Ég heiti Lóa Margrét og er ellefu ára. Ég á heima í Reykjavík, þar sem búa rúmlega hundrað og tuttugu þúsund manns.
Ég hef verið að kynna mér sögur stelpna í Malaví og mér finnst staðan vera hræðileg fyrir þær. Í Malaví, sem er í suð-austur Afríku, búa um sautján og hálf milljón á svæði sem er töluvert minna en Ísland. Helmingur allra íbúa þar býr við sára fátækt. Um helmingur stelpnanna eru neyddar til að giftast eldri mönnum. Þannig fær fjölskylda þeirra aðeins meiri pening því mennirnir kaupa þær af foreldrunum. Um þriðjungur stelpnanna verða óléttar og eignast börn fyrir átján ára aldur. Í mörgum tilfellum eru stelpur orðnar tveggja barna mæður við sextán ára aldur. Allt niður í ellefu ára gamlar stelpur ganga með og fæða börn. Þær eru misnotaðar kynferðislega og eru líklegri til að verða beittar heimilisofbeldi. Eitt það sorglegasta við þetta er að þetta er ekki bara svona í Malaví heldur í fátækum löndum út um allan heim þar sem fólk veit ekki hvaða afleiðingar þetta getur haft fyrir stelpurnar.
Með því að gifta barnungar stelpur er verið að ræna æsku þeirra. Maðurinn sem kaupir þær og giftist þeim ræður yfir þeim. Hann er eldri og sterkari, kannski eldri en pabbi þeirra. Þær verða eins og þrælar manna sinna. Þær fá ekki að fara í skólann og ekki að leika sér. Ég myndi ekki geta hugsað mér að fá ekki að fara í skólann. Það að vera ekki í skólanum og vita af því að ég er að missa af einhverju er hálfgerð martröð fyrir mér. Mér finnst að öll börn um allan heim eigi að geta farið í skóla og menntað sig. Mér finnst ég vera heppin að fá tækifæri til að mennta mig, læra og gera það sem ég hef áhuga á.
Ég hef verið að berjast gegn því að byggt verði á alveg sjálfgrónu, grænu leiksvæði sem er í hverfinu þar sem ég bý á meðan stelpur eins og í Malaví fá ekki einu sinni að leika sér. Það að leika sér er stór hluti af æskunni og lífinu. Það að fá að búa í samfélagi þar sem ég get tjáð mig frjálst um það sem mér finnst að betur megi fara eru forréttindi. Að fá að tala við stjórnmálamenn, eins og borgarstjórann okkar, og láta hann vita að við Vatnshólinn leiki sér mjög mörg börn og það sé mikilvægt að börn fái svæði fyrir ævintýrin sín.
Mér finnst samt að fullorðnir, sérstaklega stjórnmálamenn, eigi að taka meira mark á börnum. Börn sjá heiminn öðruvísi fyrir sér en fullorðnir. Í framtíðinni eru það við börnin sem munu búa í þessum heimi sem stjórnmálamenn eru að reyna að skapa.
Mér finnst við á Íslandi samt heppin og hafa unnið vel með jafnrétti kynjanna. Samt eru konur ekki alveg jafnar körlum sem mér finnst fáránlegt. Við búum á sömu jörð og mannkynið þarf á báðum kynjum að halda til að lifa af. Ísland var til dæmis fyrsta þjóðin til að vera með kvenforseta, Vigdísi Finnbogadóttur. Núna erum við samt með mjög góðan forseta, Guðna Th. Jóhannesson og með kvenforsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur. Þau segja bæði að það skipti máli að hlusta á börn og virða skoðanir þeirra. Þau segja líka að það þurfi að passa upp á öll börn í heiminum. En svo eru Bandaríkin ekki með neitt frábæran forseta, Donald Trump. Hann tekur flóttafjölskyldur sem reyna að komast yfir landamærin inn til Bandaríkjanna og setur börnin í búr en foreldrana í fangelsi. Sum börnin komast aldrei aftur til foreldra sinna. Börn þurfa á foreldrum sínum og örygginu sem fylgir þeim að halda til að lifa. Þar finnst mér ekki rétt að einn maður geti ráðið svona miklu. Málið er að það er ekki endilega fáfrótt fólk í Bandaríkjunum sem styður það sem Trump gerir. En hann kemst samt upp með þetta og margt annað sem mér finnst ekki rétt.
Á stöðum eins og í Malaví er skólinn oft það eina sem stelpurnar elskuðu. Þar fannst þeim þær öruggar og fannst þær vera að gera eitthvað sem skipti máli. Þegar þær eru giftar fá þær ekki lengur að fara í skólann. Þar með deyr draumur margra þeirra um að fá að mennta sig.
Ég er mjög þakklát fyrir að búa á Íslandi. Ég get leikið mér frjáls og mér finnst ég vera örugg úti. Hér er mikil náttúra sem fær mig til að búa til ævintýri. Mér finnst það vera forréttindi að ég get fengið að mennta mig svo ég geti orðið geimfari eins og mig langar að verða. Mér finnst að öll börn í heiminum eigi að hafa það jafn gott.
Takk fyrir að lesa þetta.
Kær kveðja,
Lóa Margrét Hauksdóttir.