Ef einhversstaðar í orðabókum er að finna hugtakið „brjálaður vísindamaður“, þá mætti vel hafa mynd af Jack Parsons þar. Saga hans er svo mögnuð að maður gæti helst trúað að þetta væri beint úr Hollywood-handriti, frekar en raunveruleikanum. Þetta er saga af einkennilegum manni sem var snillingur á sínu sviði, bráðgáfaður, sjálfmenntaður því hann var fljótari að læra með því að lesa bækur og prófa sig áfram en að sitja á skólabekk. Vísindin skipuðu stóran sess í huga hans en þar áttu þau þó í kappi við mikinn áhuga á göldrum sem frekar má tengja við dulspeki 19. aldar en vísindahyggju þeirrar 20.
Inn í þetta blandast svo geimferðakapphlaup stórveldanna, dulspekingurinn og galdramaðurinn Alesteir Crowley, L. Ron Hubbard, stofnandi Vísindakirkjunnar alræmdu og Alríkislögreglan FBI.
John Whiteside Parsons, einatt kallaður „Jack“, fæddist í Los Angeles árið 1914. Fjölskyldan var vel efnuð en lenti þó seinna í alvarlegum erfiðleikum er kreppan skall á. Það varð fljótt ljóst að Parsons var bráðgáfaður og hann var strax á unga aldri heillaður af rakettum og sprengiefnum. Hann nam við hinn virta Stanford háskóla en hætti námi. Hann útskýrði það einatt með því að segja að fjármunir hefðu verið af skornum skammti vegna kreppunnar en vinir hans vissu vel að honum leiddist í skóla, Jack var einfaldlega ekki sú manngerð sem situr róleg á skólabekk, hann var á of mikilli hraðferð fyrir slíkt.
Frumkvöðull og vísindamaður
Ásamt félögum sínum stofnaði hann fyrirtæki, aðeins tvítugur að aldri, sem stundaði rannsóknir á eldflaugum. Þeir voru á réttum stað á réttum tíma. Allir hernaðarsérfræðingar vissu að eldflaugar voru framtíðin. Eftir ósigur Þýskalands voru ýmsir af fremstu vísindamönnum þar, fluttir til Bandaríkjanna til að halda áfram með rannsóknir sínar. Geimferðakapphlaup stórveldanna var rétt að hefjast. Helsti hæfileiki Parsons var í að búa til eldsneyti fyrir eldflaugar. Hann naut mikillar virðingar meðal félaga sinna og þótti í raun hreinræktaður snillingur í þessum efnum. Það var bæði erfitt og hættulegt að blanda eldsneytið rétt svo það væri mjög eldfimt en þó viðráðanlegt. Þeir félagar vissu vel að starf þeirra væri hreinlega lífshættulegt en létu sér það í léttu rúmi liggja og í hálfkæringi kölluðu þeir sig „sjálfsmorðssveitina“ (e. Suicide Squad).
Jack og félagar unnu hörðum höndum fyrir geimferðastofnun Bandaríkjanna. Maður gæti ætlað að slíkt starf, á þessum umbreytingartímum, væri auðveldlega mjög krefjandi og lítill sem engin tími fyrir önnur hugðarefni en Jack þurfti meira. Hann hafði engan áhuga á hefðbundnum trúarbrögðum og stjórnmál heilluðu hann ekki sérstaklega. Hann var nokkuð spenntur fyrir kommúnisma um tíma en missti fljótt áhugann. Ekki varð aftur snúið er Parsons kynntist skrifum enska dulspekingsins og galdramannsins Aleister Crowley.
Hann varð hugfanginn af efninu og var stöðugt í sambandi við galdrameistarann sem áttaði sig fljótt á því að, ekki aðeins var Jack snjall, heldur hafði hann einnig fjármuni milli handanna, vegna starfs síns fyrir NASA. Crowley fékk hann til að taka við leiðtogahlutverki safnaðar síns Ordo Templi Orientis (OTO) í Kaliforníu. Parsons keypti glæsivillu í Pasadena sem varð fljótt alræmd og frekar óvinsæl meðal nágranna þeirra.
Söfnuðurinn trúði því að kynlíf væri tæki til að komast í samband við verur á öðru tilvistarstigi og því voru reglulega haldnar svakalegar orgíur í húsinu, með tileigandi hamagangi og hávaða og það fór ekki framhjá nágrönnum þeirra. Nágrannerjur eru eitt en vegna starfs hans þá fylgdust yfirvöld auðvitað grannt með Parsons enda var alltaf hætta á að fjandsamleg ríki kæmust yfir viðkvæmar upplýsingar. Alríkislögreglan birti upplýsingar um Parsons sem féllu ekki beint í kramið: Auk þess að vera eldflaugasérfræðingur, var hann leiðtogi einhverskonar kynlífs-galdrasöfnuðar sem borðaði kökur gerðar úr tíðablóði og reyndu ítrekað að komast í samband við djöfla og drýsla. Þetta virtist alls ekki áreiðanlegur maður.
Í öllum alvöru sögum er fláráð kona sem hleypir öllu í uppnám og ein slík hafði nú gengið til liðs við OTO. Það var Sara Northrup Hollister, yngri systir Helen, eiginkonu Parsons. Jack varð samstundis hrifinn af Söru, sem þá var aðeins táningur og þau hófu samband sem leiddi til þess að Jack og Helen skildu. Fyrrum félagar hópsins hafa lýst Söru sem manneskju sem skapaði óeiningu hvar sem hún kom og að það hafi verið ljóst frá upphafi að hún ætlaði að hrifsa Jack frá systur sinni. Aleister Crowley sjálfur var ómyrkur í máli og líkti Söru við vampíru. Hópurinn trúði á frjálsar ástir en koma Söru hafði skapað alls kyns vandamál sem þeim reyndist erfitt að eiga við og í raun voru vandræðin rétt að hefjast því nú kom inn í hópinn maður sem í raun átti eftir að splundra honum: L. Ron Hubbard en hann er þekktastur sem stonandi Vísindakirkjunnar alræmdu.
Grunnur Vísindakirkjunnar?
Hubbard og Sara hrifust strax af hvort öðru og hún dró sig frá Jack og hóf samband við Hubbard. Hubbard var heillaður af heimsspeki hópsins og margir telja að Vísindakirkjan sé byggð á mörgu af því sem Hubbard lærði af því að umgangast Jack og því sem Crowley kenndi þeim. Eins og hjá Vísindakirkjunni seinna meir, þá þurfti hópurinn að borga Crowley peninga reglulega til að fá aðgang að fleiri „leyndarmálum“. Hubbard gerði sér þó fljótt grein fyrir því að 19. aldar átti lítt upp á pallborðið hjá almenningi á þessum tíma, þegar allt snerist um vísindi og geimferðir.
Jack hafði verið sá sem hélt hópnum á floti fjárhagslega. Í lok stríðsins var þó minna fyrir hann að gera og fjármunir hans tóku að minnka verulega. Hubbard stakk þá upp á því að þeir stofnuðu fyrirtæki sem seldi báta. Hubbard hafði reynslu af siglingum og var auk þess afar heillandi og sannfærandi maður svo Jack lét blekkjast. Hann lét Hubbard fá allt sem hann átti, í kringum 20 þúsund dollara. Hubbard átti að fara til Florida, kaupa báta og sigla þeim til Kaliforníu. Hubbard og Sara hurfu og sáust aldrei meir, hvað sem Jack reyndi að ná til þeirra. Sumir segja þó að Jack hafi náð sambandi en Sara hafi hótað að segja öllum frá sambandi þeirra og kynlífsgöldrum safnaðarins, sem myndi endanlega rústa orðspori Jacks sem vísindamanns. Sara og Hubbard sigldu sína leið og stofnuðu seinna Vísindakirkjuna sem varð fljótt geysivinsæl og rakaði inn peningum.
Jack var nú aleinn og yfirgefinn, vinur hans hafði tekið frá honum kærustuna og hans síðustu fjármuni. Til að bæta gráu ofan á svart þá var hann kominn á svartan lista hjá stjórnvöldum, bæði vegna galdrakuklsins en þó sérstaklega vegna þess að hann hafði eitt sinn verið spenntur fyrir Marxisma og stjórnvöld voru nú dauðhrædd við allt sem tengdist kommúnistum. McCarthy-ofsóknirnar voru rétt að hefjast. Jack, sem hafði einu sinni verið vel launaður og virtur sérfræðingur í eldflaugarannsóknum, neyddist til að vinna fyrir sér sem bifvélavirki og vaktmaður á sjúkrahúsi. Hann var þó á endanum hreinsaður af ásökunum um að vera kommúnisti og fékk starf hjá Hughes flugvélaverksmiðjunni.
Vandræði hans voru þó rétt að hefjast. Hann komst í kynni við gyðinga sem vildu styðja hið nýstofnaða ríki Ísrael og leituðu eftir aðstoð hjá Parsons. Ljóst var að Ísrael átti marga óvini og vitneskja Parsons um eldflaugar gætu nýst vel. Jack bjó sig þá undir að flytja til Ísrael. Ólíkt því sem er í dag þá voru bandarísk stjórnvöld á varðbergi gagnvart þessu nýstofnaða ríki gyðinga. Starfsmaður hjá Hughes gerði FBI viðvart og Parsons var handtekinn og yfirheyrður vegna gruns um að hann ætlaði að selja erlendu ríki mikilvægar upplýsingar.
Hann var þó endanum hreinsaður af ásökunum um njósnir en þetta leiddi til þess að margt úr fortíð hans kom fram í dagsljósið, meira en yfirmenn Hughes þoldu og Jack var rekinn frá fyrirtækinu. Bandarísk stjórnvöld ákváðu einnig að banna honum alfarið að vinna við eldflaugarannsóknir. Jack stofnaði þá fyrirtæki og vann aðallega fyrir kvikmyndaver við að búa til alls kyns brellur og sérstaklega sprengingar, sem var jú hans sérgrein. Að endingu varð þessi sérgrein Jack Parsons það sem dró hann til dauða. Þann 17. júní 1952 var hann heima við að búa til sprengiefni fyrir kvikmynd er eitthvað fór úrskeiðis. Mikil sprenging varð sem gjöreyðilagði húsið og stórslasaði Parsons. Hann lést skömmu eftir komu á sjúkrahús. Móður hans varð svo mikið um er hún frétti af þessu að hún framdi sjálfsmorð.
Dularfullt
Jack Parsons var látinn, aðeins 37 ára gamall. Jafnvel eftir dauða hans hélt hann áfram að skapa umtal og ýmsum þótti dauði hans dularfullur. Ótal samsæriskenningar spruttu upp. Sumir töldu að hann hefði í raun framið sjálfsmorð enda hafði hann lengi þjáðst af þunglyndi vegna þeirrar stefnu sem líf hans hafði tekið. Aðrir voru handvissir um Howard Hughes sjálfur hefði látið myrða hann vegna mikilvægra upplýsinga sem hann byggi yfir, eftir að hafa unnið fyrir fyrirtækið. Kenningar spruttu einnig upp um að stjórnvöld hefðu fyrirkomið honum vegna ótta um að hann myndi fara úr landi og láta mögulegum óvinum mikilvægar upplýsingar í té. Fyrrum félagar hans í galdrahópnum töldu að mögulega hefði hann dáið í tilraun til að skapa einhvern djöfullegan óskapnað frá annarri vídd.
Lífshlaup hans var stutt en magnað og það er á einhvern veginn við hæfi að enn, löngu eftir dauða hans, skapar hann enn umtal og áhuga.