Í sumar tóku gildi merkileg lög. Samkvæmt þeim þurfa fyrirtæki að veita upplýsingar til stjórnvalda um hver raunverulegur eigandi þeirra er. Auðvitað hljómar þetta fjarstæðukennt í hugum margra, að það sé hægt að stunda rekstur, eða eiga eignarhaldsfélög, án þess að það sé gefið upp hver eigi þau í raun og veru. En þannig hefur málum verið háttað á Íslandi. Þangað til núna.
Frá lokum ágústmánaðar þurfa allir sem skrá ný félög hjá ríkisskattstjóra að gera grein fyrir því hver sé raunverulegur eigandi þeirra (e. beneficial owner). Hin félögin, sem hafa fengið úthlutað íslenskri kennitölu, tugþúsundir félaga, hafa til 1. mars á næsta ári, eða tæpa þrjá mánuði, að gera grein fyrir því hver eigi þau í raun, leiki einhver vafi á því.
Skýrar og einfaldar ástæður fyrir því að fela sig
Það er í raun óskiljanlegt í ljósi alls þess sem gengið hefur á hérlendis á undanförnum árum að þessum málum hafi ekki verið komið í lag.
Fyrir liggur að fjölmargir Íslendingar komu umtalsverðum fjármunum út úr íslensku efnahagskerfi fyrir bankahrunið. Sumir gerðu það til að græða á því þegar bankarnir myndu með handafli stuðla að nýju falli krónunnar til að bjarga eigin efnahagsreikningi og stöðu helstu viðhengja sinna, líkt og þeir höfðu gert vorið 2008 með góðum árangri. Þá voru aðrir viðskiptavinir á borð við íslenska lífeyrissjóði og almenningur, í gegnum lakari lífsskilyrði, látnir bera tapið sem myndaðist samhliða.
Aðrir voru einfaldlega að koma peningum í var, aðallega í gegnum fjármálafyrirtæki í Lúxemborg, sem tryggðu þeim fullkomið skjól á aflandseyjum. Sumir gerðu það vegna þess að þeir vildu ekki borga skatta af peningunum í samfélaginu þar sem þeir urðu til. Sumir höfðu komist í þá stöðu að geta fengið svívirðilega há lán í bönkum sem engar viðskiptalegar forsendur voru til þess að veita og vildi koma þeim peningum í felur áður en það kæmi að skuldadögum.
Eftir hrunið var reynt að gera marga þessara einstaklinga upp. Þeir voru hvattir til að koma heim með földu peninganna og hjálpa til við endurreisnina. Borga skattanna sem þeir höfðu svikist undir að borga. Gera hið minnsta upp við kröfuhafa sína.
Fæstir þeirra höfðu áhuga á þessu. Og það reyndist, frá ísköldu peningalegu sjónarhorni, rétt mat. Enginn vilji var á endanum hjá yfirvöldum til þess að sækja þessa fjármuni, hundruð milljarða króna samkvæmt þeirra eigin mati, sem faldir höfðu verið í skattaskjólum.
En þeir sem földu þetta fé vildu samt sem áður nota peninganna sína án þess að lenda í því að það uppgötvaðist að þeir væru til. Það var ekkert mál. Hægt var að flytja peninga úr skattaskjólum til Íslands með margháttuðum hætti á eftirhrunsárunum án þess að nokkur sinnti neinu alvöru eftirliti með því hver ætti raunverulega þá peninga eða hvaðan þeir kæmu.
Að gerast kröfuhafi
Eftir bankahrunið þurftu stærstu lánveitendur íslensku bankanna, aðallega þýskir bankar, að selja kröfur sínar á þá. Þeir seldu þær á hrakvirði og töpuðu um tugum milljörðum evra. Í stað þessara aðila mættu sjóðir sem oft eru kallaðir hrægammasjóðir. Þeir eru tilbúnir að taka mikla áhættu í flóknum stöðum þar sem ávinningurinn, ef veðmálið gengur upp, getur verið feykilega mikill.
Margir stærstu áhættusjóðir heims mættu til Íslands til að græða. Uppleggið var þannig að stofnaðir voru sérstakir tímabundnir sjóðir um tilteknar fjárfestingar og svo fengnir hlutdeildarskirteinishafar til að kaupa hlut í þeim sjóðum. Þeir áttu síðan að hagnast mikið hratt og hlutdeildarskírteinishafarnir fá greitt út þegar sjóðnum er slitið, t.d. eftir fimm til sjö ár.
Hvorki íslenskar eftirlitsstofnanir né slitabú föllnu bankanna hafa nokkra hugmynd um hverjir voru hlutdeildarskírteinishafar í þessum sjóðum, bara hverjir stýrðu þeim. Oftar en ekki er línan sem er lögð þegar umræða um þetta endanlega eignarhald fer í gang sú að fjárfestar séu einkum stofnanafjárfestar, lífeyrissjóðir, og styrktarsjóðir t.d. heimsfrægra háskóla.
Sú staða, varnarlaust land þar sem hægt var að kaupa kröfur á lágu verði án þess að verið væri að spyrja mikilla spurninga um hvaðan peningarnir kæmu eða hver ætti þá, hlýtur að hafa verið aðlaðandi hugmynd fyrir þá sem þurftu að koma földum peningum aftur í vinnu.
Boðleið inn fyrir höft
Fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands var það auðvitað líka, enda var hægt að græða þrefalt á henni. Fyrst með því að fá heilbrigðisvottorð á peninganna sem færðir voru í gegnum hana, síðan með því að leysa út stórkostlegan gengishagnað og að endingu allt að 20 prósent virðisaukningu, sem var innbyggð í leiðinni.
Fyrir liggur að íslenskir bankar sinntu heldur ekki þessu eftirliti. Og peningaþvættisskrifstofan sem starfrækt var hérlendis árum saman hafði á sínum snærum einn starfsmann án sérþekkingar á viðfangsefninu í hlutastarfi og skjalaskáp með útprentunum sem verulega virðist hafa skort á að stæðist kröfur um eðlilegt utanumhald.
Það liggur fyrir, samkvæmt úttekt Fjármálaeftirlitsins, að einn stærsti banki landsins, Arion banki, mat ekki með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um raunverulega eigendur viðskiptavina væru réttar og fullnægjandi þegar eftirlitið kannaði hvort svo væri. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans var staðan sambærileg hjá flestum öðrum fjármálafyrirtækjum.
Nú liggur fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um að skipuð verði rannsóknarnefnd um þessa leið. Mjög mikilvægt er að af skipun hennar verði og að almenningur fái tæmandi upplýsingar um hverjir það voru, jafnt innlendir sem erlendir, sem fengu að ferja peninga inn í landið í gegnum hana, m.a. úr skattaskjólum, með tilheyrandi áhrifum á t.d. eignajöfnuð.
Lögmenn án áhættuvitundar
Það eru fleiri leiðir fyrir þá sem vildu leynast til að tryggja þá leynd. Í aðgerðaráætlun hins opinbera gegn peningaþvætti sem birt var fyrr í september kom fram að verulega skorti á áhættuvitund innan lögmannastéttarinnar. Orðrétt segir þar: „Fjöldi lögmanna virðist ekki vera meðvitaður um með hvaða hætti þjónusta þeirra getur verið misnotuð.“
Þessi hættumerki og aðferðir við misnotkun tengjast meðal annars stofnun félaga eða fjárvörslusjóða á aflandssvæðum, stofnun lögaðila, raunverulegu eignarhaldi, áhættusömum viðskiptamönnum, misnotkun á vörslureikningum og áhættu tengdri því að koma fram fyrir hönd lögaðila sem er í eigu viðskiptamanns.
Þá kom fram að upp á vanti við athugun lögmanna á lagalegri stöðu umbjóðenda sinna eða þegar þeir koma fram fyrir hönd þeirra í dómsmáli eða í tengslum við dómsmál, þar með talið þegar þeir veita ráðgjöf um hvort höfða eigi dómsmál eða komast hjá dómsmáli.
Í sumar voru samþykkt lög um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna. Samkvæmt þeim færist eftirlit með því að lögmenn fari eftir ákvæðum laganna sem snúa annars vegar að frystingu fjármuna og efnahagslegs auðs og hins vegar að ráðstöfunum til að meta hvort viðskiptamenn séu á listum yfir peningaþvættisaðgerðir, til embættis ríkisskattstjóra.
Falin yfirráð yfir fjölmiðlum
Þær breytingar sem nú eru í farvatninu, og eiga að kreista fram raunverulegt eignarhald á fyrirtækjum, ná þó ekki að leysa öll fyrirliggjandi vandamál hvað varðar gagnsæi. Þau munu til að mynda ekki hafa nein áhrif á opinberun þeirra sem kjósa að fjármagna samfélagslega mikilvægan rekstur í gegnum leppað eignarhald með því að lána háar fjárhæðir til hans á kjörum sem eru ekki á viðskiptalegum forsendum.
Þekktasta dæmið um svona fyrirkomulag er í kringum Frjálsa fjölmiðlun, útgáfufélag DV og tengdra miðla. Það félag er eina eign félagsins Dalsdals, sem er skráð í eigu þekkts lögmanns.
Fjölmiðlanefnd, sem sinnir eftirliti með starfsemi fjölmiðla á landinu, hefur nokkrum sinnum kallað eftir hluthafasamkomulögum og lánasamningum sem hún taldi að gæti haft áhrif á yfirráð fjölmiðils. Viðkomandi fjölmiðlar hafa aldrei afhent slík til nefndarinnar og hún telur sig ekki hafa valdheimildir til að gera annað en að biða um gögnin.
Því hafa fjölmiðlafyrirtæki, sem hafa fengið háar upphæðir að láni frá huldumönnum, hingað til ráðið hvort þeir upplýsi um hverjir þeir huldumenn eru.
Verði nýtt frumvarp um stuðningi við rekstur einkarekinna fjölmiðla að lögum gæti þó orðið breyting á þessu. Samkvæmt því þarf að skila inn gögnum um raunverulegt eignarhald eða yfirráð, samkvæmt skilgreiningu laga um aðgerðir gegn peningaþvætti, til að verða styrkjarhæfur. Í þeim lögum á það við um þá sem „í raun eiga eða stjórna lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25 prósent hlut í lögaðilanum, ráða yfir meira en 25 prósent atkvæðisréttar eða teljast á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila.“ Úthlutunarnefnd sem skipuð verður vegna stuðningsgreiðslnanna, og tilnefnt verður í af ríkisendurskoðun, mun því hafa öll tiltæk tól til að særa fram raunveruleg yfirráð yfir Frjálsri fjölmiðlun. Svo verður að koma í ljós hvort vilji verður til að beita þeim tólum, eða hvort viljinn til að viðhalda leyndinni sé sterkari.
Það leikur sér enginn að því að fela sig
Þegar reynt er, með mikilli fyrirhöfn, að fela hver sé eigandi einhvers félags, eða eftir atvikum aðra aðkomu viðkomandi að því, þá er það gert vegna þess að eitthvað stenst ekki skoðun. Peningarnir eru ekki „hreinir“, þeir eiga í raun að tilheyra einhverjum öðrum eða einstaklingarnir sem eiga þá endanlega mega af einhverjum ástæðum ekki stunda þau viðskipti sem þeir eru að stunda, í krafti nafnleyndar.
Það er farsakennt að það muni taka Ísland, þetta framsækna og tæknilega sinnaða samfélag, fram á árið 2020 að innleiða þá meginreglu að félög eigi að vera hægt að tengja beint við einstaklinganna sem eigi þau í raun og veru.
Og enn verra er að breytingarnar eru ekki komnar fram vegna pólitísks vilja ráðamanna, heldur gerðar í kjölfar þess að alþjóðleg samtök skikkaði Ísland til að girða upp um sig í peningaþvættisvörnum, annars myndi landið lenda á svörtum lista þeirra. Nóg var að gert til að hindra þá niðurstöðu, en of lítið til að koma í veg fyrir grálistun.
Það virðist hafa verið meðvituð ákvörðun um að haga hlutum þannig að varnir gegn peningaþvætti væru litlar sem engar, enda hafði oft og ítrekað verið varað við þessu ástandi. Það gerðu bæði innlendir aðilar sem unnu að rannsóknum efnahagsbrota og erlendir eftirlitsaðilar á borð við FATF. Á þetta var ekki hlustað, heldur unnið eftir þeirri aðferðarfræði að ef við leitum ekki að einhverju þá sé það ekki til staðar, og nú súpum við seyðið af afleiðingunum.
Í þeim felst augljós orðsporsskaði fyrir Ísland. Erlendir fjárfestar sem annað hvort hafa haft áhuga á að koma hingað með peninga, eða eru þegar búnir að gera það, eru margir hverjir alls ekki sáttir, enda töldu þeir sig vera að taka þátt í fjárfestingum í þróuðu landi.
Þá hefur þessi staða haft í för með sér stóraukið flækjustig fyrir marga íslenska aðila sem stunda viðskipti alþjóðlega. Það felst í því að farið er fram á að þriðji aðili sé látinn framkvæma aukna áreiðanleikakönnun á íslenskum fyrirtækjum sem fara m.a. fram með þeim hætti að sendir eru spurningalistar um allskyns hluti, meðal annars mútuvarnir.
Opinberun á framferði Samherja í Afríku og víðar, þar sem rökstuddar ásakanir hafa verið settar fram um stórtækar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu, hafa sannarlega ekki hjálpað til.
Vonandi ber okkur nú gæfa til að koma öllum þessum málum í lag í eitt skipti fyrir öll. Það hagnast nefnilega enginn á ógagnsæi nema sá sem hefur eitthvað að fela. Reglur samfélagsins eiga ekki að vera sniðnar að hans þörfum, heldur allra hinna.