Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hefur lengi verið afar umdeildur og margir innan lögreglunnar haft þá skoðun að hann hafi hvorki skapgerð né getu til að sinna jafn mikilvægu starfi. Samt sem áður hefur hann setið sem ríkislögreglustjóri óslitið frá 1. febrúar 1998, eða í tæp 22 ár.
Í dagbókum Matthíasar Johannessen, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins til áratuga og föður Haraldar, sem hann hefur birt á netinu má lesa um þá daga þegar Haraldur var skipaður ríkislögreglustjóri fyrir rúmum tveimur áratugum. Þar sagði hann að heiðrík birta hafi fallið á fjölskylduna alla þegar greint var frá skipuninni. „Það er mikið embætti og krefst ábyrgðartilfinningar og hrokalausrar vizku.“
Sú „hrokalausa vizka“ og ábyrgðartilfinning sem faðirinn sagði að þyrfti að búa yfir til að sinna embætti ríkislögreglustjóra er ekki sýnileg í athöfnum og orðum Haraldar á undanförnum árum.
Í kasti við lögin
Stundin fjallaði ítarlega um Harald í fréttaskýringu í sumar. Þar kom meðal annars fram að hann hefði ítrekað komið sér í vandræði án þess að vera látinn sæta ábyrgð. Þar var rakið þegar Haraldur hótaði heildsala sem hann þekkti ekkert líftláti á bar eftir að hafa skvett yfir hann drykk á vínbar árið 2001. Í umfjölluninni var Haraldur sagður hafa skaða rannsóknir efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra eftir hrun, að ársreikningar embættisins lægju óundirritaðir, að rekstrarlegir þættir væru í ólagi, að kvartað hefði verið undan framgöngu Haraldar gagnvart sérsveitarmönnum og að eineltismál innan stofnunarinnar væri til skoðunar hjá dómsmálaráðuneytinu. Svo fátt eitt sé nefnt.
Í sumar opinberaðist líka stórkostlega furðulegt mál þar sem Haraldur varð uppvís að því að nota embætti ríkislögreglustjóra til að kvarta yfir bók og sjónvarpsþætti. Það gerði hann með því að senda bréf til rithöfundarins Björns Jóns Bragasonar og sjónvarpsmannsins Sigurðar Kolbeinssonar vegna bókar um gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands sem kom út árið 2016 og sjónvarpsþáttar um sama efni sem sýndur var ári síðar.
Ástæða bréfaskriftanna var lýsing Valtýs Sigurðssonar, þáverandi ríkissaksaksóknara, á fundi í innanríkisráðuneytinu árið 2011 þar sem hann hefði lagt fram minnisblað þar sem fram kom það mat að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra „hafi um árabil skort faglega yfirstjórn og metnað“.
Björn Jón og Sigurður kvörtuðu yfir háttsemi Haraldar til Umboðsmanns Alþingis, sem komst síðar að því að efni og framsetning bréfanna hefðu verið ámælisverð og „til þess fallin að rýra traust og trú á embætti ríkislögreglustjóra“. Dómsmálaráðuneytið gerði auk þess alvarlegar athugasemdir við framgöngu Haraldar.
En málið hafði ekki frekari afleiðingar. Áfram sem áður hefur verið lítill vilji til að hrófla við Haraldi í starfi þrátt fyrir augljós axarsköft og misgjörðir gagnvart öðru fólki sem eru ekki sæmandi einstaklingi í jafn valda- og ábyrgðarmikilli stöðu.
Deilur koma upp á yfirborðið
En það sem ýtti af stað endalokunum hjá Haraldi voru stigmagnandi deilur sem verið höfðu innan lögreglunnar, einkum í garð Ríkislögreglustjóra, vegna fata- og bílamála. Auk þess þóttu samskipti ríkislögreglustjóra við ýmsa lögreglumenn ekki boðleg að þeirra mati.
Landssamband lögreglumanna setti þrýsting á lögreglustjóra landsins um að láta fara fram alhliða stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra og fjölmörg lögregluembætti studdu þá vegferð. Fyrr í þessum mánuði var ákveðið að Ríkisendurskoðun myndi ráðast í slíka úttekt.
Haraldur sendi frá sér yfirlýsingu þann 12. september þar sem sagði að ályktanir lögreglufélaga, gegn embætti ríkislögreglustjóra, væru ekki til þess fallnar að skapa frið um störf lögreglu. Þá sagði að yfirlýsingar sem „ali á ótta“ geti verið til þess fallnar að bitna á öryggi almennings og það sé ámælisvert. „Við þetta ástand verður ekki unað enda kastar það rýrð á lögregluna og störf hennar sem grefur undan því mikla trausti sem almenningur ber til lögreglunnar. Á endanum gæti þetta ástand því komið niður á öryggi almennings.“
Viðtalið sem tryggði endalokin
Laugardaginn 14. september birtist síðan nú frægt viðtal við Harald í Morgunblaðinu. Staða hans var orðin ansi slæm á þeim tíma en alls ekki útilokað að hægt yrði fyrir Harald að hverfa frá embætti sínu með einhverri reisn. Að hann fengi að velja sér leið út úr aðstæðunum. Jafnvel að sitja út skipunartíma sinn. Það tækifæri hvarf samstundis og viðtalið birtist.
Haraldur sagði þar að verið væri að reyna að hrekja hann úr embætti með því að dreifa vísvitandi rangfærslum og rógburði um hann. Þeir sem væru að gera það væru lögreglumenn sem teldu sig eiga harma að hefna gegn honum, meðal annars vegna þess að hann hefði gripið inn í vegna starfshátta eða framkomu þeirra eða vegna þess að þeir hafi ekki fengið stöður sem þeir sóttust eftir. Ef til starfsloka hans kæmi myndi það kalla á enn ítarlegri umfjöllun af hans hálfu um valdabaráttuna bak við tjöldin.
Haraldur bætti við að gagnrýni hans á framgöngu lögreglumanna ætti þátt í því sem hann kallaði aðför gegn sér. Hann sagðist hafa bent á að spilling ætti ekki að líðast innan lögreglunnar. „Hluti af umræðunni sem er að brjótast fram núna er kannski einnig vegna þeirrar afstöðu minnar. Ég hef til dæmis bent á að það fari ekki saman að lögreglumenn séu meðfram starfi sínu í pólitísku vafstri. Það fer að mínu viti ekki saman.“ Umræða um bílamál lögreglunnar væri hluti af þeirri rógsherferð að óreiða sé í fjármálum ríkislögreglustjóra.
Haraldur lagði engin gögn eða sannanir fram meintri spillingu innan lögreglunnar í viðtalinu. Og allt viti borið fólk sá samstundis að lögreglustjóri sem gæfi það til kynna að hann sæti á upplýsingum, sem hann myndi nota ef einhver ætlaði að hafa af honum starfið, er ekki starfi sínu vaxinn. Það eitt og sér er svo alvarlegt að það ætti að fela í sér brottrekstur.
Haraldur var kallaður á fund dómsmálaráðherra í kjölfarið en hún sagði að honum loknum að ekki kæmi til greiða „að svo stöddu“ að gera starfslokasamning við Harald.
Öllum var þó ljóst að málinu væri ekki lokið.
Morgunblaðið gefur og Morgunblaðið tekur
Í áðurnefndum dagbókarfærslum Matthíasar Johannessen frá árinu 1998 sagði að Haraldur hefði sjálfur unnið sig upp í starf ríkislögreglustjóra „en Þorsteinn Pálsson [þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra] hefur þá líka sýnt honum mikinn drengskap; óvenjulegan og þá ekki sízt þegar haft er í huga að ég hef stundum yljað honum undir uggum vegna sjávarútvegsstefnunnar, en hann er meiri maður en svo að hann láti það bitna á syni mínum.“
Þegar átt er einkasamtal við lögreglumenn, yfirmenn í lögreglunni og marga stjórnmálamenn, þá er það þó nánast algild skoðun þeirra að Haraldur hefði aldrei komið til greina í embættið ef ekki væri fyrir þá staðreynd að faðir hans væri þáverandi ritstjóri Morgunblaðsins, í nánum tengslum við Sjálfstæðisflokkinn og einn valdamesti maður landsins vegna yfirburðastöðu blaðsins á þeim tíma. Að máttur Morgunblaðsins og afl hafi tryggt skipun Haraldar sem ríkislögreglustjóra.
Það er því nánast eitthvað ljóðrænt við það að Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hafi ákveðið að fara í viðtal við Morgunblaðið til að rétta sinn hlut í vinnudeilum, en þess í stað reyndist viðtalið vera banabiti hans í starfi.
Lýst yfir vantrausti
Í gær lýstu átta af níu lögreglustjórum landsins og formannafundur Landssambands lögreglumanna yfir vantrausti á Harald. Í ljósi þess er augljóst að dagar hans í embætti eru taldir. Nýr dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, mun ekki eiga annarra kosta völ en að víkja honum úr starfi með einhverjum hætti. Þangað til að sú ákvörðun verður tekin mun lögreglan í landinu ekki vera starfhæf.
Samkvæmt lögreglulögum er það enda meginhlutverk ríkislögreglustjóra að „flytja og kynna lögreglustjórum boð og ákvarðanir æðstu handhafa ríkisvaldsins sem snerta starfsemi lögreglunnar með einum eða öðrum hætti og vinna að og fylgjast með að þeim ákvörðunum verði fylgt í starfsemi lögreglunnar.“ Hann á að gera tillögur til ráðherra um almenn fyrirmæli til lögreglustjóra. Að vinna að og gera tillögur um hagræðingu, samræmingu, framþróun og öryggi í starfsemi lögreglunnar. Veita lögreglustjórum aðstoð og stuðning í lögreglustörfum. Og svo framvegis.
Þegar átta af níu lögreglustjórum landsins, og heildarsamtök almennra lögreglumanna, treysta ekki ríkislögreglustjóranum, þá er augljóst að hann getur ekki sinnt lögboðnu starfi sínu.
Annað hvort þarf hann að víkja eða allir hinir.
Ákvörðunin ætti að vera augljós.