Það er komið að ögurstundu hjá hinu margfræga fjölmiðlafrumvarpi. Ákvörðun um hvort það lifi eða ekki verður líklega tekin í dag. Þess vegna er tilefni til að fara í stuttu máli yfir um hvað málið snýst.
Í fyrsta lagi hefur þetta ferli – tilraun til að styðja við fjölmiðla – nú staðið yfir í þrjú ár. Það hófst með skipun nefndar í árslok 2016. Það er ansi langur tími án aðgerða og gjörsamlega galið að reyna að skipuleggja rekstur vitrænt þegar það liggur ekki fyrir hvort að aðgerðir muni lita dagsins ljós eða ekki. Sérstaklega þegar horft er til áhrifa fordæmalausrar tæknibyltingar síðustu tíu ára og þeirrar kúvendingar á neytendahegðun sem henni hefur fylgt.
Í öðru lagi þá eru þessar aðgerðir hluti af því að styðja við grasrót fjölmiðla. Þær skipta minni miðla, og sérstaklega staðbundna landsbyggðarfjölmiðla, miklu máli. Endurgreiðslukerfi gerir þeim kleift að vaxa og fá meiri sjálfstæðan slagkraft. Nýlegar breytingar á frumvarpinu lækka greiðslur til þessara aðila, þeirra sem fara ekki yfir 50 milljóna þakið, um 20%. Breytingarnar hafa hins vegar engin áhrif á greiðslur til stærstu miðlanna þriggja. Þeir fá áfram sem áður sínar 50 milljóna hámarksgreiðslu. Engar vitrænar skýringar eru á þessu. Stærri miðlarnir fá hins vegar lægri greiðslu úr sérstöku styrkjunum frá þeirri tillögu sem lá fyrir í vor.
Hvernig viljum við að fjölmiðlar séu reknir?
Í þriðja lagi eru þetta einfaldar spurningar sem stjórnmálamenn standa frammi fyrir: Viljið þið sterka, sjálfstæða fjölmiðla? Teljið þið þá mikilvæga lýðræðinu? Ef svarið er já þá ættu stjórnmálamennirnir að styðja þetta frumvarp og beita sér svo fyrir viðbótarleiðum til að bæta rekstrarumhverfi þeirra, stórra sem smárra, með t.d. breytingum á auglýsingaumhverfi og skýrari skilgreiningu á hver starfsemi RÚV eigi og þurfi að vera, í gegnum þjónustusamning við fyrirtækið.
Ef svarið er nei þá liggur fyrir að sú hnignun sem orðið hefur í rekstrarumhverfi fjölmiðla sé viðkomandi stjórnmálamanni að skapi. Að kerfi þar sem moldrík sérhagsmunaöfl, með skýra stefnu um að ná tökum á umræðunni eða með pólitísk markmið, niðurgreiði stórkostlegt tap stórra miðla sem eru ekki reknir á neinum viðskiptalegum forsendum ár eftir ár, sé það kerfi sem þeir kjósi að ríki í íslenskum fjölmiðlum. Andstaða þeirra, sem eiga og stýra þessum stóru miðlum, við frumvarpið – þrátt fyrir að þeir fái langflestar krónur út úr því að það verði að lögum – er athyglisverð í þessu ljósi. Sú andstaða virðist fyrst og síðast byggjast á því að það eigi alls ekki að styðja við minni miðla í vexti heldur fyrst og síðast við þá stærri sem blæða peningum árlega vegna þess að þeir eru að verja viðskiptamódel sem eru komin á tíma.
Ræður fámennur minnihluti öllu?
Ég hef rætt þessi mál við fjölmarga stjórnmálamenn á undanförnum þremur árum. Af þeim samtölum að dæma segist meginþorri þeirra tilheyra fyrri hópnum. Nú reynir á hvort að hinn fámenni hópur sem tilheyrir þeim seinni ráði þessu grundvallarmáli eða hvort að meirihluti í ríkisstjórn og á þingi dugi til að ná þessu máli í gegn.
Samandregið þá verður að lita á þetta frumvarp sem síðustu tilraunina sem gerð verður af opinberum aðilum til að skjóta styrkari stoðum undir fjölmiðlalandslagið. Það er skýrt í mínum huga að þetta er góð aðgerð til að styrkja fjölmiðlaumhverfið, þótt ég sé sammála því að hún muni sannarlega ekki leysa öll vandamál þess. Sum þeirra vandamála er hægt að leysa með frekari opinberum aðgerðum, en sum þurfa að leysast heima við með aðgerðum þar sem viðskiptamódel eru aðlöguð að veruleikanum.
Það er ekki langt síðan stjórnmálaflokkar landsins hækkuðu framlög úr ríkissjóði til sín um 127 prósent og notuðu til þess lýðræðissjónarmið. Þau verða 728 milljónir á næsta ári. Upphæðin sem ætluð er til endurgreiðslu kostnaðar fjölmiðla, í samskonar styrkjakerfi og búið er að setja upp í kringum t.d. rannsóknir-og þróun, bóka- og kvikmyndaframleiðslu og nýsköpun, er 55 prósent af upphæðinni sem flokkarnir taka árlega til sín.
Fjölmiðlar lykilatriði í lýðræði
Lýðræði þrífst ekki án sjálfstæðra fjölmiðla. Þeir eiga verulega undir högg að sækja. Uppsagnir blaðamanna með áratugareynslu og þekkingu á undanförnum misserum sýna það ásamt þeim viðvarandi spekileka sem orðið hefur á síðustu árum þar sem frábærir blaðamenn skipta um starfsvettvang vegna þess að laun, vinnuaðstæður, rekstrarumhverfi og almennt áreiti sem fylgir því að vera gagnrýninn fjölmiðlamaður í örsamfélagi reyndist þeim um megn.
Á Íslandi eru fjölmiðlarnir ekki fullkomnir. Þeir gera stundum mistök og áherslur þeirra eru stundum sérkennilegar. En langflestir sem vinna í þessum geira gera það af hugsjón og vilja til að þjóna almannahagsmunum með því að upplýsa landsmenn og setja hluti í samhengi fyrir þá. Frammistaða fjölmiðla í mörgum risamálum síðustu ára, og viðbrögð almennings við þeim, sýna hversu mikilvægir þeir eru samfélaginu.
Styðjið þá.
Kjarnann, sem er nú á sínu sjöunda starfsári, er hægt að styrkja hér að neðan.