Á föstudaginn skrifaði Helga Dögg Sverrisdóttir grein um falskar ásakanir nemenda. Sá pistill gerir lítið úr þeirri vitundarvakningu sem hefur átt sér stað í samfélaginu hvað varðar ofbeldi gegn börnum.
Nú um þessar mundir er Unicef að keyra mikilvæga herferð sem endurspeglar það ofbeldi sem börn á Íslandi verða fyrir. Þar eru um 7000 manns búnir að skrifa undir áskorun um að stjórnvöld eigi að gera allt sem þau geti til að koma í veg fyrir ofbeldi gegn börnum. Ofbeldi er of mikið. En 16,4% barna þurfa að líða líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi fyrir 18 ára aldur.
Það er rétt að langflest börn séu til fyrirmyndar og þó að Helga komi inn á það þá er það líka staðreynd að langflest börn verða ekki fyrir ofbeldi. Það að fjalla um þessi svokölluðu „skemmdu epli“ afvegaleiðir umræðuna og gerir það að verkum að lítið er gert úr þeim sem verða fyrir ofbeldi og þurfa að nýta sér verkferla skólastjórnenda. Það að skólastjórnendur hafi áhyggjur af fölskum ásökunum gerir það að verkum að barn sem verður fyrir ofbeldi gæti mögulega átt von á því að það geti ekki treyst verkferlum. Þetta eru börn, í guðanna bænum og þurfa verkferlar að leggja áherslu á það sem er barninu fyrir bestu.
Ég hvet Helgu endilega til að nýta sína getu til að skrifa fallega til að styðja við þau börn sem fá ekki að upplifa öryggi öllum stundum.
Höfundur er nýstúdent frá Verzlunarskóla Íslands.