Ísland rekur um margt mannfjandsamlega innflytjendastefnu þar sem mannúð og sanngirni eru ekki leiðarstef, heldur aukaatriði við mat á því hvort fólk fær að vera á Íslandi og setjast þar að.
Þetta var staðfest á dögunum – af ríkisstjórn Katrín Jakobsdóttur – þegar ákveðið var að fjarlægja ólétta konu sem var veik og við það að fæða barn og koma henni með lögregluvaldi úr landi með flugi.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra telur að þetta hafi verið gert í laglegum rétti, en ekki liggur þó fyrir dómsniðurstaða um það.
Gott væri ef einhver lögrfræðingur með samvisku, færi með málið alla leið í dómskerfinu – pro bono – til að fá um það lokaorð, hvort stjórnvöld hafi gert þetta með lagalegum rétti. Mikilvægt er að fá nákvæma leiðsögn um þessi mál frá dómskerfinu.
Þegar svona er gert, er rétt lýsa því sem mannfjandsamlegri stefnu, enda er ekki horft til viðkvæmrar stöðu, nema út frá of þröngum túlkunum laga. Ólafur Páll Jónsson heimspekingur fjallaði um margar helstu spurningarnar, sem vöknuðu við þetta mál, í kjarnyrtum pistli.
Einföld landamæri
Konan var auk þess stödd í einu mesta velmegunarsamfélagi á jörðinni, þar sem nægt pláss er og landamæraeftirlit er miklu einfaldara en víðast hvar í heiminum.
Ísland býr við þann lúxus, í alþjóðlegu samhengi, að vera með auðveld landamæri til að hafa eftirlit með. Lítil eyja og aðeins hægt að komast til landsins með flugvél eða skipi. Annað en t.d. í tilviki nær allra Evrópulanda og Bandaríkjanna.
Að þessu leyti ætti Ísland að geta vel tekið ákvörðun um að opna landið og reka aðra stefnu en lönd sem búa við mun flóknari samfélagsgerðir og landamæraeftirlit. Ísland þarf á auknum alþjóðlegum áhrifum að halda, til að laga sig að alþjóðavæddum heimi. Við höfum færi á að styrkja heilbrigðis- og menntakerfið okkar – þar sem fjárhagsstaða hins opinbera leyfir slíkt, með réttri forgangsröðun – meðal annars til að laga samfélagið betur að alþjóðavæddum heimi. Það fylgja því áskoranir að verða alþjóðlegt samfélag og Ísland þarf að laga sig að þeirri tilveru hraðar og með opnum örmum.
Hlutfall erlendra ríkisborgara er nú um 15 prósent af heildaríbúafjölda landsins og margt bendir til þess, að hlutfallið muni fara hækkandi á næstu árum.
Merkel fordæmið
Það er ekki heldur afsökun að Ísland þurfi að hafa innflytjendastefnu sína algjörlega í samræmi við mun flóknari samfélög annars staðar. Það má nefna sem dæmi, þegar Angela Merkel, kanslari Þýskalands, ákvað að galopna Þýskland fyrir hátt í einni milljón flóttamanna.
Það var gert með stefnumörkun af hennar hálfu og ríkisstjórnar hennar, þrátt fyrir og í samvinnu við alþjóðasamfélagið. Það var vitað að þetta myndi raska ró margra í Þýskalandi, og grafa undan Merkel pólitískt, að einhverju leyti. En hagsmunir heildarinnar réðu ferðinni.
Það væri óskandi að stjórnvöld á Íslandi mörkuðu sér opna og mannúðlega innflytjendastefnu. Valdið í þessum efnum er ekki hjá stofnunum ríkisins – eins og hjá Útlendingastofnun – heldur hjá stjórnmálamönnum, sem setja lög og reglur.
Að lokum er rétt á benda á ítarlegar og ólíkar umfjallanir um innflytjendur og flóttamenn. Annars vegar vandaða sérútgáfu um innflytjendamál á heimsvísu, sem kom út á vegum The Economist á dögunum. Þar er mælt með opnum alþjóðavæddum heimi.
Og hins vegar útgáfu bókar Rannveigar Einarsdóttur. Í þrjú ár heimsótti Rannveig vikulega flóttamannaheimili í Þýskalandi og tók myndir af íbúunum og húsnæðinu sem fólkið bjó í. Í bókinni, Provisional Life, sýnir Rannveig hvernig búið er að flóttafólki, hún opnar dyr inn í heim sem við flest þekkjum ekki – en ættum að geta gefið betri vegvísi úr með aðlögunarhæfni samfélagsins að leiðarljósi.