Endurreisn íslenska fjármálakerfisins hefur leitt til þess að bankakerfið er svipað að stærð og sparisjóður sem þjónustar nærumhverfi sitt eingöngu í Washington ríki á Vesturströnd Bandaríkjanna eða í landbúnaðarhéraði í Þýsklandi.
Heildarstærð bankakerfisins er ekki meiri en það, eða um 3.900 milljarðar króna, sé horft til heildareigna innlánastofnanna. Það er að 90 prósent leyti bundið við íslenska starfsemi, það er rekstur heimila og fyrirtækja. Íslenska ríkið á síðan um 80 prósent af kerfinu með eign sinni á Íslandsbanka, Landsbankanum og Íbúðalánasjóði.
Kúvending
Óhætt er að segja að mikil kúvending hafi orðið á íslenska fjármálakerfinu á undanförnum áratug, en fyrir hrunið var eiginlega allt þveröfugt við það sem nú er uppi á teningnum. Kerfið var 10 sinnum stærra en sem nam árlegri landsframleiðslu, og starfsemin var að 85 prósent leyti erlendis en 15 prósent á Íslandi.
Eðlilegt er að setja þann fyrirvara við þetta mat, að það er miðað við bókfærða stöðu í síðustu birtu ársreikningum og uppgjörum föllnu bankanna, þegar þetta er sagt. (Mikið af útlánum bankanna fyrir hrunið voru algjörlega verðlaus og ekki með veð í neinu, og því bókfærð ískyggilega hátt í reikningum bankanna.)
Hugtakið „of stór til að mistakast” (Too big to Fail) var til umfjöllunar í síðustu grein, í tilefni af 10 ára afmæli frábærrar bókar Andrew Ross Sorkin, Too Big To Fail. Þetta hugtak er enn ljóslifandi og allt um lykjandi á fjármálamarkaði, eins og fjallað var um í greininni.
Gagnrýnar spurningar
Raunar eru margir forystumenn á fjármálamarkaði farnir að spyrja gagnrýnna spurninga um hvernig staða mála er, þegar kemur að hlutverki seðlabanka og umfangsmiklum fjárinnspýtingaraðgerðum þeirra á undanförnum árum.
Einn þeirra er Ray Dalio, fjárfestingastjóri Bridgewater Associates, eins stærsta fjárfestingasjóðs í heimi, talar um að heimurinn sé „brjálaður” og að fjármálakerfið sé einfaldlega ekki að virka eins og það ætti að gera.
Efnahagsreikningar seðlabanka hafa þanist út og ódýru fjármagni verið dælt út á markaði, í þeirri von að hagvöxtur örvist, og það er ekki hægt að segja annað en að það hafi tekist víða um heim eftir hremmingarnar fyrir áratug. En þetta er ekki sjálfbær þróun, segir Dalio, og óttast hið versta.
Á litla Ísland óttast maður helst að einangrun fjármálakerfisins - sem er nú fyrst og fremst utan um krónu-hagkerfið íslenska, og fjármagnað af almenningi með innlánum - geti leitt til þess að samkeppnishæfni landsins fari mun hraðar aftur en margir átta sig á.
ISK-áhættan
Ástæðan er helst sú, að með því að halda í okkar sjálfstæða gjaldmiðil og sjálfstæða peningakerfi, þá verðum við ekki almennilega hluti af alþjóðlegum mörkuðum og straumum sem þeim fylgja. Þetta á við um regluverkið en einnig áhugasvið fjárfesta sem hafa heiminn allan undir í fjárfestingum sínum. Hinar séríslensku lausnir í peningamálum, ISK, verða enn meira fráhrindandi í alþjóða- og tæknivæddari heimi.
Í nýlegu mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðu mála á Íslandi er það gert að umtalsefni, að það gangi ekki nægilega vel að skapa alþjóðleg störf. Mögulega er skýringin sú, að við erum farin að upplifa áhrif af einkennum þess að vera einangruð frá alþjóðlegri þróun í fjármálakerfum og tækni almennt. Þvert á oft digurbarkarlegar yfirlýsingar - um ágæti landsins þegar kemur að tækniþekkingu - þá bendir margt til þess að við gætum dregist hratt aftur úr, og misst niður samkeppnishæfni fyrir alþjóðageirann.
Innrás eða útrás
Þegar lagt var upp í vinnu með alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu McKinsey, sem Hreggviður Jónsson, þá í forystusveit Viðskiptaráðs, hafði meðal annarra forystu um að koma af stað, þá var markmiðið það, að opna landið fyrir þessum alþjóðlegu straumum - til að tryggja samkeppnishæfnina. Síðan hefur tíminn liðið, og það er eðlilegt að velta því upp hvort við séum að upplifa hlutina til góðs eða ills.
Fjármálakerfið - sem hefur verið útgangspunktur í þessum tveimur tengdu leiðurum - er góður útgangspunktur til að ræða um þessa hluti: áskoranir nútíðarinnar og framtíðar, hina alþjóðlegu strauma. Útrásarhugtakið er ennþá brennt eftir hrun fjármálakerfisins, en það sem blasir við Íslandi er að við verðum að stórauka tengingar okkar við erlenda markaði, með aukna alþjóðlega þekkingu að leiðarljósi.
Spurningin er hins vegar, hvort við gerum það með innrás alþjóðlegra strauma - án þess að vera nægilega vel undirbúin, og með of mikið af séríslenskum lausnum - eða í gegnum hugrakka og vandaða stefnu, þar sem almannahagur ræður ferðinni, í sterkari tengingum við útlönd, alþjóðavæddan heim. Þannig myndi útrásarhugtakið hrista af sér brunasárin.