Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði sem sæti á í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, komu á dögunum fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.
Á fundinum ákvað Gylfi Zoega að tjá sig um vandamálin hjá ferðaþjónustunni og Icelandair, sem eru mikil og alvarleg þessi misserin.
Um vanda Icelandair sagði hann meðal annars:
„Hvenær verður eigið fé þar komið á hættulegt stig? Það má ekki veðja þjóðarbúinu á að Icelandair fái fullar bætur frá Boeing.”
Hann tjáði sig enn fremur um áhyggjur sem hann hefði af veikum rekstrargrunni í ferðaþjónustu almennt, vegna hás launakostnaðar í hlutfalli við tekjur og erfiðra rekstrarskilyrða.
Í ljósi þess hve stór atvinnugrein ferðaþjónustan væri orðin á Íslandi þá væri þetta ákveðið hættumerki fyrir hagkerfið.
Bréfasendingar
Icelandair brást við þessu með neikvæðum hætti, og gagnrýndi forstjóri félagsins, Bogi Nils Bogason, Gylfa fyrir „ógætileg” orð og að hafa gert Icelandair sértækt að umtalsefni á fundinum. Var meðal annars gengið svo langt, að bréf var sent formlega til Seðlabankans vegna þessa.
Þetta er óvenjulegt og algjör óþarfi hjá félaginu.
Sjálfsagt er hjá Gylfa að viðra skoðanir sínar á stöðu mála, og ef hún beinist að einu fyrirtæki sem er þjóðhagslega mikilvægt þá er sérstaklega mikilvægt að ræða um þau. Ekkert athugavert við það. Almannahagsmunir eru fyrir því að draga upp glögga mynd af stöðunni. Staða félagsins er ekki einkamál hluthafa eða stjórnenda, eins og áður segir.
Loftbrúin milli Íslands og umheimsins hefur kerfislægt mikilvægi fyrir íslenska hagkerfið og Icelandair er þannig þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki. Enda er fyrirtækið langsamlega stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins og erfitt að hugsa sér stöðu mála án þess. Fólksflutningar og vöruflutningar eru það umfangsmiklir, og félagið sinnir mikilvægu hlutverki fyrir Ísland.
Það hefur tapað 11 milljörðum á síðustu tveimur ársfjórðungum og staðan verið erfið. Fátt bendir til annars en að hún verði það áfram.
Það sem þingmenn ættu að taka til sín, er það að Gylfi ákvað að fara á fundinn og gera þetta að umtalsefni af ástæðu með seðlabankastjóranum. Það ætti öllum að vera ljóst.
Þeir eru að senda skilaboð til þingmanna og tala um það sem skiptir mestu máli í augnablikinu í hagkerfinu, og þar sem mesta áhættan liggur. Auðvelt er að lesa það út úr því sem fram kom á fundinum, þó eflaust geti verið deildar meiningar um það.
Í Fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands er staðan einnig gerð að umtalsefni og það segir sína sögu um það, að vandi félagsins er alvarlegur.
Markaðsvirði Icelandair skiptir engu máli miðað við mikilvægi félagsins fyrir hagkerfið. Það að markaðsvirði félagsins hafi hrunið niður á undanförnum árum, og sé nú aðeins rúmlega 0,5 sinnum eigið fé félagsins (um 30 milljarðar, en bókfært eigið fé 55 milljarðar), segir sína sögu um hvernig fjárfestar meta félagið um þessar mundir.
Málsóknir Southwest
Neikvæðar fréttir af stöðu mála hjá Boeing, vegna kyrrsetningar á 737 Max vélunum og rannsóknum sem enn eru í gangi, eru ekki til að skapa mikla jákvæðni. Icelandair hefur veðjað á þær vélar, og því hefur kyrrsetningin komið illa við félagið, eins og marg hefur verið rakið. Icelandair gerir ráð fyrir því að geta byrjað að nota vélarnar í janúar.
Nýjustu fréttir frá Southwest flugfélaginu, sem keypt hefur meira en 30 Max vélar, benda til þess að Max vélarnar fari í fyrsta lagi í loftið í febrúar, samkvæmt mati félagsins. Þá hefur stéttarfélag flugmanna Southwest hafið málarekstur gegn Boeing og gerir kröfu um 100 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 12,5 milljörðum króna, í bætur.
Ástæðan er sú að félagið hafi ekki staðið rétt að upplýsingagjöf til flugmanna og þannig ógnað öryggi þeirra og farþega. Fjölmargar lögsóknir eru ýmist í undirbúningi eða í gangi, gegn Boeing, og ekki sér fyrir endann á þeim málum.
Rannsóknum á slysunum hörmulega í Indónesíu og Eþíópíu, þar sem 346 létu lífið eftir að Max vélarnar toguðust til jarðar, er hvergi nærri lokið.
Tíminn er ekki að vinna með Icelandair, og af þeim ástæðum verður að teljast eðlilegt að ræða um vanda félagsins við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, með fremur almennum og hófstilltum orðum.
Vonandi er vel fylgst með
Á þessum vettvangi var fjallað um alvarlega stöðu íslensku loftbrúarinnar, 10. september síðastliðinn, og meðal annars fjallað um ótrúverðug áform þeirra sem vilja byrja að fljúga undir merkjum WOW air.
Nær ekkert hefur staðist sem komið hefur fram í yfirlýsingum þeirra sem hafa verið með það hlutverk að tjá sig fyrir hönd félagsins. Vonandi eru stjórnvöld, í gegnum Samgöngustofu og eftirlitshlutverk hennar, að fylgjast náið með hverju skrefi, því það getur haft alvarlegar afleiðingar að fara af stað með vanfjármögnuð og illa undirbúin flugfélög, eins og sakir standa.
Þögnin hættuleg
Sagan ætti að kenna okkur það að bera virðingu fyrir því þegar okkar helstu fræðimenn og stjórnendur í Seðlabankanum eru að tjá sig um málefni einstaka fyrirtækja sem eru í vandræðum.
Óþarfi er að taka almennu tali um þetta illa, og bréfasendingar eru taktlausar. Ekkert er ógætilegt við það að fjalla um vandamálin. Það er frekar að það sé á hinn veginn, að þögnin ein geti verið hættuleg. Þannig var það í aðdraganda þess að WOW air fór á hausinn.
Vonandi tekst að viðhalda og styrkja lofbrúna milli Íslands og umheimsins, en vandamálin hjá Icelandair eru eðlilegt umræðuefni fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis þessi misserin, vegna þess hve mikið er í húfi.