Fram hefur komið í fréttum að Mjólkursamsalan dumpar nú 300 tonnum af smjöri á erlendan markað. Ég útskýrði í grein í Kjarnanum að ástæða þess að MS kysi frekar að dumpa smjörinu á erlendan markað en að þjóna íslenskum neytendum væru fjárhagslegar. Ávinningur MS af þessu framferði væri um fjórðungur úr milljarði á þessu ári.
Samskiptastjóri MS er ekki ánægður með þessa uppljóstrun og fullyrðir í (svar)grein í Kjarnanum að MS sé nauðugur sá kostur einn að flytja út umrætt magn vegna fyrirmæla í búvörulögum þess efnis að svokölluð umframmjólk skuli seld á erlendum mörkuðum. Á þeirri nauðung eru bæði lagalegar og hagfræðilegar hliðar.
Hugum að lagalegu hliðinni fyrst. Umrædd heimild til útflutnings mjólkur er í 52. Gr. Laga númer 99/1993 og hljóðar svo: „Framleiðsla mjólkur umfram greiðslumark skal fara á erlendan markað á ábyrgð hvers framleiðanda og viðkomandi afurðastöðvar. Framkvæmdanefnd búvörusamninga getur þó heimilað sölu þessara vara innan lands ef heildarframleiðsla verður minni en sala og birgðastaða gefa tilefni til.“ Með hliðsjón af orðum samskiptafulltrúans vekur athygli fyrst að „...Framkvæmdanefnd búvara getur heiimilað sölu þessara vara innanlands“.
Víkjum þá að hagfræðilegu hliðinni á meintri umframframleiðslu: Eftirspurn ræðst af verði. Haldi einkasali smjörs verði á smjöri mjög háu eykur hann líkurnar á því að sitja uppi með umframbirgðir. Lækki einkasali verðið á smjörinu getur hann lent í þeirri klípu að geta ekki sinnt öllum þeim sem vilja kaupa smjör. Í hagfræðilegum skilningi er því erfitt að festa hönd á magni umframsmjörs og umframmjólkur. Í hagfræðilegum skilningi er óvænt birgðasöfnun dæmi um of hátt verðlag. Í hagfræðilegum skilningi er óvæntur skortur dæmi um að verð hafi verið sett of lágt. Það breytir því ekki að aðstæður geta verið þannig að það borgi sig fyrir einkasala út frá hagnaðarsjónarmiði að keyra framleiðslu á haugana (eða hleypa henni út í holræsakerfið, sé um hrámjólk að ræða). Þannig munu sumir tískuvöruframleiðendur eyðileggja óseldan lager frekar en að selja hann. Eftir að það tiltæki komst í hámæli hafa fyrirtækin orðið fyrir talsverðu neikvæðu umtali. Mjólkursamsalan hefur nú orðið uppvís af að beita svipuðum aðferðum og Karl Lagerfeld og Gucci til að auðgast!
Lærdómurinn af þessu öllu er sá að erfitt er að fullyrða með hliðsjón af hagfræðilegum röksemdum að offramleiðsla sé á smjöri á Íslandi. Hin rétta hagfræðilega fullyrðing er að miðað við framleiðslu MS á smjöri er verð á smjöri of hátt. Þá er það einnig ástæða til að spyrja hvort formkröfum búvörulaga hafi verið fylgt þegar ákvörðun var tekin um útflutning smjörs haustið 2019.
Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.