Breski auðkýfingurinn Jim Ratcliff - sem hagnast hefur á efnaiðnaði, ekki síst innan olíugeirans - heldur áfram að kaupa jarðir á Norðurlandi og Austurlandi. Nú síðast var greint frá kaupum hans á Brúarlandi 2 í Þistilfirði, sem er óskipt jörð í landi Gunnarsstaða. Þetta hefur valdið deilum og áhyggjum, ekki síst hjá þeim sem eiga jarðir í nágrenni og þykir vænt um landið og starfsemi í héraði. Vönduð umfjöllun í Morgunblaðinu hefur dregið þessi mál og deilurnar fram í dagsljósið.
Formlegar kröfur
Þetta er eldfim umræða, en hún er mikilvæg og vonandi tekst að leiða hana í þær áttir sem hún ætti að fara í. Þar er lykilatriðið að draga frá tjöldin. Viðskiptin hafa átt sér stað bak við stöku yfirlýsingar Ratcliffs um að hann sé að kaupa stóran hluta af Íslandi til að vernda laxastofninn og náttúruna. Þetta er gott og gilt, en mikilvægt er að gera formlegar kröfur til hans um að orðum fylgi ábyrgð, og að þau séu niðurnegld í formlegum samningum um að það sé satt og rétt sem hann er að segja um ástæður viðskipta sinna.
Eins og staða mála er nú, þá liggur það ekki endanlega fyrir.
Áhyggjuefnið er ekki að hann sé frá útlöndum. Það skiptir engu máli eins og sagan sýnir, en hættulegustu og verstu viðskiptamenn sem starfað hafa á Íslandi eru fyrst og fremst Íslendingar.
Eitt af djásnum heimsins
Álitamálin eru fjölmörg, sem þarf að ræða og fá fram svör við mikilvægustu spurningunum.
Eitt er umfang viðskiptanna sem ná nú til um 1 prósents af landinu og eru í jaðri og í samhengi við Vatnajökulsþjóðgarð sem nýlega var settur á lista UNESCO og er þar með eitt af djásnum heimsins þegar kemur að einstakri náttúru og menningarsögu.
Þjóðgarðurinn tekur til um 12 prósent af landi Íslands og fá dæmi um það í sögunni á heimsvísu, að jafn stór hluti þjóðríkis sé settur á lista UNESCO.
Meðal álitamála sem vakna þegar kemur að kaupum Ratcliff er hver sé ætlunin - að lokum - með þessum umfangsmiklu kaupum og hvernig markmiðin með þeim eru formgerð í samningum.
Hvernig er það tryggt að um náttúruverndarfjárfestingar sé að ræða?
Það getur verið að fólk hafi gott eitt í huga í svona fjárfestingum. Nefna má umfangsmestu kaup á landi í Chile, sem nokkru sinni hafa átt sér stað, þegar stofnandi Patagonia vörumerkisins keypti upp stórkostlegt landsvæði til að vernda það. Hann var umhverfisverndarmaður og öll starfsemi hans og fjölskyldu hans byggði á hugsjónum um það - en vörumerkið var stofnað til að hjálpa fólki að njóta náttúrunnar. Hann stóð við það og gerði ekkert annað en það, vernda landið, og hann afhenti svo landið - undir skilyrðum um umhverfisvernd.
Það er ekki traustvekjandi hvernig þetta hefur farið fram hjá Ratcliff. Það vantar sannfæringuna fyrir umhverfisverndaráhuganum, því það er þversögn í hans viðskiptaferli þegar að honum kemur, annað en t.d. hjá Patagonia-fólkinu.
Svo er það rétt ábending hjá Jóhannesi Sigfússyni á Gunnarsstöðum, að það þyrfti að fara ofan í öll viðskiptin með skattinum, til að teikna upp umfangið og hvernig þetta hefur farið fram.
Varla viljum við að Ísland, landið sem slíkt, verði að peningaþvættistilraunapotti?
Hvað gerist þegar Ratcliff er ekki lengur að stýra félögunum sem eiga þennan stórkostlega hluta landsins?
Ef hann er að hugsa um umhverfisverndina eingöngu (laxastofna, náttúruvernd), þá ætti að gera kröfur um að hann geti búið til formlega umgjörð, sem nær utan um það markmið og er ekki bakvið nein tjöld heldur uppi á borðum.
Ekkert slíkt hefur verið birt opinberlega. Það ætti að vera hægt að gera kröfur til hans, miðað við yfirlýsingar, um að hann leggi öll spilin á borðið og dragi tjöldin frá.
Ísland er einstakt land þegar kemur á náttúrulegum gæðum og menningarsögu. Staðfesting Vatnajökulsþjóðgarðs á lista UNESCO ætti að vekja stjórnvöld og aðra til umhugsunar um mikilvægi virðingar fyrir náttúrunni. Að sama skapi er eðlilegt að hafa efasemdirnar bak við eyrað, þegar kemur að umfangsmiklum og skipulögðum landakaupum auðkýfinga - óháð þjóðerni þeirra - á meðan ekki hafa verið birtar upplýsingar sem staðfesta markmiðin sem hafa komið fram í orðum þeirra.
Með efann á lofti
Við Íslendingar þekkjum það, að líta undan og trúa auðkýfingum þegar þeir segja eitt og annað, og það getur endað með ósköpum ef ekki eru gerðar kröfur til þeirra um að styðja málflutning sinn með gögnum og formlegri umgjörð. Það ætti að vera lágmarkskrafa og um leið mikilvægt leiðarstef í því að skilja hvatann að baki viðskiptum með land.