Ísland er í dag einna þekktast í útlöndum fyrir spillingu. Það er einfaldlega staðreynd. Fyrir að hafa leyft bankamannastóði að fyrst blása upp og svo tæma bankakerfi að innan með blekkingum og lögbrotum með gríðarlegum afleiðingum fyrir almenning í landinu. Fyrir að vera heimsmeistarar í aflandsfélagaeign í skattaskjólum – sem er einvörðungu til þess að fela peninga frá réttmætum eigendum þeirra – miðað við höfðatölu líkt og opinberað var í Panamaskjölunum. Við erum þekkt fyrir að vera eina ríkið á EES-svæðinu sem er á gráum lista vegna ónógra peningaþvættisvarna.
Og nú erum við þekkt fyrir að múta ráðherrum í Namibíu til að tryggja mjög ríkum frændum frá Akureyri tækifæri til að verða enn ríkari á kostnað samfélagslegrar uppbyggingar í landinu. Samfélagslegrar uppbyggingar sem Ísland hefur kostað um tvo milljarða til að byggja upp í gegnum þróunaraðstoð til að Namibía gæti haft hag af nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar, byggt upp innviði og aukið lífsgæði. Samfélagslegrar uppbyggingar sem var hætt vegna bankahrunsins og skömmu síðar einfaldlega sett til hliðar af gráðugum mönnum að norðan í vegferð sem fyrrverandi stjórnandi í fyrirtækinu þeirra kallar „skipulagða glæpastarfsemi.“
Opinberun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks í gærkvöldi var vönduð, ítarleg og studd margháttuð gögnum, til viðbótar við játningu lykilstjórnanda Samherja í Afríku á þátttöku í lögbrotum á borð við milljarða mútugreiðslur, skattsvik og peningaþvætti.
Hún setur starfsemi þessa eins stærsta fyrirtækis á Íslandi í nýtt ljós. Fyrirtækis sem hefur hagnast um 112 milljarða króna á átta árum. Fyrirtækis sem á heilu og hálfu byggðarlögin. Sem hefur teygt anga sína inn í fjölmarga aðra geira en fiskvinnslu á Íslandi, svo sem fjölmiðlarekstur, smásölu, vöruflutninga og um tíma bankastarfsemi.
Fyrirtæki sem hefur leynt og ljóst stutt við valda stjórnmálaflokka, í fleirtölu, og valda stjórnmálamenn með því að greiða til þeirra styrki, lána þeim fjármuni í viðskiptum eða hafa þá jafnvel á launaskrá. Fyrirtæki sem er ráðandi aðili, og með fulltrúa í stjórn SFS, áhrifamesta hagsmunagæslufyrirbæris Íslands sem hefur bein og óbein áhrif á nánast alla laga- og reglugerðarsetningu um starfsemi sína. Vegna þess að stjórnmálamenn leyfa þeim það.
Nornaveiðar, falsfréttir og misheppnuð rannsóknarblaðamennska
Í aðdraganda opinberunarinnar kvað við kunnuglegur tónn. Hann minnti óneitarlega á dagana á undan því að Panama-skjölin voru opinberuð. Ráðist var að nafngreindum fjölmiðlum og nafngreindum fjölmiðlamönnum fyrir að vera óbilgjarnir, óheiðarlegir og lélegir. Það er sama taktík og beitt var í aðdraganda birtingu Panama-skjalanna, þegar ríkjandi valdajafnvægi og kerfinu sem viðheldur því var líka ógnað.
Og það gerði sitjandi þingmaður sem sagði: „RÚV virðist einkum vera í því að eyðileggja einstaklinga og fyrirtæki í fullkomlega misheppnaðri rannsóknarblaðamennsku, þar sem fréttamenn eru að glíma við verkefni sem þeir ráða ekki við.“
Í yfirlýsingu Samherja sem send var út daginn áður en Kveiks-þátturinn var sýndur var haft eftir forstjóra fyrirtækisins að þeir myndu ekki „sitja undir röngum og villandi ásökunum frá fyrrverandi starfsmanni sem enn á ný eru matreiddar af sömu aðilum og fjölmiðlum og í Seðlabankamálinu.“
Þetta var bara hann Jóhannes
Í yfirlýsingu sem Samherji sendi eftir þáttinn var tóninn búinn að breytast umtalsvert og ekki gerð tilraun til að neita því að spilling, mútur, skattsvik eða peningaþvætti hefði átt sér stað í starfsemi fyrirtækisins. Þess í stað var Jóhannesi Stefánssyni, fyrrverandi verkefnastjóra Samherja í Namibíu sem hefur gerst uppljóstrari, kennt um allt. Þar sagði að svo virtist sem að Jóhannes hefði „hugsanlega flækt Samherja í viðskipti sem kunni að vera ólögmæt.“ Samherji hefði ekki haft neina vitneskju um umfang og eðli þeirra viðskiptahátta sem Jóhannes átti að hafa stundað og að Samherji hafi ráðið eigin rannsakanda til að kanna málið.
Vandamálið við þessa framsetningu er sú að Jóhannes hafði afar takmarkaða prókúru til að millifæra af reikningum Samherja. Og það var ekki hann sem millifærði peninga sem grunur er um að séu mútugreiðslur af reikningum Samherja í Noregi inn á reikninga ætlaðra mútuþega í Dúbaí.
Þess utan var Jóhannes rekinn í júlí 2016, en afhjúpunin sýndi að himinháar peningagreiðslur héldu áfram að berast til Dúbaí-félagsins fram í janúar 2019 hið minnsta. Samherji telur því væntanlega að Jóhannes hafi haldið áfram að greiða meintar mútugreiðslur inn á reikninganna í tæp þrjú ár eftir að hann hætti störfum hjá fyrirtækinu.
En veikasti hluta röksemdarfærslunnar er auðvitað sá að það var ekki Jóhannes Stefánsson sem hagnaðist á mútugreiðslum og skattasniðgöngu. Það voru eigendur og stjórnendur Samherja, Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson.
Áfall en hvað svo?
Fyrstu viðbrögð við umfjölluninni í gær eru líka kunnugleg. Hér er þjóð í áfalli yfir því sem hefur verið borið á torg fyrir hana. Lítið fer fyrir úrtölumönnunum og falsfréttar-áróðrinum. En það mun ekki líða langur tími þangað til að sú vél trekkir sig í gang full af heilagri vandlætingu gagnvart heilögu vandlætingunni. Það verður settur mikill kraftur í að skilgreina innan hvaða marka umræða um þessi mál megi fara fram. Að það sé farsakennt að yfirfæra með einhverjum hætti starfshætti Samherja í Afríku á starfshætti fyrirtækisins á Íslandi. Að það sé út fyrir allan þjófabálk að draga einhverjar ályktanir um sjávarútveg á Íslandi í heild út frá þessari umfjöllun. Að það sé ósmekklegt að tengja Samherja með einhverjum hætti við stjórnmál. Það hefur fyrrverandi ráðherra þegar gert þar sem hann segir á heimasíðu sinni: „Hvernig getur frásögn ríkisútvarpsins sem ætlað er að sýna fram á spillingu í Namibíu snert stjórnarskrá Íslands og auðlindaákvæði í henni? Að tengja ástandið í Namibíu fiskveiðistjórnunarkerfinu á Íslandi er of langsótt.“
Vélin kann þennan leik. Vanalega gengur enda taktík hennar upp. Sitja af sér mesta sjokkið eftir opinberun en koma síðan í sóknarhug í kjölfarið og ná að tryggja að málið hafi engar alvarlegar afleiðingar.
Það búast enn færri við því að tekið verði raunhæft á því ofurvaldi og yfirgangi lítils hóps sjávarútvegsofurstéttar sem tekið hefur yfir íslenskt samfélag með húð og hári og situr á hundruðum milljarða króna auði sem hann nýtir til að rótfesta það tak enn frekar.
Og það virðist borin von að gerðar verði vitrænar tilraunir til að taka á stærsta kerfislega vanda Íslands; djúpri og rótgróinni strokuspillingu sem er orðin svo eðlislæg að meira segja þeir sem framkvæma hana trúa því ekki lengur að í henni felist neitt annað en eðlilegir starfshættir.
Kerfislegur tilbúningur
Það er líkast til óumflýjanlegt að Samherji verði fyrir miklum alþjóðlegum áhrifum. Atferli fyrirtækisins í Namibíu mun hafa áhrif á getu þess til að nálgast kvóta alþjóðlega. Það að DNB, norskur banki að hluta til í eigu norska ríkisins, hafi stöðvaði viðskipti við félög tengd Samherja á Kýpur og Marshall-eyjum vegna þess að reglur um varnir gegn peningaþvætti voru ekki uppfyllt, og að þau mál séu nú til skoðunar hjá norsku efnahagsbrotadeildinni og deildar embættis héraðssaksóknara þar í landi samkvæmt Stundinni, bendir til þess að Samherji muni eiga í auknum vandræðum í bankaviðskiptum sínum í framtíðinni. Í Namibíu eru báðir ráðherrarnir sem taldir eru hafa þegið mútur frá Samherja búnir að segja af sér, innan við sólarhring eftir að málið var opinberað.
Hér heima verður áhugavert að sjá hvað gerist. Það er hið minnsta barnalegt að ætla að viðmót fyrirtækisins sé annað hérlendis en í Afríku. Að á Íslandi nýti Samherji ekki allar leiðir til þess að græða sem mestan pening og borga sem minnstan skatt, líkt og umfjöllun Kveiks og Stundarinnar sýndi að fyrirtækið gerði í Namibíu.
Bæði héraðssaksóknari og skattrannsóknarstjóri eru að skoða hin meintu brot í Namibíu. Þessi embætti munu þurfa stuðning til þess að takast á við valdamestu menn á Íslandi. Menn sem hafa ekki hikað við að ráðast hart persónulega að þeim sem hafa veitt þeim aðhald, né við að eyða stórum fjárhæðum í almannatengla eða lögmenn til að reyna að fá sínu fram.
En fyrst og fremst þurfum við að horfast í augu við það að Samherji er kerfislegur tilbúningur.
Stjórnmálamenn þurfa að horfa í spegil
Það var ákvörðun íslenskra stjórnmálamanna að leyfa þessari stöðu að verða. Þar sem Samherji, og eftir atvikum aðrir kóngar úr sama geira, hafa getað sölsað undir sig þorra kvótans á Íslandi og veðsett hann á súrrealískt háu verði í ríkisbönkum til að fá lánsfé út úr þeim. Á þessum grunni hefur Samherji skapað sér tækifæri til að arðræna Namibíu með niðurbroti á fiskveiðisstjórnunarkerfi, sem greitt var fyrir uppbyggingu á með íslensku skattfé, og var meira að segja á pappír betra og sanngjarnara en það sem við búum við á Íslandi.
Það er ákvörðun þeirra að í stað þess að leiðrétta þessa skekkju sem er til staðar vegna nýtingar fiskveiðiauðlindarinnar, þar sem meginþorri arðseminnar lendir í vasa eigenda sjávarútvegsfyrirtækja, eru stjórnmálamenn nú uppteknir við að afnema stimpilgjöld af fiskiskipum að kröfu sjávarútvegsfyrirtækja og verja það að veiðigjöld á næsta ári verða lægri en það gjald sem tóbaksneytendur greiða í tóbaksgjald.
Það er kominn tími til að stjórnmálamenn líti í spegil og spyrji heiðarlega hvort þeir séu ánægðir með það sem kerfin okkar hafa búið til. Með ofurstétt kvótaeigenda? Með Samherja? Með undirlægjustjórnmálin? Með spillinguna sem opinberast í því að valinn hópur fær aðgang að tækifærum, völdum, peningum og auðlindum annarra?
Hvort það geti ekki verið að meðvirkni þeirra og andvaraleysi gagnvart því sem blasir við geri þá að hluta af vandamálinu.
Og þar af leiðandi ekki lausninni.