Nýlega kom út bókin Tæpitungulaust – lífsskoðun jafnaðarmanns, eftir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formann Alþýðuflokksins og ráðherra.
Bókin er safn greina, ræða og viðtala sem spanna síðustu fjóra áratugina eða svo. Jón Baldvin var einn af áhrifamestu stjórnmálamönnum Íslands á 20. öldinni og því er forvitnilegt að kynna sér feril hans og stjórnmálasýn. Hann er auðvitað þekktur fyrir að tala tæpitungulaust og hann skrifar skýran og almennt hnitmiðaðan texta, sem rennur vel og skilmerkilega. Fyrr þá sem vilja kynna sér stjórnmálaviðhorf síðustu fjögurra áratuganna er mjög gagnlegt að lesa þetta greinasafn Jóns Baldvins.
Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor lýsir í inngangi helstu afrekum Jóns Baldvins á stjórnmálaferlinum og leggur mesta áherslu á þátt hans í samningagerð og endanlegri aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES), sem og einstakt framlag hans til sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna þegar Sovétríkin voru að liðast í sundur um og upp úr 1990.
Hvoru tveggja verðskulda sérstakan sess í stjórnmálasögu seinni tíma og mega teljast til afreka á þeim vettvangi. En ég myndi bæta a.m.k. einu við: endurgerð íslenska skattkerfisins á árunum 1987 og 1988, þegar Jón Baldvin var fjármálaráðherra. Hann gjörbreytti tekjuskatti einstaklinga og beitti sér fyrir upptöku virðisaukaskatts í stað söluskatts. Bæði voru mikil framfaraskref á þeim tíma.
Í nýja tekjuskattskerfinu voru sameinaðir margir frádráttarliðir sem mynduðu veglegan persónuafslátt, sem létti skattbyrði lágtekjufólks og jafnaði tekjuskiptinguna þrátt fyrir að álagning væri flöt. Á árunum í kjölfar breytingarinnar, frá 1988 til 1994, voru lægstu laun á vinnumarkaði sem og lágmarkslífeyris almannatrygginga skattfrjáls í tekjuskattinum. Það er staða sem láglaunafólk og lífeyrisþegar nútímans geta einungis látið sig dreyma um, því persónuafslátturinn var kerfisbundið rýrður frá og með 1995 til hruns, og svo aftur frá 2013 til 2018. Afleiðingin af því var aukin skattbyrði láglaunafólks, eða það sem ég hef kallað „stóru skattatilfærsluna“, því samhliða þessu var álagning á tekjur hátekjumanna lækkuð.
Öflugur greinandi
Í þessari bók kemur vel fram hversu öflugur greinandi stjórnmála og samfélagsþróunar Jón Baldvin er. Sérstakur styrkleiki hans er að setja þróunina á Íslandi í samhengi alþjóðaþróunar stjórnmála og kapítalisma. Þetta er rótin að því að Jón Baldvin hefur haft óvenju heildstæða pólitíska sýn á mælikvarða íslenskra stjórnmála. Sýn hans hefur þó falið í sér áherslubreytingar yfir tíma.
Í kringum 1990, þegar nýfrjálshyggja var orðinn ríkjandi í stjórnmálum á Vesturlöndum, sá Jón Baldvin sitthvað jákvætt við aukna markaðsvæðingu í íslensku samfélagi. Ástæðan var sú að á Íslandi hafði ríkisforsjá í atvinnulífinu og fyrirgreiðsluspilling helmingaskiptastjórnmálanna, einkum undir handjaðri Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, verið fyrirferðamikil til langs tíma.
Jón Baldvin leit síðan í vaxandi mæli til Evrópusambandsins sem vettvangs fyrir útbreiðslu aukinna samkeppnishátta og nútímalegra atvinnulífs. Þaðan er sprottinn áhugi hans á að tengja Ísland betur við þróunina í Evrópusambandinu. Þegar svo kom til að EFTA-ríkin semdu um nánara samband við Evrópusambandið, sem endaði með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið árið 1992 (EES), þá var Jón Baldvin í forystu og beitti sér af alefli fyrir þátttöku Íslands. Hann fórnaði meira að segja forsætisráðherraembætti til Sjálfstæðisflokks Davíðs Oddssonar til að tryggja aðild Íslands að EES.
Ekki var laust við að íslenskir kratar hafi á þessum tíma tortryggt að einhverju leyti norræna velferðarríkið, sem einnig mátti rekja til áhrifa frá nýfrjálshyggjunni og síðar frá Blairisma breska verkamannaflokksins, svo dæmi sé tekið. Menn töluðu um að velferðarríkið væri of dýrt, vinnuletjandi og drægi úr hagvexti og nýsköpun með of mikilli skattlagningu. Sá málflutningur hefur nú orðið verið hrakinn svo um munar og Jón Baldvin hefur snúið við blaðinu hvað þetta snertir, eins og bókin sýnir með afgerandi hætti.
Nýrri áherslur: norræna líkanið gegn nýfrjálshyggjunni
Jón Baldvin hefur sjálfur sagt að vera hans sem sendiherra í Bandaríkjunum um árabil (1998 til 2002) hafi breytt viðhorfi hans til Bandaríkjanna, nýfrjálshyggjunnar og norræna velferðarríkisins. Frá þeim tíma hefur gagnrýni hans á meinsemdir nýfrjálshyggjunnar („Washington vizkunnar”), sem öðru fremur mótaði alþjóðavæðinguna á síðustu áratugum, orðið sífellt beittari allt til þessa dags. Þannig er mikill fjöldi greina í bókinni um andstæðurnar milli norræna velferðarríkisins (norræna módelsins) og samfélags nýfrjálshyggjunnar (bandarísku leiðarinnar), sem og um mikla og auðsýnda yfirburði norrænu leiðarinnar (sjá fjórða hluta bókarinnar).
Áður talaði Jón Baldvin oft fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er hins vegar liðin tíð. Athyglisvert er að margir stuðningsmenn Jóns Baldvins eru þó enn á þeirri afstöðu, til dæmis er Samfylkingin enn með það sem stefnumál – að ógleymdum Sjálfstæðismönnunum í Viðreisn. Jón Baldvin færir ýmis pragmatísk rök gegn aðild á næstunni, svo sem óleyst vandamál við skipulag og útfærslu Evrópusambandsins og ófullnægjandi grundvöll evrunnar.
Hins vegar er að finna í gagnrýni hans á nýfrjálshyggjuna í alþjóðavæðingunni enn dýpri ástæður til að hafna aðild að ESB að óbreyttu. Það liggur í göllum alþjóðavæðingarinnar, sem eiga einnig við ESB, (sjá til dæmis tvo kafla um gallana við Evrópusambandið á bls. 315 til 331). Í því sambandi má til dæmis nefna þann þátt fjór-frelsisins sem lýtur að auknu frelsi fjármagnsins. Það og fleira til (t.d. frelsi til búferlaflutninga) sem tengist alþjóðavæðingunni hefur grafið undan stöðu almenns launafólks í vestrænum samfélögum en stóreflt stöðu og frelsi fjármagns- og fyrirtækjaeigenda. Þetta er beintengt síauknum ójöfnuði í vestrænum samfélögum, notkun skattaskjóla og hnignun starfskjara og öryggis launafólks í hagsældarríkjunum.
Jafnaðarmenn ættu að skoða þessi þróunareinkenni í samhengi, þar með talið í löndum Evrópusambandsins. Alþjóðavæðing óheftra markaðshátta (í anda nýfrjálshyggju-hagfræðinnar) er meingölluð. Þetta þarf að laga, bæði á vettvangi ESB og heimshagkerfisins almennt.
Undanhald sósíaldemókratíunnar á Vesturlöndum
Ég ætla að taka röksemdir Jóns Baldvin gegn nýfrjálshyggju-hagfræðinni skrefinu lengra og freista þess að skýra almenna veikingu flokka jafnaðarmanna á Vesturlöndum, samhliða vexti nýrra flokka, sem oft eru kenndir við popúlisma.
Vandræði krataflokka í nútímanum eru Jóni Baldvin og fleirum reyndar nokkuð hugleikin. Ein skýring á því er sú sem Þröstur Ólafsson reifaði á afmælishátíð Alþýðuflokksins fyrir tveimur árum, það er að kratar séu nú fórnarlömb góðs eigin árangurs við uppbyggingu velferðarríkisins og almennar þjóðfélagsumbætur í blandaða hagkerfinu á liðnum áratugum. Jón Baldvin ræðir þetta í bókinni og tekun undir það að hluta en bætir við öðrum hugsanlegum hlutaskýringum. Allt er það áhugaverð umræða.
Sósíaldemókratar hafa almennt tekið alþjóðavæðingunni opnum örmum. Þeir eru í dag oft meiri alþjóðasinnar en jafnaðarmenn. Þar með eru þeir oft óbeint orðnir stuðningsmenn nýfrjálshyggju-hagfræðinnar og fjármagnsfrelsisins sem alþjóðavæðingunni fylgir – jafnvel þó þeir samhliða tali fyrir auknum jöfnuði. Almenningur sem horfir upp á aukinn ójöfnuð og yfirburðastöðu fjármagns- og fyrirtækjaeigenda sér ekki lengur þann stuðning við lægri stéttir vinnandi fólks sem áður var að finna hjá krataflokkunum.
Þess vegna leitar verkalýðsstéttin og afskipta millistéttin í auknum mæli á náðir nýrra stjórnmálaflokka og lýðskrumara sem taka afstöðu gegn sumum þáttum alþjóðavæðingarinnar (t.d. auknum fjölda innflytjenda og veikingu velferðarríkisins) og segjast vilja bæta hag þeirra sem verst standa eða eftir sitja. Nú á dögum horfir fólk ekki í sama mæli til krataflokka hvað hagsmunabaráttu lægri stétta varðar – eins og áður var.
Í fyrsta kafla bókarinnar segir Jón Baldvin eftirfarandi um erindi jafnaðarmanna í stjórnmálunum:
„Gleymum því aldrei, að frá og með þeim degi sem sjómaðurinn við færið, verkamaðurinn við byggingakranann og uppfræðari æskunnar finna það ekki í hjarta sínu lengur, að okkar flokkur sé þeirra flokkur, þá hefur okkur mistekist. Þá höfum við hreinlega brugðist skyldum okkar og ætlunar verki.” (bls. 16-17).
Er það ekki einmitt gölluð alþjóðavæðingin sem er að skila þessu? Það er að minnsta kosti í samræmi við harða gagnrýni Jóns Baldvins á nýfrjálshyggjueðli alþjóðavæðingarinnar.
Jafnaðarmenn nútímans geta lært mikið af greiningum Josefs Stiglitz hagfræðings á göllum alþjóðavæðingarinnar, bæði á vettvangi Evrópusambandsins og í heiminum almennt. Ef menn vilja bjarga kapítalismanum frá hinum gráðugu kapítalistum nýfrjálshyggjunnar þá þarf að koma böndum á alþjóðavæðinguna, þannig að hún þjóni betur hagsmunum almennings en ekki bara hagsmunum þeirra ríkustu eins og verið hefur á síðustu áratugum. Óheft alþjóðavæðing á forsendum frjálshyggjuhagfræða gengur gegn hagsmunum almennings en þjónar fámennri yfirstétt einstaklega vel. Þess vegna er alþjóðavæðingin að óbreyttu illa samrýmanleg jafnaðarstefnu í vestrænum samfélögum.
Niðurlag
Jón Baldvin hefur verið afgerandi stjórnmálamaður og öflugur greinandi stjórnmála- og samfélagsþróunar í heiminum. Greinasafn hans gerir framlagi hans góð skil og er einnig mjög gagnleg lesning fyrir þá sem vilja kynna sér stjórnmálasögu síðustu fjörutíu ára eða svo.
Svona greinasafn felur óhjákvæmilega í sér hættu á talsverðum endurtekningum, eins og höfundur bendir reyndar sjálfur á. Áherslan í bókinni er að birta allt af skrifum Jóns Baldvins sem veigur er í. Það hefur gildi út af fyrir sig. Vel hefði þó mátt fækka greinum umtalsvert og fá þar með mun skarpari og hnitmiðaðri bók.
Ég mæli þó eindregið með þessari bók Jóns Baldvins fyrir áhugafólk um framgang jafnaðarstefnu í nútímanum og erindi hennar í stjórnmálum framtíðarinnar.
Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi í hlutastarfi.