áskorunum framundan. Mikil samkeppni í rekstrarumhverfinu gerir stöðuna enn snúnari, og verður spennandi að fylgjast með því hvernig afkoma félagsins var á fyrstu þremur mánuðum ársins, en uppgjör vegna þess tímabils verður birt 3. maí og kynnt 6. maí.
Síðustu þrír mánuðir síðasta árs voru félaginu erfiðir og tapaði félagið 6,8 milljörðum króna. Í lok árs var eigið féð um 55 milljarðar og skuldirnar um 110 milljarðar. Markaðsvirði félagsins er töluvert undir eigin fénu þessi misserin, eða um 43 milljarðar króna.
Þó undirstöðurnar í íslenska hagkerfinu séu sterkar í augnablikinu á marga mælikvarða, þá sýna hremmingarnar í flugiðnaði á heimsvísu að Ísland á mikið undir skilvirkum og góðum flugsamgöngum. Niðurfelling á einni flugleið kostar þjóðarbúið milljarða í gjaldeyristekjur. Vonandi tekst að styrkja flugbrúna íslensku, en segja má að það sé mikil varnarbarátta um hana í augnablikinu.