Engum dylst að deilurnar um Drangajökulsvíðerni hafa verið afar harðar síðustu misseri. Í huga greinarhöfundar kristallast margs konar samfélagslegur ágreiningur í átökunum um villta náttúru Ófeigsfjarðarheiðar og Drangajökulsvíðerna. Í Hvalárvirkjunarmálinu eigast annars við náttúruvernd, baráttan fyrir virðingu og betri umgengni um náttúruna, vörslu hennar ósnortinnar til handa ókomnum kynslóðum og síðast en ekki síst verndun náttúrunnar hennar sjálfrar vegna. Hins vegar blasa við áform í anda stóriðju- og ofurvirkjanastefnu síðustu aldar, fyrirætlanir þeirra sem vilja breyta Ófeigsfjarðarheiði í eitt samfellt virkjanasvæði með byggingu alls þriggja umfangsmikilla virkjana, þar sem safna á saman tærum heiðarvötnum og miðla þeim þvers og kruss um ótal skurði og veitugöng milli miðlunarlóna á heiðinni, einungis svo kreista megi aðeins fleiri megavött út úr náttúru landsins ofan í gin stóriðju eða bitcoingraftar.
Mögulega hefðu virkjanaáformin á Ófeigsfjarðarheiði talist til framfara fyrir 60–80 árum en í dag eru þessar hugmyndir um Hvalárvirkjun og systurvirkjanir á svæðinu úreltar. Á tímum loftslagsbreytinga af manna völdum og sífellt aðgangsharðari ásóknar mannkyns í takmörkuð og dýrmæt náttúrugæði eru stórkarlalegar stórvirkjanahugmyndir um eyðileggingu Drangajökulsvíðerna nánast forneskjulegar, svo gamaldags eru þær. Drangajökulsvíðerni eru afar mikilvægur hluti af villtri náttúru landsins, og raunar að öllum líkindum eitt af allra mikilvægustu víðernum Evrópu.
Þetta hefur allt verið rakið ótal sinnum, meðal annars af greinarhöfundi sem áður hefur ritað fjórar greinar á Kjarnann um málið, Viðari Hreinssyni bókmenntafræðingi sem ritað hefur tvær afar yfirgripsmiklar greinar um Hvalárvirkjun (1 og 2), Tryggva Felixsyni formanni Landverndar, heimamönnum í samtökunum Rjúkandi, og fjölmörgum öðrum, bæði umhverfisverndarsamtökum og áhyggjufullum náttúruverndarsinnum, sem hafa gengið um svæðið, rannsakað það á ýmsa vegu, fjallað um það í fjölmiðlum og birt þaðan magnaðar myndir.
Framkvæmdaleyfi án virkjanaleyfis
Núna um miðjan júní gekk í gildi deiliskipulag hjá Árneshreppi sem opnar fyrir framkvæmdir HS Orku innan hinna ósnortnu og víðfeðmu Drangajökulsvíðerna. Á sama tíma gaf hreppsnefnd Árneshrepps út framkvæmdaleyfi til handa virkjanaaðilunum. Þótt þeir og hreppsnefndin haldi því blákalt fram að þessar framkvæmdir séu „bara“ vegna undirbúningsrannsókna og þær séu ekki hluti virkjanaframkvæmda þá er vitanlega öllum ljóst að hér er grímulaust verið að hefja virkjanaframkvæmdir á víðernunum, án þess þó að gefið hafi verið út virkjanaleyfi. Raunar segja virkjanaaðilar það beinlínis sjálfir í umsókn um framkvæmdaleyfi að verið sé að hefja „fyrsta áfanga [Hvalárvirkjunar] sem er lagning vinnuvega til að hægt sé að stunda frekari rannsóknir fyrir virkjunarframkvæmdir“.
Með öðrum orðum eru framkvæmdaraðilar að læða sér inn bakdyramegin með því að klippa „undirbúningsrannsóknir“ frá byggingu sjálfrar virkjunarinnar og ætla sér þannig að hefja framkvæmdir án þess að hafa raunverulega tilskilin leyfi fyrir byggingu virkjunarinnar, sem er hið endanlega virkjanaleyfi frá Orkustofnun. Um leið og vegirnir hafa verið lagðir út um alla heiði verður ekki aftur snúið, framkvæmdir hafa verið hafnar, víðernin eyðilögð og jarðvegurinn tilbúinn fyrir áframhaldandi framkvæmdir. Skaðinn verður skeður.
Allt þetta er gert með blessun hreppsnefndar og Skipulagsstofnun hefur á óskiljanlegan hátt ekki treyst sér til að slá á puttana á HS Orku og hreppnum heldur lætur þessa óhæfu óátalda, jafnvel þótt fjöldi einstaklinga og umhverfisverndarsamtaka hafi ítrekað bent á að þetta þekkta bragð, að búta framkvæmdir niður í minni meðfærilegri bita til að leyna heildarframkvæmdinni, geti ekki staðist lög.
Yfirgangur gagnvart landeigendum
Fátt virðist því bíta á virkjunarfyrirtækin, HS Orku og Vesturverk, sem gengið hafa hart fram við áform sín um að breyta Ófeigsfjarðarheiði í eitt samfell orkuiðnaðarsvæði. Til að bæta gráu ofan á svart hefur nú í þokkabót komið í ljós að virkjanafyrirtækin hafa í ákafa sínum við undirbúning Hvalárvirkjunar eignað sér land og auðlindir fjölda grandalausra einstaklinga.
Í dag hafa tíu landeigendur Drangavíkur á Ströndum kært deiliskipulag og framkvæmdaleyfi fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og fara þeir fram á að framkvæmdir á ósnortnu landi verði stöðvaðar á meðan fjallað er um málið. Landeigendurnir eiga Eyvindarfjarðarvatn og vatnasvið þess og hafa aldrei verið spurðir hvort þeir gæfu leyfi sitt fyrir hinum umfangsmiklu framkvæmdum. Með þessu hafa virkjanaaðilar í raun tekið sér yfirráðarétt yfir jörð Drangavíkur og vatnsréttindum hennar, og gert ráð fyrir að reisa þar þann hluta Hvalárvirkjunar sem nefnist Eyvindafjarðarárveita án þess að spyrja eigendur landsins. Gengur það hreint og beint gegn stjórnarskrárvörðum eignarréttindum landeigenda Drangavíkur.
Landeigendur hafa nú skoðað gögnin frá þessum aðilum og jarðamörk hafa augljóslega verið teiknuð kolrangt upp í öllum skipulags- og hönnunargögnum virkjanaaðila, hönnuða virkjunarinnar og sjálfs Árneshrepps. Þessi röngu jarðamörk eru alls ekki í samræmi við þinglýst landamerki jarðanna Engjaness, Drangavíkur og Ófeigsfjarðar en landamerkjabréf jarðanna voru þinglýst árið 1890. Engar breytingar hafa verið gerðar á þessum landamerkjum frá þessum tíma og eru þau því einu lagalega gildu mörk jarðanna. Landeigendur Drangavíkur hafa nú látið draga þessi jarðamörk rétt upp í samræmi við landamerkjabréfin og má sjá samanburð á hinum röngu mörkum í Hvalárvirkjunargögnum og réttum mörkum skv. þinglýstum landamerkjabréfum á kortum 1 og 2.
Undirbúningsgögn virkjunarinnar eru gríðarlega umfangsmikil, óskýr og í raun nánast óskiljanleg öllu venjulegu fólki, eins og greinarhöfundur hefur þegar vikið að og gagnrýnt harðlega í grein hér á Kjarnanum. Meðal annars hafa virkjunarhönnuðir og HS Orka látið undir höfuð leggjast að gera skýra grein fyrir þeim jarðamörkum sem miðað hefur verið við í skipulagi virkjunarinnar. Á þeim uppdráttum sem lagðir hafa verið fram eru jarðamörk illgreinanleg frá öðrum mörkum og línum. Hvergi í fyrirliggjandi skipulagsgögnum, hvorki í aðalskipulagi, mati á umhverfisáhrifum né deiliskipulagi er til að mynda birt hreint kort af jarðamörkum á svæðinu, þótt augljóslega hefði slíkt verið nauðsynlegt því mjög örðugt er fyrir allan þorra almennings að átta sig á því á skipulagsuppdráttum hvar mörk jarða á svæðinu liggja. Sérstaklega ef ekki er verið að leita eftir því.
Eitt kemur þó skýrt fram á skipulagsuppdráttum og það eru að jarðamörk eru „birt án ábyrgðar“. Það þýðir að jarðamörkin sem virkjanaaðilar hafa notað hafa enga stjórnsýslu- eða lagalega þýðingu.
Þetta er bersýnilega afar alvarlegt mál, og verður varla sagt annað en að hér sé um eitthvert mesta skipulagsfúsk að ræða í virkjanasögu landsins af hálfu HS Orku og Árneshrepps.
Stjórnsýslufíaskó á heimsmælikvarða
Ábyrgð virkjanaaðila, HS Orku og dótturfyrirtækis þess, Vesturverks, á þessu klúðri er óskoruð og alger. Það er hlutverk virkjanaaðila að sjá til þess að þeir hafi sannarlega aflað leyfis landeigenda til virkjunar fallvatna og byggingar virkjunarmannvirkja í þeirra landi.
Þó má einnig spyrja sig hvort stjórnsýslan hafi ekki einnig brugðist hlutverki sínu. Því þótt ábyrgðin á því að tryggja samþykki landeigenda liggi hjá framkvæmdaraðila þá hafa minnst fimm stofnanir eða aðilar í stjórnsýslunni komið hér að málum. Orkustofnun gaf út rannsóknarleyfi fyrir virkjunarrannsóknum á svæðinu og gegnir eftirlitshlutverki, Skipulagsstofnun hefur fjallað um aðalskipulag, deiliskipulag og mat á umhverfisáhrifum, hrepps- og skipulagsnefndir Árneshrepps hafa þurft að fara yfir öll gögn og gefa grænt ljós og loks gaf náttúruverndarnefnd hreppsins víst sína umsögn um leyfisumsóknina. Engin þessara stofnana og nefnda virðist hafa gert athugasemd eða rannsakað sjálfstætt hvort virkjunaraðilinn hafi í raun heimild landeigenda til aðgerða sinna.
Margir samverkandi þættir hafa því valdið þeirri grafalvarlegu stöðu sem nú er komin upp, og falla allir þessir þættir undir ábyrgð virkjanaaðila eða stofnana og nefnda sem komið hafa að virkjanaundirbúningnum. Eftirfarandi er ljóst að svo stöddu máli:
- HS Orku og Vesturverki hefur með athafnaleysi og trassaskap tekist að spilla algjörlega upp á eigin spýtur virkjanaáformum sínum. Eðlilega hefðu ábyrgir virkjanaaðilar látið sérfræðinga fara yfir landamerkjalýsingar og draga upp rétt jarðamörk strax við upphaf virkjanaáforma. Þetta virðist af óskiljanlegum ástæðum ekki hafa verið gert og því hafa þessir aðilar að öllum líkindum ónýtt eigin vinnu mörg ár aftur í tímann, auk yfirlegu fjölmargra annarra, bæði opinberra stofnana, Árneshrepps og fjölda einstaklinga. Virkjanafyrirtækin þurfa nú að svara fyrir það hvort þau hafi af ábyrgðarleysi látið hjá líða að kanna jarðamörkin, eða hvort þau hafi jafnvel vitað að mörkin hafi ekki verið rétt dregin en einfaldlega kosið að gefa það ekki upp með það fyrir augum að byggja virkjun á eignarlandi án samþykkis. Hvort sem á við, er ljóst að fúsk þeirra sem hafa ætlað sér að virkja Hvalá með Eyvindafjarðarárveitu á sér vart sinn líkan í allri framkvæmdasögu Íslands.
- Stjórnsýslan í kringum undirbúning Hvalárvirkjunar hefur reynst nánast gagnslaus í eftirliti sínu með framkvæmdaaðilanum. Fjölmörg dæmi eru um að ekki hafi verið farið að lögum við undirbúninginn, svo sem við mat á umhverfisáhrifum og skipulag þar sem áhrif Hvalárvirkjunar eru ekki metin með tengdum framkvæmdum, svo sem lagningu háspennulínu yfir Ófeigsfjarðarheiði og öðrum virkjunum á svæðinu, en lög kveða skýrt á um að meta heildarumhverfisáhrif skyldra framkvæmda. Engir valkostir voru metnir en ábendingar skipulega hunsaðar. Stjórnsýslulög hafa verið margbrotin við undirbúning og töku ákvarðana í ferlinu, auk þess sem þær fara einfaldlega í bága við almenna náttúruverndarlöggjöf á Íslandi og meginreglur umhverfisréttar.
- Ofan á þetta leggst svo að engin þeirra stofnana sem fara áttu yfir gögn virkjunaraðila og taka afstöðu til þeirra höfðu rænu á að láta skoða eða fara yfir gögn um jarðir á svæðinu, og þó hafa sumar þeirra lögfræðinga og aðra sérfræðinga á launum við að staðreyna grundvallaratriði sem þessi. Í öllum fyrirliggjandi opinberum gögnum kemur skýrt fram að þau jarðamörk sem notuð hafa verið við skipulagningu virkjunarinnar frá a.m.k. 2007 voru dregin upp án ábyrgðar. Þetta voru í raun allan tímann aðeins skissur sem hafa enga lagalega þýðingu fyrir eignarrétt á landi. Stjórnsýslan hefði bersýnilega átt að kanna þetta, enda er það beinlínis hlutverk hennar að gæta þess að farið sé að lögum. Það var ekki gert, og þótt meginábyrgð þessa landamerkjaklúðurs liggi hjá virkjanaaðilunum þá er ljóst að stjórnsýslan brást herfilega.
Víðernin vernda sig ekki sjálf
Sem betur fer uppgötvast þetta tröllaukna klúður í tæka tíð, eða rétt áður en framkvæmdir áttu að hefjast við að klippa niður víðernin og ryðjast inn í hina ósnortnu náttúru Drangajökulsvíðerna. Þessar skipulagshrakfarir hafa því til allrar hamingju ekki enn leitt til óafturkræfrar eyðileggingar á svæðinu, en litlu mátti muna.
Vonandi bera yfirvöld og eigendur HS Orku gæfu til að hætta núna samstundis við Hvalárvirkjun. Auk þess ætti þetta vandræðamál að verða stjórnsýslunni, löggjafarvaldinu, orkufyrirtækjum landsins, virkjanahönnuðum og í raun öllum öðrum sem koma að skipulagningu og byggingu virkjana á Íslandi áminning um að taka verði til í lögum og skerpa stórlega ábyrgð virkjanaaðila og rétt almennings til að koma raunverulega að undirbúningi virkjana strax á fyrstu stigum. Þá verður að efla stofnanir og gagnrýna hugsun þeirra sem þar starfa svo þær standi undir nafni og auka við heimildir þeirra til að sekta og veita þeim orkufyrirtækjum ráðningu sem láta hjá líða að fara að lögum þegar þau undirbúa framkvæmdir.
Það mun af augljósum ástæðum taka langan tíma fyrir orkufyrirtæki og yfirvöld að öðlast aftur traust almennings á undirbúningsferli virkjanaframkvæmda á Íslandi. Hér munaði í raun aðeins örfáum mánuðum að HS Orku hefði tekist að valta yfir landeigendur og reisa umfangsmikil virkjanamannvirki í landi fólks sem alla tíð hefur verið algjörlega andvígt virkjun og viljað vernda víðernin og hlífa náttúrunni fyrir eyðileggingu ágengra orkufyrirtækja. Allt í skjóli dapurlegra vinnubragða og slælegrar upplýsingagjafar til almennings, og með samþykki hreppsnefndar og annarra yfirvalda í ofanálag.
Hér hafa eftirfarandi slagorð náttúruverndarsinna sannast svo um munar, og vonar greinarhöfundur að þau verði framvegis í hugum allra Íslendinga:
Víðernin vernda sig ekki sjálf!
Höfundur er jarðfræðingur, höfundur bókarinnar Vegvísir um jarðfræði Íslands, stjórnarmaður í Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Hagþenki, og í samtökunum ÓFEIGU náttúruvernd, sem vinna að verndun víðernanna á Ófeigsfjarðarheiði.