Í litlu herbergi, númer 401, á fjórðu hæði í héraðsdómi áttu sér stað réttarhöld, fimmtudaginn 26. september, þar sem helstu persónur og leikendur voru Kristín Eysteinsdóttir Borgarleikhússtjóri og Atli Rafn Sigurðarson leikari, ásamt lögmönnum sínum. Sigurður Örn Hilmarsson var lögmaður Kristínar og Einar Þór Sverrisson var lögmaður Atla. Þröngt herbergið var svo þétt setið að nánast mátti þukla á tilfinningaþrungnu andrúmsloftinu.
Þarna var verið að rétta yfir Kristínu Eysteinsdóttur og Leikfélagi Reykjavíkur en rétt er að taka fram að hún er vinkona mín og fyrrum samstarfsfélagi síðan ég var hússkáld í Borgarleikhúsinu fyrir nokkrum árum.
Málið er hið athyglisverðasta. Það varðar uppsögn Borgarleikhússins á ráðningasamningi sínum við Atla Rafn og hvernig henni var háttað, í kjölfar þess að nokkrir starfsmenn leikhússins kvörtuðu undan hegðun Atla Rafns, meintri kynferðislegri áreitni, í garð þeirra – en ein ávirðingin var rakin til atviks sem á að hafa átt sér stað eftir að hann hóf störf í leikhúsinu. Leikhússtjóri, sem ber ábyrgð á velferð starfsmanna sinna, sagði honum upp í kjölfarið. Eftir að fyrsta málið hafði borist stóð reyndar til að taka hann aðeins í starfsmannaviðtal en eftir að fleiri mál voru jafnóðum tilkynnt var honum sagt upp og ákvörðunin þá tekin í samstarfi við stjórn leikhússins og sérfræðinga. Mögulega hefði verið hægt að stofna til frekari rannsóknar á málavöxtum innan hússins, slíkt ferli hefði líklega tekið einhverja mánuði en er það hlutverk leikhússins að vera dómari? Lögmaður Kristínar spurði hvort þá hefði átt að senda hina starfsmennina í leyfi á meðan.
Kannski má segja að lögfræðilega nýti Borgarleikhúsið heimild sína til að segja starfsmanni upp með þriggja mánaða fyrirvara. Í uppsögn hans fólst ekki dómur um ávirðingarnar heldur var orðið ljóst að starfsfriðnum var ógnað á vinnustað þar sem er unnið í nánu samstarfi. Brugðist var við ástandi sem komið var upp í húsinu, samkvæmt leikhússtjóra. Og kannski má líka segja að stjórn leikhússins hafi ekki getað litið framhjá því úr hversu mörgum áttum ávirðingarnar bárust.
Kafka í héraðsdómi?
Atli Rafn stefnir Kristínu persónulega sem og Leikfélagi Reykjavíkur og fer fram á að honum verði greiddar tíu milljónir í skaðabætur og þrjár í miskabætur vegna uppsagnarinnar og ber fyrir sig ærumissi sem hafi leitt til þess að hann hafi misst fjölda verktakaverkefna við uppsögnina en hann hóf síðan aftur störf við Þjóðleikhúsið, þar sem hann hefur verið fastráðinn. Hann kveðst ekki vita neitt um þessar ásakanir að því leyti að hann hafi aldrei fengið að heyra hvað sé nákvæmlega verið að saka hann um; hvað hafi gerst og hver beri upp á hann sakir, þó að hann hafi ítrekað falast eftir upplýsingum um þessar ásakanir og eðli þeirra.
Og þá er það hinn meinti kafkaíski hluti þessara réttarhalda. Í tóni lögfræðings Atla Rafns mátti greina vandlætingartón þegar hann líkti hlutskipti skjólstæðings síns við söguhetju Réttarhaldanna eftir Kafka, Jósef K., á þeim nótum að sakir hefðu verið bornar á mann en hann hefði ekki hugmynd um hverjar þær væru. Fáránleikinn alsráðandi – eða hvað?
Jú, í sjálfu sér hlýtur það að vera sérkennileg upplifun að vera borinn sökum sem maður telur sig ekki vita hverjar eru en þurfa samt að verjast þeim. Og ekki úr vegi að spyrja: Á sá sem er borinn sökum rétt á að vita í hverju þær felast til að geta varið sig? „Er það í lagi að svipta mann æru sinni af því að það eru sagðar sögur í leyni?,“ spurði lögmaður Atla Rafns.
Á móti kemur að meintur þolandi kynferðislegs áreitis nýtur friðhelgi einkalífsins og þar með réttar til að geta bent á þá sem hann telur hafa brotið á sér án þess að meintum geranda sé greint frá atvikum.
En þetta er ekki sakamál og Atla Rafni var ekki stefnt í þessu máli, þó að hann sjái sig líkast til nauðbeygðan til að verja mannorð sitt. Atli Rafn er sá sem stefnir og auk þess er ekki verið að kveða upp dóm um hvort hann hafi gerst sekur um það sem hann er vændur um, þó að segja megi að þær ásakanir séu kveikjan að atburðarásinni. Lögfræðingar tveir sem ég ræddi þetta máli við bentu þó á að mál sem þessi hafi tilhneigingu til að fá á sig ásýnd sakamáls, þó að þau væru það ekki, því þau varði atferli sem geti verið refsiverð. Mál sem lúta að aðfinnslum vegna kynferðislegrar breytni geta jafnframt loðað við einstaklinginn um ókomna framtíð og skaðað tækifæri hans í lífi og starfi.
Fíllinn í litla herberginu
Málaferlin sem slík varða þó réttmæti uppsagnar Atla Rafns en snúast ekki um hvort hann sé sekur eða saklaus um kynferðislega áreitni. Leikhússtjóra ber skylda til að vernda hag starfsmanna sinna og hér var um að ræða sjö tilkynningar varðandi sex atvik en fjórir einstaklingar sem störfuðu í húsinu á þessum tíma lýstu því, undir nafni í trúnaði við leikhússtjóra, að þeir upplifðu mikinn ótta, vanlíðan og kvíða við það að mæta í vinnuna svo það verður að segjast eins og er, að fjöldinn er Atla Rafni ekki í hag.
Samt spyr kona sig hvort þessi sami fjöldi ætti ekki styrkja konurnar til að stíga fram í sameiningu. Konurnar (ef þetta eru allt konur?) sem hafa ásakað Atla Rafn um kynferðislega áreitni, hafa ekki, þegar þetta er skrifað, stigið fram og að einhverju leyti má segja að friðhelgi þeirra hafi verið fíllinn í litla herberginu; þarna voru tvær manneskjur að verja sig, önnur í vörn, hin í sókn, vegna frásagna sem enginn fær að vita hvers eðlis eru eða hvaða konur ásaka manninn um hvað. Og þessar ásakanir geta kosta kostað báðar þessar manneskjur, stefnanda og stefndu, æruna.
Fjarvera kvennanna gerir málið vissulega hið snúnasta að hlýða á, áheyrendur vita ekki hvort og hversu alvarleg atvik er um að ræða, þó að þau séu aflvaki atburðarásarinnar; aðeins er vísað í tilurð frásagnanna sem leikhússtjórinn geymir í huga sér, bundinn af trúnaði sem gæti í versta falli kostað þrettán milljónir, auk málskostnar, álags og áfellisdóms.
Af hverju stíga þær ekki fram? Einhverjir hafa nefnt við mig að þær óttist að stíga fram vegna þess að það geti kallað á viðbrögð Atla Rafns, aðstandenda hans og vina, viðbrögð sem þær óttist að geti valdið sér aðkasti; orðið meiðandi fyrir þær og skaðað feril þeirra. Hafa ber í huga að þegar þær trúðu leikhússtjóranum fyrir upplifun sinni óraði þær tæpast fyrir þessari framvindu og að það getur verið gríðarlega erfitt að stíga fram. Þá er spurning hvort það sé réttlætanlegt að leggja kröfu á meinta þolendur að ganga í gegnum frekara álag en þekktar afleiðingar vegna kynferðislegrar áreitni eru m.a. skömm, ótti, áfallastreita, kvíði og vanmáttur.
Það kom fram að Atli Rafn hefði þjáðst af kvíða og áfallastreitu í kjölfar uppsagnarinnar en um leið hefur leikhússtjóri væntanlega talið sig þurfa að afstýra frekari vanlíðan hjá þeim starfsmönnum sem málin varða. Lögmaður Kristínar sagði að ákvörðunin um að segja honum upp hefði ekki verið léttvæg og að leikhúsið hefði reynt að gefa honum þær upplýsingar sem þótti skylt að gefa.
Flóknar spurningar
Allt þetta mál vekur upp áleitnar og óskyldar spurningar eins og:
Hefur manneskja rétt á að vita deili á fólki sem ásakar hana og hvað það sakar hana um?
Er hægt að ætlast til þess að þolandi sé neyddur í samskipti við geranda – og jafnvel neyddur til að stíga fram fyrir alþjóð?
Hver er réttur manneskju sem er sökuð um alvarlegt atferli en veit ekki hvort eða hvernig hún braut af sér?
Ef stjórnandi opinberrar stofnunar er skyldugur til að vernda starfsfólk sitt, m.a. gegn kynferðislegri áreitni, hver er þá staða þingkvennanna á Alþingi, þar sem er enginn stjórnandi með slíkar skyldur, að þurfa að vinna undir sama þaki og karlmenn sem þær upplifðu að smættuðu sig með kynferðislega niðrandi tali á Klausturbar?
Er það hlutverk fyrirtækja almennt að refsa manneskju sem hefur verið ásökuð um kynferðislega áreitni á fyrrum vinnustað, ef það er rétt að Atli Rafn hafi misst verktakaverkefni í kjölfar uppsagnarinnar?
Eða er eðlilegt að atvinnumöguleikar manneskju skerðist eftir ásakanir sem þessar?
Er hægt, með einhverju móti, að koma málum sem varða kynferðislega áreitni í farveg sem auðveldar bæði meintum þolendum og meintum gerendum að takast á við þau?
Er siðferðislega rétt að stjórnandi stofnunar þurfi að fórna sér til að halda trúnaði?
Hvernig ætlum við að takast á við það þegar breytt viðhorf hafa leitt til breytts gildismats í samfélaginu en ekki endilega alltaf til breytts regluverks?
Getur verið að skömm hindri suma þá sem verða vísir að kynferðislegri áreitni í að skilja afleiðingar atferlisins og er þá einhvern veginn hægt að vinna í að uppræta skömm þeirra, rétt eins og skömm þolenda, til að betur megi til takast að uppræta hegðunina?
Í menningu okkar hafa viðbrögð við kynferðislegri áreitni oft verið óþægilegur hlátur eða þögn, allt nema festa fingur á því óþægilega. Í fyrra var ég í boði ásamt konum sem vinna í opinberlega reknu leikhúsi hér í bæ, þar kom áreiti til tals og sagði ein eitthvað á þessa leið: Stundum finn ég til með þessum körlum. Því þeir hafa alltaf fengið að áreita okkur þangað til nýlega; viðbrögð okkar kvenna hafa verið að hlæja bara og þykjast upp með okkur til að viðhalda félagslegri mýkt á vinnustað. Svo auðvitað halda þeir að okkur þyki þetta skemmtilegt! Það er skiljanlegt að þeir skilji sumir ekki núna að þeir hafi gert eitthvað rangt.
Nú veit ég ekkert um þessi atvik sem eiga að tengjast máli Atla Rafns en almennt, í málum af þessum toga, kvikna oft flóknar vangaveltur sem reyna ekki aðeins á meinta þolendur og meinta gerendur heldur líka allt nærumhverfið; fjölskyldu, vini og starfsfélaga.
Við erum komin nokkuð áleiðis í átakamikilli viðhorfsbyltingu. Samt megum við ekki ofmetnast á þann hátt að við forðumst að spyrja okkur áleitinna, krefjandi spurninga og það án þess að telja okkur hafa strax réttu svörin við flóknum hlutum. Því mál sem lúta að kynferðislegri blygðun eru ekki bara óþægileg, þau geta líka haft hættulegar afleiðingar á ófyrirsjáanlegan hátt; atburðarásirnar geta orðið kræklóttar og snert marga með beinum eða óbeinum hætti. Þau eiga til að verða svo flókin í eðli sínu að umbreytingarkraftur byltingarinnar krefst þess að við spyrjum okkur sjálf spurninga til að harmleikir fæði ekki af sér ennþá fleiri harmleiki.