Auglýsing

Á þriðjudag voru ætlaðar mútugreiðslur, skattsvik og peningaþvættistilburðir Samherja opinberaðir. Líkt og venja er var lítið um varnir daginn eftir. Gögnin sem umfjöllunin byggði á, og trúverðugleiki uppljóstrarans sem reyndi ekki með neinum hætti að breiða yfir sinn þátt í málinu, var enda yfirþyrmandi. Réttlát reiði kraumaði í samfélaginu og hvert rannsóknarembætti á fætur öðru, í hverju landinu á fætur öðru, staðfesti að Samherji væri nú til rannsóknar hjá því.

Því var hins vegar spáð, á þessum vettvangi, að það myndi ekki taka langan tíma fyrir þá vél fólks sem hefur fyrst og síðast þann tilverutilgang að verja íslensku kerfin, þau sem gagnast sumum mun betur en öllum öðrum, myndi hefja sína hefðbundnu vegferð í átt að því að afvegaleiða umræðuna og skilgreina innan hvaða marka hún mætti fara fram. Yfir á hvað mætti alls ekki yfirfæra hana. Færa hana frá aðalatriðunum að aukaatriðunum svo að svigrúm myndi skapast fyrir gerendurna í Samherjamálinu, menn sem eru með íslenskt vald í vasanum, til að hefja tilraunir til björgunaraðgerða fyrir sig sjálfa.

Fyrst ber að rifja upp að á Íslandi er kerfislæg spilling, og hún er rótbundin í kerfunum okkar. Í henni felst óheilbrigt samspil stjórnmála og viðskipta og birtingarmynd hennar er fyrst og síðast sú að valin hópur fær betra aðgengi að tækifærum, upplýsingum og peningum annarra. Það er oft reynt að beina sjónum frá þessari viðblasandi stöðu með því að bera fyrir sig alþjóðlega spillingalista, sem mæla allt annað en þá strokuspillingu sem tröllríður öllu hér í rassvasanum á útgerð og einsleitri stjórnsýslu, sem oft á tíðum virðast vera sami hluturinn.

Eigendur sjávarútvegarins eru orðnir að ofurstétt hérlendis með tök á mörgum stjórnmálaflokkum og -mönnum, með ítök í fullt af óskyldum greinum, meðal annars fjölmiðlum og með hagsmunagæsluarm sem er sá áhrifamesti á landinu og mótar til dæmis öll lög og reglugerðir sem settar eru um geirann. 

Skref 1: Ekki tala niður Ísland

Tækifærið til að láta umræðuna snúast frekar um umræðuna en inntakið gafst þegar heimiluð var umræða á þingi um spillingu. Formaður Samfylkingarinnar steig í pontu og sagðist óttast að Ísland væri að teiknast upp sem spillingarbæli. Samflokkskona hans, með engin völd til að gera nokkuð enda í stjórnarandstöðu, hafði áður sagt á Facebook að í hennar huga kæmi ekkert annað til greina en að eignir Samherja yrðu frystar núna strax á meðan að rannsókn stæði yfir. 

Auglýsing
Í aðdraganda þessa hafði takturinn verið sleginn í ýmsum einkasamtölum, líkt og vaninn er þegar viðspyrnan hefst. Það má segja að sá taktur hafi fjögur skref. 

Í fyrsta skrefi er því laumað að hér og þar að það megi ekki tala niður Ísland með því að tala upphátt um það sem er augljóslega að hérna, og var meðal annars opinberað með sláandi hætti síðastliðinn þriðjudag. Að benda á brotalamir í samfélagi manna er hins vegar ekki niðurtal, heldur tilraun til að laga skemmd. Á þessu tvennu eru eðlismunur. 

Inntakið er að það séu ekki þeir sem liggja undir grun um að hafa greitt mútur til að sölsa undir sig auðlindir í landi sem Ísland hefur veitt þróunaraðstoð sem eru vandamálið. Ekki þeir sem rökstuddur grunur er um að beiti þaulskipulagðri skattasniðgöngu til að komast hjá því að greiða til samfélaganna þar sem arðurinn er skapaður og þess í stað miklu meira inn á þegar bólgnar norskar bankabækur sínar. Ekki þeir sem skýrar vísbendingar eru um að hafi þvættað fé. 

Nei, vandamálið eru þeir sem tala um vandamálin. Þeir eru að rústa orðspori Íslands. Þeir sem tala, ekki sem þeir gerðu.

Skref 2: Finna nýjan sökudólg

Annað skrefið er að finna nýjan sökudólg til að láta umræðuna hverfast um. Í þetta skiptið daðrar smjörklípan þó við mörk hins fáránlega. Það virðist vera orðið aðalatriði í þessu máli að valdalaus þingmaður í stjórnarandstöðu hafi talað frjálslega um frystingu eigna í Facebook-stöðuuppfærslu á íslensku. Eitthvað sem hún hefur enga heimild til að gera né neina stöðu til að framfylgja. Forstjóri Samherja í leyfi sagði í eina viðtalinu sem hann hefur veitt síðustu daga að honum blöskri umræðan. Hann bætti við að viðskiptavinir Samherja erlendis væru fyrst og síðast að hafa áhyggjur af þessum hugmyndum þingmannsins. Ekki meintum mútugreiðslum, skattsvikum eða peningaþvætti eða umfangsmiklum rannsóknum í þremur löndum. 

Sama tón sló tímabundinn eftirmaður hans á forstjórastóli, sem hafði eytt síðustu misserum sem stjórnarformaður Íslandsstofu, og haft aðallega það hlutverk að auka hróður Íslands alþjóðlega. Hann sagði í viðtali við Morgunblaðið að viðbrögð viðskiptavina Samherja erlendis við fréttunum og hin meintu stórfelldu brot hafi verið hógvær. „Stóra spurningin fyrir viðskiptavini er umræðan á Alþingi um mögulega frystingu eigna Samherja. Það getur vissulega haft áhrif á viðskiptavini að fá ekki vörur og svo framvegis ef slíkar hugmyndir fengju eitthvert flug. Þær spurningar lúta þá fyrst og síðast að því að fullvissa aðila um að félagið standi við gerða samninga og afhendi vörur samkvæmt því. Það er auðvitað það sem menn ætla að gera en getur truflast ef farið verður í þá vegferð sem Helga Vala [Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar] var að tala um.“

Við þessar aðstæður, sem eru orðnar allt of kunnugar og innihalda nær undantekningarlaust nákvæmlega sömu leikendur í öllum helstu hlutverkum, verður meðvirkni að skynsemi. 

Þessi tónn sem Samherjamennirnir slógu er endurtekinn í leiðaraskrifum valdra fjölmiðla. Af völdum stjórnmálamönnum. Af öllum hinum í þessu þrönga sérhagsmunamengi almannatengla og annarra sem eiga allt sitt undir því að hanga í ríkispilsfaldinum til að halda sér gangandi. 

Skref 3: Ráðast á fjölmiðla fyrir að segja fréttir

Þriðja skrefið er árás á fjölmiðlanna sem segja fréttirnar. Efasemdafræjum sáð um að þátturinn um Samherja hefði nú verið mjög einhliða, og ekkert minnst á það að stjórnendur Samherja neituðu að svara spurningum þáttargerðarmanna vikurnar fyrir birtinguna. Þess í stað eyddi forstjóri fyrirtækisins vikum í að atyrða RÚV og einn fréttamann Kveiks opinberlega, eftir að honum var gerð grein fyrir því hvaða umfjöllun væri í vændum. 

Auglýsing
Þingmaður skrifaði grein þar sem hann sagði RÚV og Stundina, sem birtu umfjöllunina í samstarfi við Wikileaks og Al Jazeera, hafa áður sængað saman „og þá mat­reitt málin eftir eigin höfði til þess eins að gera hlut­ina enn verri. Því er mik­il­vægt að bíða eftir heild­ar­mynd­inni áður en opin­berar aftökur hefj­ast.“ 

Þingmaðurinn bætti svo við að æsingur fjölmiðla yfir höfuð til að ná athyglinni væri á stundum svo mik­ill að annað skipti ekki máli. „At­hygl­iskeppnin er eins og aur­skriða sem engu eirir og síst sann­leik­anum sem kannski kemur í ljós seint og um síð­ir. Á þá ekki að upp­lýsa um það sem miður fer eða þegar líkur eru á ein­hverju broti? Jú, svo sann­ar­lega en hvernig það er gert skiptir máli.“ Hann tiltók engin dæmi. 

Skref 4: Ekki ráðast á börnin

Fjórða skrefið er að fórnarlambavæða þá sem urðu uppvísir að brotunum, með því að mála upp mynd af þeim sem hluta af heild, ekki einangruðum einstaklingum sem í krafti stöðu sinnar og valda tóku vondar ákvarðanir. Það er gert með því að bera fyrir sig starfsmenn, fjölskyldur og sérstaklega börn. Þetta er þekkt bragð og hefur ríka tilhneigingu til að virka ágætlega. Það má til að mynda rifja upp auglýsingarnar sem birtar voru af niðurlútum sjómannafjölskyldunum í dagblöðum þegar innheimta átti eðlileg og sanngjörn gjöld fyrir nýtingu á auðlindum í eigu þjóðar. Skilaboðin voru að þær væru fórnarlömb þeirrar gjaldtöku. Verið var að hafa lífsviðurværið af þessum fólki, í hinum dreifðu byggðum, þrátt fyrir að gjöldin legðust auðvitað ekki á laun sjómanna eða landvinnslufólks, heldur arðsemi milljarðarmæringa sem hafa hagnast um nokkur hundruð milljarða króna á síðustu árum með því að greiða meira til sín en minna til samfélagsins sem bjó þá til.

Forstjóri Samherja í tímabundnu leyfi sagði í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2: „Samherji er ekki sálarlaust fyrirtæki, það eru meðal annars 800 starfsmenn á Íslandi og annað eins, meira, erlendis. Þessar árásir hér á Íslandi, á starfsfólk og fjölskyldur þeirra, mér finnst þetta orðið full langt gengið og með því að stíga til hliðar er ég að vona að sú umræða geti róast eitthvað.“

Þingmaðurinn sem var nefndur hér að ofan gekk enn lengra. Í grein hans sagðist hann hugsa til starfs­manna Sam­herj­a ­sem horfi nú á stríðs­fyr­ir­sagnir um fyr­ir­tækið og stjórn­endur þess. „Þeir og aðrir sem að fyr­ir­tæk­inu standa eða starfa hjá því eiga fjöl­skyld­ur, börn sem skilja ekki orðin sem notuð eru eða hvers vegna fjöl­skyldu­fað­ir­inn eða móð­irin bland­ast inn í þá umræðu sem búin var til með æsifrétta­stíln­um.“

Fólk og fjölmiðlar sem flytja fréttir af, eða tala um meinsemd í íslensku, og nú alþjóðlegu, samfélagi eru samkvæmt þessu að valda börnum skaða. Það vill auðvitað engin og því er svona orðræða sterkt tól.

Þeir sem henni beita eru þó ekki að bera hagsmuni allra barna fyrir sig. Til dæmis barna í Namibíu sem lifa við skert lífsgæði vegna þess að útlensk stórfyrirtæki og rótspilltir stjórnmálamenn nýta sér aðstöðu sína til að arðræna samfélagið sem þau búa í, og þar með tækifærinu fyrir betra lifi. Það hefði kannski verið rétt að hugsa eitthvað um þau börn síðustu árin þegar hagnaður Samherja nam 112 milljörðum króna á átta ára tímabili, og hvort þau yrðu mögulega fyrir skaða.

Hér að neðan má sjá skoðun þeirra á Samherjamálinu:Mynd: Facebook-síða Helga Seljan


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sema Erla telur að dómsmálaráðherra og staðgengill Útlendingastofnunar ættu að segja starfi sínu lausu.
„Ómannúðlegar, kaldrifjaðar og forkastanlegar“ aðgerðir ÚTL
Formaður Solaris segir að aðgerðir Útlendingastofnunar séu okkur sem samfélagi til háborinnar skammar – að æðstu stjórnendur útlendingamála gerist sekir um ólöglegar aðgerðir gegn fólki á flótta.
Kjarninn 22. júní 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, ásamt samstarfsaðilum frá Namibíu er þeir komu í heimsókn til Íslands.
Samherji „hafnar alfarið ásökunum um mútugreiðslur“
Starfshættir Samherja í Namibíu, sem voru að frumkvæði og undir stjórn Jóhannesar Stefánssonar, voru látnir viðgangast allt of lengi og hefði átt að stöðva fyrr. Þetta kemur fram í „yfirlýsingu og afsökun“ frá Samherja.
Kjarninn 22. júní 2021
Afsökunarbeiðnin sem birtist í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í morgun. Undir hana skrifar Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Samherji biðst afsökunar á starfseminni í Namibíu: „Við gerðum mistök“
Forstjóri Samherja skrifar undir afsökunarbeiðni sem birtist í á heilsíðu í tveimur dagblöðum í dag. Þar segir að „ámælisverðir viðskiptahættir“ hafi fengið að viðgangast í starfsemi útgerðar Samherja í Namibíu.
Kjarninn 22. júní 2021
Neyðarástandi vegna faraldurs kórónuveiru var aflétt í Tókýó í gær.
Allt að tíu þúsund áhorfendur á hverjum keppnisstað Ólympíuleikanna
Ákvörðun hefur verið tekin um að leyfa áhorfendum að horfa á keppnisgreinar Ólympíuleikanna á keppnisstað en Japönum einum mun verða hleypt á áhorfendapallana. Ólympíuleikarnir í Tókýó hefjast þann 23. júlí.
Kjarninn 21. júní 2021
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Aðförin að lýðræðinu
Kjarninn 21. júní 2021
Guðrún Johnsen hagfræðingur og lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn.
Segir dálkahöfundinn Tý í Viðskiptablaðinu hafa haft sig á heilanum í meira en áratug
Guðrún Johnsen hagfræðingur segir allt sem hún hafi sagt í viðtali við RÚV um sölu á Íslandsbanka í byrjun árs hafa gengið eftir. Afslátturinn sem hafi verið gefinn á raunvirði bankans sé 20-50 prósent.
Kjarninn 21. júní 2021
Tæpum helmingi íslenskra blaðamanna verið ógnað eða hótað á síðustu fimm árum
Samkvæmt frumniðurstöðum úr nýrri rannsókn um þær ógnir sem steðja að blaðamönnum kemur fram að helmingur blaðamanna hafi ekki orðið fyrir hótunum á síðustu fimm árum. Töluvert um að siðferði blaðamanna sé dregið í efa.
Kjarninn 21. júní 2021
Viðar Halldórsson
Má ekki bara sleppa þessu? Um verðlaunaafhendingar á skólaútskriftum
Kjarninn 21. júní 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari