Tjáningarfrelsið er það mikilvægasta sem við höfum í lýðræðislegu samfélagi og er án efa hornsteinn þess. Í því felst réttur fólks til að tjá sig og er það jafnan grundvöllur fyrir heilbrigðri fjölmiðlun sem leiðir af sér heilbrigt samfélagsumræðu. Með samfélagmiðlum hefur tjáningarfrelsið fengið nýjan vettvang til að blómstra fyrir fólk sem ekki hafði möguleika til að tjá sig.
Á þessu er þó myrkari bakhlið. Í skúmaskotum internetsins leynist alls konar óhróður og áróður sem fær að grassera nánast í friði. Allt í skjóli tjáningarfrelsisins. Nú eru góð ráð dýr. Hvar liggja mörk tjáningarfrelsis og hatursorðræðu? Við erum með lagalegar skilgreiningar á hvað kallast hatursorðræða og er hún ólögleg á Íslandi. Gráu svæðin eru heldur flóknari. Ummæli sem liggja á mörkum hins löglega.
Orð hafa merkingu
Fyrst er vert að velta fyrir sér merkingu orða. Hvað þýða orðin sem við notum í opinberri umræðu og dagsdaglega? Þessi merking er víða farin að skolast til og virðist sem hún geti verið afstæð á þann hátt að hún breytist eftir því frá hverjum orðin koma. Gott dæmi er orðið rasisti en fyrir nokkru notaði þingmaður einn hugtakið „rasisti umræðunnar“ yfir mann sem gagnrýndi sá hinn sama fyrir rasisma. Krakkar segja jafnan „nei, þú“ þegar þau verða rökþrota og er þetta af sama meiði. Hinsvegar gangast sumir við því að vera rasistar vegna þess að þegar einhver fer með haturs- eða fordómafull ummæli um til að mynda útlendinga þá er sá hinn sami kallaður rasisti en til þess að réttlæta eigið orðagubb þá er merkingin núlluð út.
Merking orða getur vissulega breyst með tíðarandanum, við höfum mörg dæmi þess að samfélagið hættir að nota viss orð sem þykja ekki falla vel við ríkjandi gildi samfélagsins. Í þeim tilfellum er það gert til þess að vernda þá sem á hallar í samfélaginu, en ýmis orð hafa verið notuð niðrandi um fatlaða, samkynhneigða og fólk af ólíkum kynþáttum. Þá þykir sjálfsagt að taka orðin úr umferð.
Ef við erum aftur á móti komin á þann stað að það sé „í lagi“ að vera kallaður rasisti þá erum við á hættulegum slóðum. Það kallar á að endurvekja merkingu orðsins – þetta ástand kallar á að við köllum hlutina það sem þeir eru. Borð er borð. Rasisti er rasisti.
Frelsi fylgir ábyrgð
Þegar tjáningarfrelsi og hatursorðræða skella saman þá verðum við að íhuga vel hvar mörkin liggja. Í tjáningarfrelsinu felst að fólk verði að fá að vera dónalegt án þess að eiga yfir höfuð sér fangelsisvist eða fjársekt. Að kalla t.d. einhvern „fávita“ er gildisdómur viðkomandi og ætti ekki að vera vítavert gagnvart lögum. Fólki á að vera frjálst að hafa órökstudda skoðun um þriðja orkupakkann án þess að ríkisvaldið skipti sér af því. Enginn vill veruleika Orwells sem hann lýsir í 1984 – þar sem fasistar hafa snúið orðum á haus og fólk býr við hugsunarlögreglu.
En frelsi fylgir ábyrgð og það er ekki takmarkalaust. Frelsi er alltaf bundið ákveðnum skilyrðum og það á við um tjáningarfrelsi.
Í þessu felst tvennt.
Níð verður norm
Í fyrsta lagi eru lög í landinu sem banna hatursorðræðu. Í núgildandi lögum er kveðið á um að hægt sé að sækja til saka hvern þann sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna. Nú liggur fyrir að breyta þessum lögum og þrengja skilgreininguna á hatursorðræðu.
Eyrún Eyþórsdóttir, aðjúnkt í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, hefur rannsakað hatursorðræðu – eða haturstjáningu eins og hún kallar það – og segir Eyrún að hún grafi undan lýðræði og jaðarsetur minnihlutahópa. Með hatursorðræðu séu ákveðnir hópar beittir þöggun með ofbeldi og/eða hótun um ofbeldi.
Þarna skiptir miklu máli að huga að ábyrgð í orðavali. Að tala með niðrandi hætti um minnihlutahópa, til að mynda á samfélagsmiðlum, hefur afleiðingar. Því þegar við gerum það þá normalíserum við orðræðuna og níðið verður hversdagslegt. Að halda fram órökstuddum fullyrðingum um útlendinga, sem ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum eða eru studdar með staðreyndum, hefur afleiðingar. Það býr til fordæmi þess að það sé í lagi að tala þannig um aðra sem hefur enn víðtækari afleiðingar.
Hið félagslega taumhald
Í öðru lagi er ákveðið félagslegt taumhald í samfélaginu sem „passar upp á“ að fólk komist ekki upp með að segja hvað sem er án afleiðinga. Þetta finnst mér mjög mikilvægt atriði. Þegar við sem samfélag viðurkennum ekki ákveðna orðræðu og tökum meðvitaða afstöðu að standa gegn henni. Þessi orðræða getur, eðli málsins samkvæmt, verið misalvarleg en þá eru afleiðingarnar líka misjafnar. Við höfum mýmörg dæmi þess á undanförnum misserum að fólk hefur þurft að taka einhvers konar afleiðingum fyrir niðrandi tal. En við höfum líka dæmi þess að nánast engar afleiðingar hafa hlotist af slíku níði.
Þannig að þegar fólk spyr: „Hva, má ekkert segja lengur?“ þá er svarið jú. Það má segja alls konar en eins og með allt annað þá geta auðvitað verið afleiðingar af ákveðnu háttalagi eða talsmáta. Þegar við kennum börnunum okkar að það sé rangt að tala illa um vini sína, þá fellst í því ákveðinn móralskur dómur. Það er ekki ólöglegt að tala illa um vini sína en enginn vill umgangast „vini“ sem gera slíkt.
Þegar fólk gegnir ábyrgðarstöðu í samfélaginu þá getur það ekki hagað sér eða sagt nákvæmlega sem það vill. Því orð og gjörðir hafa afleiðingar. Og stundum felast þær afleiðingar í því að fólk missir traust og þá er það ekki fært um að gegna embættinu lengur. Í vægari tilfellum þá verða afleiðingarnar minni, eins og gefur að skilja.
Er afsökunarbeiðni nóg?
Nærtækasta dæmið er frá því í síðustu viku þegar Björgvin Stefánsson, leikmaður KR í fótbolta, sagði í leiklýsingu: „Þetta er það sem ég er alltaf að segja. Það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum.“ Hann baðst fljótlega afsökunar á ummælunum en KR sendi síðar frá sér tilkynningu þar sem félagið harmaði ummælin. Málið var lagt fyrir aganefnd KSÍ og Björgvin hefði getað átt yfir höfði sér leikbann.
Björgvin var aftur á móti í byrjunarliði KR í leik gærkvöldsins og spilaði fyrstu 62 mínútur leiksins. Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var spurður hvort það hefði einhvern tíma komið til greina að halda Björgvini utan hóps í leik dagsins vegna atviksins. Hann svaraði að landsliðsfyrirliðinn okkar, Aron Einar Gunnarsson, hefði hraunað yfir Albaníu hér um árið og að hann hefði byrjað næsta leik og ekkert bann fengið. „Ég meina það er fullt af fólki sem hefur gert mistök. Björgvin gerir mistök. Hann áttar sig á því algjörlega um leið og biðst fyrirgefningar alveg um leið,“ sagði þjálfarinn.
Jú, gott og blessað. Björgvin baðst afsökunar. Flott. En er það nóg? Afsökunarbeiðni er mikilvæg en það verða að vera viðeigandi afleiðingar vegna svona tals því annars normaliserum við það. Ef enginn þarf að taka afleiðingum gjörða sinna þá sjáum við enga ástæðu til að bæta okkur og þá gætum við allt eins sleppt því að huga að mannréttindum, samkennd, mannúð, réttlæti og lýðræði.