Enginn veit víst ævi sína fyrr öll er. Ekki datt mér í hug þegar ég setti saman nokkrar línur um það sem ég kallaði „Kolabrennsluna á Bakka“ að ég ætti eftir að lenda í ritdeilu við Kára Stefánsson. En úr því svo er komið ætla ég að svara nokkrum aðfinnslum Kára og koma mínum sjónarmiðum betur á framfæri. Ég mun hins vegar láta þar við sitja. Kára er þó velkomið að svara mér. Ég hef svona á tilfinningunni að honum líki vel að eiga síðasta orðið. Umræður um íslensk dægurmál eiga það til að enda í ómálefnalegu þrasi. Það er einmitt helsta ástæða þess að ég hef kosið að halda mig fjarri þeim vettvangi.
Ég veit hver Kári Stefánsson er en ég þekki hann ekki og ég tel fráleitt að hann þekki mig. Það ætti enginn að gerast dómari í eigin sök. Ég verð því í fyrsta lagi að biðja þá sem til mín þekkja að dæma hve líklegt það sé að ég hafi tekið mig til og samið pistil um „Kolabrennsluna á Bakka“ í leikaraskap „framinn í þeim tilgangi einum saman að réttlæta þá ákvörðun að fórna umhverfissjónarmiðum fyrir kísil” svo notuð séu orð Kára. Í öðru lagi fæ ég ekki betur séð en Kári geri mér upp skoðanir í umhverfis- og náttúruverndarmálum sem hann getur ekki haft hugmynd um hverjar séu. Það þykir mér vera ómálefnalegt af honum. Ég hef vissulega skoðanir á þeim málum eins og mörgum öðrum en þeim held ég fyrir mig. Ég er bara ekki einn af þeim sem eru með allt á útopnunni. Skoðanir mínar í umhverfis- og náttúruverndarmálum birtast ekki í grein minni um kolabrennsluna á Bakka.
Nú skulum við skoða hvað fram fer á Bakka og Grundartanga. Þar sem ég hef aldrei skoðað verksmiðjuna á Bakka en margoft komið að Grundartanga, oftast með nemendur í ólífrænni efnafræði í skoðunarferðir, þá skulum við halda þangað í huganum. Það var hluti af námsefninu hjá mér að kynna nemendum íslenskan efnaiðnað. Ég sagði í fyrri grein minni að í meginatriðum væri efnaferlið sem fram fer í ljósbogaofnunum það sama í báðum verksmiðjum en á Grundartanga er járnoxíði bætt í ofninn ásamt kvartsi þannig að útkoman verður 75% kísill (Si) og 25% járn (Fe). Nú skulum við ímynda okkur að búið sé að fylla einn ofninn. Svo mundum við láta moka kolum ofan á fylluna og dálitlu af timbri og kveikja svo í herlegheitunum. Jú þetta mundi brenna eins og góð áramótabrenna og bráðum þyrfti að moka meiri kolum og timbri rétt eins og ég þurfti að moka meiri kolum í ofninn ógurlega á bernskuheimili mínu til að viðhalda brunanum. Ef svona væri staðið að verki á Bakka þá mætti alveg tala um kolabrennslu á Bakka. En framleiðslan væri engin. Það er ekki gott í verksmiðjurekstri. Málið er að ofnarnir á Grundartanga og á Bakka eru ekki kolabrennsluofnar. Þeir eru málmbræðsluofnar með ljósboga til að hita ofnfylluna að neðan og á því er reginmunur. Í ofnunum eiga sér flókin efnaferli stað. Þorsteinn Hannesson er eðlisefnafræðingur, sem starfað hefur í 35 ár hjá Elkem á Grundartaga. Þorsteinn er drátthagur maður og innan heimasíðu Elkem er bók með teikningum eftir hann sem allir mega nota til einkanota til að átta sig betur á framleiðsluferlinu. Ef nú einhver skarpur lesandi fer að rýna í efnajöfnurnar kynni hann/hún að sakna þess að ekkert er minnst á þátt járnsins. Það er vegna þess hve þáttur þess er einfaldur og fer eftir því sem ég kallaði jöfnu í greininni um kolabrennsluna og tekur ekki þátt í efnahvörfum kísilefnanna.
Í smiðju Skalla-Gríms á Borg fór fram málmbræðsla svo karlinn gæti smíðað sér þá hluti úr járni sem hann vanhagaði um. Í skálanum á Borg logaði hins vegar langeldur sem menn gátu ornað sér við. Ég trúi að enginn á Borg hafi misskilið muninn á þessu tvennu. En með því að hrópa nógu oft kolabrennsla á Bakka þá fara fleiri og fleiri að trúa því að þar fari fram kolabrennsla, heil 66 þúsund tonn á ári (oj bara). Það er bara hreint ekki rétt. Þar eru hins vegar notuð kol og timbur til að framleiða kísilmálm. Mér þykir mikilvægt að fara með rétt mál. Öðrum kann stundum að finnast það aukaatriði.
Höfundur er prófessor emeritus í efnafræði við Háskóla Íslands.