Kveikjan að ítarlegri umfjöllun ritstjórnar New York Times, um fjöldamorðin á Filippseyjum, voru myndir sem ljósmyndarinn Raffy Lerma, sem vinnur hjá The Philippine Daily Enquirer, hefur tekið yfir langan tíma.
Myndirnar sýna fórnarlömb brjálæðisins sem Duterte forseti hefur staðið fyrir, en hann beitir nú aftökusveitum til að drepa fíkla - tugþúsundum saman. Aðgerðirnar eru í gangi samkvæmt stefnu forsetans.
Fjöldamorð
Umfjöllunin sem New York Times birti fyrst 27. mars 2017, fyrir rúmlega tveimur árum, er áhrifamikil og myndirnar óhuggulegar. Frásagnirnar sem byggt er á eru það líka, ekki síst hræðslan hjá viðmælendum.
Duterte sjálfur hefur gortað sig af því að hafa drepið mann með því að henda honum úr þyrlu, þannig að það er nú ekki hægt að búast við yfirveguðum málflutningi hjá honum. Hann talar líka um að stefna hans - fjöldamorðastefnan - sé að skila árangri, og hefur látið yfirvöld dreifa tölum máli sínu til stuðnings.
Þetta er umræða sem minnir um margt á stórkostlegar senur í þáttunum The Wire eftir David Simon. Þar reyndi lögreglan margt, til að fá stjórnmálastéttina til styðja við lögregluna, og öfugt. Það er þjóðaríþrótt í Baltimore, sviði þáttanna, að fegra glæpatíðnistölurnar til að stjórnmálamenn geti stært sig af góðum árangri.
Stríðið gegn fíkniefnum verður ekki gert að frekara umtalsefni, að þessu sinni, en vísa má til fyrri leiðaraskrifa í þeim efnum.
Á Alþingi í dag var til umræðu fullgilding fríverslunarsamnings milli Fillippseyja og EFTA-ríkjanna, en komu þar fram áhyggjuraddir vegna stöðu mannréttindamála. Var fullgildingin samþykt.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, benti á að staðan væri fullkomlega óviðunandi, og að bíða þyrfti með fullgildinguna af Íslands hálfu. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, tók í sama streng.
Full ástæða er til að taka undir þessar áhyggjur.
Hins vegar er líka mikilvægt að átta sig á því þegar brjálæðingar eins og Duterte reyna að fegra glæpatíðnistölurnar með fjöldamorðum - sem eru þá færð til bókar yfirvalda sem eitthvað annað en glæpir - að erfitt er að refsa fyrir slíkt, með því að hamla viðskiptum við löndin sem sitja uppi með svona menn við valdaþræðina.
Filippseyjar er orðið að efnahagslegu stórveldi og hefur upplifað gríðarlegan efnahagslegan vöxt á síðustu árum.
Þar búa yfir 100 milljónir manna og er svæðið í miðpunkti vaxtarsvæðisins í Asíu, tengipunktur hávaxasvæðanna milli Víetnam og Indónesíu. Fyrirsjáanlegt er að efnahagslegur uppgangur verði viðvarandi næstu ár eða áratugi á þessu svæði. Ekki síst vegna þess að svæðið allt í næsta nágrenni er að fara í gegnum mikið umbreytingatímabil.
Hvers vegna ætli það sé?
Fólk getur síðan ímyndað sér hvers vegna það er mikið af fíkniefnum á Filippseyjum, ekki síst í kringum hafnarsvæðin í Manilla. Kannski ná fjöldamorðin og aðgerðirnar hjá Duterte til 0,01 prósents af fíkniefnunum sem fara um svæðið, en mjög líklega alls ekki. Hlutfallið er örugglega miklu minna.
Aukin viðskiptatengsl við Filippseyjar kunna að styrkja landið til framtíðar og þá viðspyrnu almennings gagnvart þessari óhuggulega framkomu við fíkla og aðstandendur þeirra. Góð viðskiptasambönd geta leitt til jákvæðra breytinga, ekki bara efnahagslegra heldur ekki síður félagslegra.
En mannréttindabaráttan verður ekki unnin með viðskiptasamningunum, heldur ekki síður með þrotlausri baráttu og aðhaldi gagnvart valdhöfum. Þannig skerpist á boðskapnum, í hinu alþjóðlega samhengi. Þess vegna er gott að sjá þau Rósu og Helga Hrafn benda á klikkunina sem hefur verið í gangi undanfarin ár á Filippseyjum, og Raffy Lerman hefur skrásett og sýnt umheiminum.