Í Staksteinum Morgunblaðsins í gær, sem skrifaðir eru nafnlausir en á ábyrgð ritstjóranna tveggja, er fjallað um það að Íslendingar séu að flýja Reykjavíkurborg. Það er ekkert nýtt að í ritstjórnarskrifum Morgunblaðsins birtist mikil andúð á flestallri þróun sem á sér stað í höfuðborginni en röksemdarfærslan í þetta skiptið vekur athygli.
Í Staksteinunum, þar sem fyrirsögnin er „Íslendingar flýja borgina“, segir: „Nýjasta dæmið um afleiðingar stefnu Reykjavíkurborgar er að borgin er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu þar sem Íslendingum fækkar,“ og er þar miðað við tímabilið 2016 til 2019. Efni skrifanna gefur svo til kynna að Íslendingar séu mun æskilegri íbúar en erlendir ríkisborgarar. Það sé áfelli yfir Reykjavíkurborg og stjórnsýslu hennar að útlendingum fjölgi einungis þar en Íslendingum fækki. Þessu sé öfugt farið í nágrannasveitarfélögum hennar sem geti trekkt að Íslendinga. Alvöru Íslendinga.
Það sé eftirsóknarvert.
Útlendingagóðærið
Það hefur verið fordæmalaust góðæri á Íslandi. Hagvöxtur var hér linnulaust frá árinu 2010 og fram til ársins í ár, þegar gjaldþrot WOW air og loðnubrestur hægði aðeins á okkur. En þó bara aðeins, og allar líkur benda til þess að allt verði komið á fulla ferð aftur á næsta ári.
Auk þess hafa lánakjör öll snarbatnað og verðtryggðir breytilegir vextir bjóðast nú undir tveimur prósentum. Lægstu óverðtryggðu vextir eru undir fimm prósentum. Og viðbúið er að Seðlabanki Íslands haldi áfram að snarlækka meginvexti sína, oftast kallaða stýrivexti, en þeir eru sem stendur 3,75 prósent. Það er mjög lágt í íslensku samhengi.
Til þess að skapa þessar aðstæður hefur Ísland þurft fólk. Fjölda fólks. Sérstaklega fólk sem er tilbúið að ganga í þau störf sem verið er að skapa. Það eru að uppistöðu þjónustustörf í ferðaþjónustuiðnaði eða tengdum greinum eða störf í mannvirkjagerð. Oftast nær láglaunastörf.
Í þessi störf hafa útlendingar gengið.
Útlendingar gengið í nær öll ný störf
Alls hefur starfandi einstaklingum á Íslandi, á aldrinum 16 til 64 ára, fjölgað um 26.300 frá miðju ári 2010 og fram til dagsins í dag. Það er ágætt að miða við þá dagsetningu vegna þess að vorið 2010 fóru fram borgarstjórnarkosningar sem gerðu Jón Gnarr að borgarstjóra og síðan þá hefur Reykjavík verið stýrt af flokkum sem eru ritstjórum Morgunblaðsins lítið þóknanlegir. Á sama tímabili hefur erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi fjölgað um 24.610, eða 117 prósent.
Það blasir því við að útlendingar hafa gengið í nánast öll störfin sem skapast hafa hérlendis sem knúið hafa áfram góðærið. Mikilvægasta fólkið í því að skapa þessa efnahagslegu uppsveiflu voru ekki stjórnmálamenn eða fólk sem vinnur við tilfærslu á fé lífeyrisþega í fjárfestingaverkefni. Það voru útlendingarnir.
Tvö sveitarfélög í aðalhlutverki
Útlendingar, fólk sem fæddist í öðrum löndum en á Íslandi, er bara venjulegt fólk og þarf, líkt og annað venjulegt fólk, að búa einhversstaðar. Þeir hafa fyrst og síðast sest að á tveimur stöðum á landinu: Í Reykjavík og í Reykjanesbæ. Þetta eru þau tvö sveitarfélög sem hafa verið með framboð á húsnæði sem erlendu ríkisborgararnir hafa getað nýtt sér.
Frá sveitarstjórnarkosningum 2010 hefur íbúum í Reykjavík fjölgað um 10.680 talsins. Þar af eru 9.640 erlendir ríkisborgarar og 1.040 íslenskir ríkisborgarar. Fjöldi erlendra íbúa í Reykjavík hefur tvöfaldast á tímabilinu. Þeir eru nú 19.220, eða 67 prósent allra erlendra ríkisborgara sem búa á höfuðborgarsvæðinu og 40 prósent allra sem búa á Íslandi.
Í Reykjanesbæ er staðan enn ýktari. Þar bjuggu 13.920 manns um mitt ár 2010, og þar af voru 1.230 erlendir ríkisborgarar. Í dag búa þar 19.020 manns og eru erlendu ríkisborgararnir 4.660. Voru þeir 8,8 prósent íbúa sveitarfélagsins en eru nú 24,5 prósent þeirra. Reykjanesbær er í dag orðið fjórða stærsta sveitarfélag landsins, eftir að hafa tekið fram úr Akureyri nýverið, og stendur nú efnahagslega betur en nokkru sinni áður.
Til samanburðar búa 740 erlendir ríkisborgarar í Garðabæ, því nágrannasveitarfélagi Reykjavíkur sem stendur mest fyrir það sem Morgunblaðið mærir, og hefur þeim fjölgað úr heilum 370 frá miðju ári 2010. Hlutfallslega eru erlendir ríkisborgarar nú 4,5 prósent íbúa Garðabæjar en voru 3,4 prósent þeirra fyrir níu árum síðan.
Þriðjungur nýrra Íslendinga býr í Garðabæ
Íbúum hérlendis hefur fjölgað úr 317.890 í 358.780 frá miðju ári 2010, eða um 40.890. Þorri þessarar aukningar hefur orðið vegna aðkomufólks, en erlendir ríkisborgarar eru ábyrgir fyrir 60 prósent fólksfjölgunar á Íslandi á tímabilinu. Þeir eru nú 12,7 prósent landsmanna.
Það þýðir að íslenskum ríkisborgurum hefur fjölgað um 16.280 talsins.
Þrátt fyrir að í Garðabæ búi 4,5 prósent allra landsmanna hefur þriðjungur þeirrar fjölgunar á íslenskum ríkisborgurum sem átt hefur sér stað fundið sér heimilisfesti í Garðabæ. Þar hefur íslenskum ríkisborgurum fjölgað úr 10.370 í 15.650 frá miðju ári 2010 eða um 5.280 talsins. Hluti þeirrar aukningar er þó vegna sameiningar við Álftanes. Það er langmesta hlutfallslega aukning á íslenskum ríkisborgurum innan stærri sveitarfélaga landsins.
Fólk er fólk
Allt fólk er jafn merkilegt. Sumu fólki finnst það merkilegra en annað vegna þess að það er með ákveðinn litarhátt, á ákveðið magn af peningum eða aðhyllist ákveðna tegund trúarbragða. En öll erum við bara hold, bein og blóð.
Íslendingar eru ekki merkilegri en útlendingar og það er ekki merkilegra að draga frekar að sér þá sem hafa búið hér lengur en hina sem hingað hafa flutt. Samfélag er hópverkefni.
Þess vegna verður að hafna þeirri framsetningu ritstjóra Morgunblaðsins að Reykjavík standi sig mjög illa vegna þess að þar setjast bara að útlendingar, en Garðabær mjög vel vegna þess að það sveitarfélag laðar að sér fleiri Íslendinga en nokkuð annað.
Með sömu röksemdarfærslu og Morgunblaðið beitir þá hlýtur Ísland í heild að vera agalega rekið. Frá júnílokum 2010 hafa nefnilega 5.645 fleiri Íslendingar flutt frá landinu en til þess. Síðustu ár eru þau fyrstu sem slíkt gerist án þess að það tengist kreppum. Fjöldi erlendra ríkisborgara sem flutt hafa hingað til lands umfram þá sem hafa farið er hins vegar 26.460.
En Ísland er ekki ömurlegt. Það er að mörgu leyti frábært þótt margt megi laga. Og líklegast er að fólksflóttinn héðan sé vegna þess að ungt langskólagengið fólk telur sig ekki fá þau tækifæri eða störf sem þeim hentar hérlendis, enda 3.420 þeirra sem fluttu á aldrinum 20 til 40 ára. Það er ójafnvægi í samfélagsgerðinni sem gerir það að verkum að við fjárfestum miklum fjárhæðum til að mennta fólk en búum fyrst og síðast til störf sem krefjast lítillar eða engrar sérhæfingar eða menntunar. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fjallaði um þetta í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vor og sagði að hún vildi ekki spekileka frá Íslandi. Því þyrfti að liggja fyrir hvort að það sé flótti ákveðinnar tegundar fólks frá landinu eða ekki. „Markmiðið er að við séum þekkingarsamfélag og við höfum allt í það.“ Hún ætlar því að láta Þjóðskrá safna upplýsingum um menntun þeirra sem héðan fara til að hægt sé að komast að því hvort áhyggjurnar af flótta unga menntaða fólksins séu réttar. Þetta ójafnvægi er því hægt að laga.
En á meðan ættum við að þakka útlendingunum sem hafa flutt hingað í stórum stíl og gert samfélag okkar betra. Við ættum líka að þakka fyrir þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu sem gerir flestu þessu fólki kleift að flytja hingað án hindrana og þorra þeirra ferðamanna sem heimsækja landið það mögulegt án tímafrekra vegabréfaskoðana.
Ef það er eitthvað sem við ættum ekki að gera þá er það að skamma sveitarfélög fyrir að taka vel á móti útlendingum, eða láta í það skína að Íslendingar séu merkilegri pappír en allir hinir.