Við höfum verið minnt á það að undanförnu að ýmislegt sem gerist út í heimi getur haft mikil bein áhrif á þjóðarhag. Kyrrsetning á tilteknum tegundum flugvéla frá Boeing, 737 Max, er t.d. orðin að nokkuð stórum óvissuþætti fyrir íslenskt efnahagslíf og þá einkum ferðaþjónustuna.
Fyrir lítið eyríki, sem er þátttakandi í alþjóðavæddu efnahagslífi heimsins, þá geta svona hlutir orðið eins og náttúruhamfarir fyrir hagkerfið.
Það sama má segja um það, ef tollastríð leggjast illa fyrir íslenska hagsmuni, t.d. vegna breytinga á alþjóðasamningum um viðskipti. Ekki síst þess vegna hefur verið ánægjulegt að fylgjast með stefnu íslenskra stjórnvalda að undanförnu þegar kemur að utanríkismálum.
Breytt staða
Skerpt hefur verið á þeirri hugsun, að Ísland hafi öðru fremur hagsmuni af því að vera með opna og frjálsa viðskiptastefnu gagnvart helstu markaðssvæðum.
Það vakti athygli þegar Ísland var að marka enn skýrari stefnu hvað þessi mál varðar, með því að liðka fyrir viðskiptum við Kína og Bandaríkin, á sama tíma og þessir risar alþjóðaviðskiptanna eiga nú í deilum um viðskipti sem birtast í tollastríði, með víðtækum afleiðingum. Þetta var meðal annars gert að umfjöllunarefni í ítarlegri fréttaskýringu Kjarnans.
Líklegt verður að teljast að þessar deilur Bandaríkjanna og Kínverja leysist ekki endilega með góðu, heldur frekar með breyttri þungamiðju í viðskiptum í heiminum - jafnvel eftir hörð átök (vonandi bara pólitísk).
Frá því gjaldmiðill Kína, júan, var viðurkenndur sem forðamynt hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum eftir miklar rökræður, hafa Kínverjar verið í sterkari stöðu við að stilla sér upp gagnvart Bandaríkjunum og raunar Evrópu líka. Þetta hefur gerst á tiltölulega skömmum tíma, eftir árið 2010.
Í dag er um 65 prósent af gjaldeyrisforða heimsins í Bandaríkjadal og valdamikil staða Bandaríkjanna, bæði efnahagslega og ekki síður hernaðarlega, tengist þessari stöðu beint.
Evran er með um 25 prósent og aðrar myntir, júan þar á meðal, með afganginn, en umfang forða í júan er að vaxa hratt og mun gera það í nánustu framtíð, ekki síst í nágrannaríkjum Kína í Asíu. Áhugi Kínverja á nánu efnahagssambandi við Afríkuríki leynir sér heldur ekki.
Evrópa, Asía, Bandaríkin - og nú Afríka
Ísland hefur mörg spil á hendi þegar kemur að því að marka veginn til framtíðar. EES-samningurinn tryggir Íslandi aðgang að 500 milljóna markaði í Evrópu.
Ólíklegt er innganga í Evrópusambandið sé á næsta leyti, sé horft til stefnu stjórnmálaflokkanna. Fyrir því er ekki meirihluti, þó ýmislegt geti breyst á skömmum tíma í stjórnmálum.
Ein mestu tækifærin sem Ísland hefur til að efla stoðir efnahagslífsins er að styrkja sambandið við önnur markaðssvæði en Evrópu. Kína og Asíumarkaðir eru þar undir og að því hefur verið unnið, meðal annars með dugmiklu starfi í Japan, sem nú er farið að opna tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í vaxandi mæli.
Þó lítið sé um það talað (miðað við tilefnið) þá er nýtt efnahagsstórveldi að teiknast upp í heiminum með hraðri þróun á flestum sviðum.
Það stórveldi er Afríka.
Líklegt er að fríverslun muni blómstra á næstu árum þar, með auknu samstarfi ríkja og fríverslunarsamningum, og mikilvægt er fyrir Ísland að fylgjast vel með þessari þróun og tengjast umræðunni um það sem er að gerast beint með þátttöku.
Ísland á langa sögu viðskiptasambands við nokkur Afríkuríki, meðal annars Nígeríu - risann í álfunni með 180 milljónir íbúa - en það sem er að gerast þessi misserin opnar á mikil tækifæri.
Í Afríku - ekki síst sunnan Sahara - á sér stað hröð umbreyting frá vanþróuðum samfélögum til þróaðra samfélaga. Markaðir eru að verða sterkari, millistétt að verða stærri í mörgum ríkjum, og stórkostleg uppbygging að eiga sér stað víða, eftir áralangt starf.
Því miður er fátæktin líka fyrir hendi, og hörmungar sömuleiðis, en það vantar oft að rætt sé um það góða sem átt hefur sér stað og er að gerast.
Frumkvöðullinn Bill Gates hefur haldið því fram, að umheimurinn verði að fara opna augun fyrir því sem er að gerast í Afríku. Oft sé það eina sem vanti að fjárfesting eigi sér stað til að hraða þróun í rétta átt og tækifærin í Afríku séu jafnvel meiri en á flestum öðrum svæðum í heiminum.
By 2035, Africa will have the largest workforce in the world. Investing in young people’s health and education is the best way to make the most of this opportunity: https://t.co/ZhlPTmLtYm pic.twitter.com/rQ0iWSkOYz
— Bill Gates (@BillGates) September 30, 2018
Árið 2035 verður Afríka með stærsta vinnumarkaðinn í heiminum, meðal heimsálfa, vegna þess hve stór hluti af fólki er ungt fólk. Fjárfesting í menntun og heilbrigðiskerfi hefur verið að skila stórkostlegum árangri í álfunni, en betur má ef duga skal.
Stundum gleymist það líka að Afríka er með 1,3 milljarða íbúa og miklu sterkari rætur í mörgum iðnaði en fólk á Vesturlöndum áttar sig oft á. Landbúnaður, ferðaþjónusta, iðnaður ýmis konar og tækni. Allt hefur verið að þróast með jákvæðum hætti á miklum hraða.
Utanríkisstefnan íslenska mun alltaf markast af því að Ísland er lítið land með engan her. Besta vörnin er að stunda stanslausan sóknarleik þegar kemur að alþjóðlegum viðskiptum, og opna dyr inn á nýja markaði. Afríka, sem fríverslunarsvæði framtíðarinnar, á það skilið að velmegunarríki, jafnvel þó lítil séu, gefi jákvæðri þróun í álfunni gaum og tengist henni beint með framlagi og áhuga.