Ég ber druslustimpil á mjóbakinu. Tramp-stamp. Fékk hann þegar ég var þrettán ára og sá auglýsingu í afsláttarbæklingi um jurtatattú. Það átti að endast í þrjú til sjö ár en hvarf svo aldrei. Ég vældi það út úr mömmu með þeim rökum að sómi minn og (þriggja til sjö ára) rokkstjörnusess væri í húfi. Þrettán ára, örvæntingarfull og þurfandi. Með gulan glimmeraugnskugga og klístraðan jarðaberjagloss. Lítil, í push-up brjóstarhaldara og magabol. Og druslustimpil á bakinu.
Þá vissi ég ekki hvað svona tattú voru kölluð en ég vissi hvað ég var kölluð. Vinkonur mínar sögðu mér orðróminn. Ég fékk hann staðfestan þegar ég gekk eftir níundar bekkjar álmunni í Hagaskóla í skjannahvítum buxum. Áttundu bekkingar urðu að vera hugaðir þegar þeir gengu eftir þessum gangi, svo ég reigði höfuðið og skaut bringunni fram. „Það sést í nærbuxurnar þínar, drusla!“ var kallað úr rakspíraskýji. Hensonklæddir naglar með gelað hár sátu í hnapp, með hlæjandi stelpur í fanginu. Ég hljóp heim og skipti um buxur.
Tveimur árum seinna las ég lygasögu um mig á blogcentral-síðu, forvera Facebook: „Hún tottaði hann úti á miðri götu. Hann var fullur en hún var bláedrú. Algjör drusla.“
Drusludraugurinn fylgdi mér svo í MH. Myndlistatýpurnar sáu í gegnum ullarpeysuna mína og settu upp fyrirlitningarsvip: „Sigga, ert þú ekki með tramp-stamp? Sýndu okkur. Ég man eftir þér úr Hagaskóla, varstu ekki alltaf í sleik í skólasundi?“ Ég hataði þetta tattú en hafði ekki efni á að láta fjarlægja það.
Eftir að ég fullorðnaðist komst ég að því að flestar jafnöldrur mínar höfðu svipaðar eða miklu verri sögur að segja. Í sumum sögum var skömm og kjánahrollur. Í öðrum einangrun, kuldi og sjálfshatur. Að baki þeim frásögnum lágu dýpri ör en tribal-tattú á mjóbaki.
Ég fór að líta öðrum augum á þennan flókna stimpil. Hætti að skammast mín. Ef vinkonur mínar gátu barist við þunglyndi, sjálfshatur og étandi reiði vegna sinnar brennimerkingar, ætti ég að geta berað druslustimpilinn. Mér fór að þykja vænt um tribaltattú æskunnar. Ég ber ómælda virðingu öllum sem hafa verið fylltir skömm vegna gjörða annarra. Vegna þeirra og lítillar unglingsstelpu með gulan augnskugga og klístraðan gloss fagna ég degi druslunnar. Í ullarpeysu, með höfuðið hátt og allsbert mjóbakið í forgrunni.