Hin daglegu störf stéttarfélaga á landinu fara ekki hátt frá degi til dags en eru mikilvæg bæði fyrir einstaklinga og samfélagið allt. Reyndar eru stéttarfélögin orðin stór hluti af velferðarkerfinu okkar. Þangað leitar fólk ef það veikist, þarf endurhæfingu, endurmenntun eða annan stuðning á vinnumarkaði. Að eiga traust félagsmanna til verka er bráðnauðsynlegt lýðræðislegri hreyfingu og því er afar ánægjulegt að sjá að þær mælingar sem hafa verið gerðar á viðhorfi félagsmanna til síns svæðisfélags eða heildarsamtaka sýna svo ekki verður um villst að fólk er almennt afar ánægt með störf verkalýðshreyfingarinnar og ber til hennar traust.
Þegar verkalýðshreyfing er eins umfangsmikil og raunin er hér á landi er henni í raun ekkert óviðkomandi og það kom berlega í ljós við gerð kjarasamninganna síðasta vor. Einn af hornsteinum þess samnings voru loforð stjórnvalda um bættan hag almennings og ýmis risastór samfélagsmál. Það má segja að allt hafi verið undir í þeim samningum og margt er nú þegar komið til framkvæmda. Á síðustu starfsdögum Alþingis á þessu ári var til dæmis samþykkt þriggja þrepa skattkerfi sem lækkar skatta einkum og sér í lagi hjá lægst launaða fólkinu. Fæðingarorlofið var lengt um mánuð og samþykkt að lengja það upp í 12 mánuði árið 2021. Það er ein stærsta jafnréttisaðgerð sem hægt er að fara í, að eyrnamerkja fæðingarorlof til hvors foreldris fyrir sig. Lögum um almennar íbúðir var breytt þannig að nú eiga fleiri þess kost að leigja hjá óhagnaðardrifnum félagslegum leigufélögum eins og Bjargi sem er í eigu stéttarfélaganna. Auk alls þessa voru sköpuð skilyrði fyrir vaxtalækkun sem kemur heimilum og fyrirtækjum til góða.
Þau verkefni sem bíða nýs árs eru hins vegar að útfæra stuðning við fyrstu íbúðakaup, vinda ofan af verðtryggingunni og samþykkja nýja lagaumgjörð um heilbrigðari vinnumarkað svo eitthvað sé nefnt. En áskoranirnar eru miklu fleiri.
Vinnumarkaðurinn breytist hratt, bæði vegna tæknibreytinga en eins vegna breyttra atvinnuhátta. Störfum í vinnslu sjávarafurða hefur fækkað verulega vegna nýrrar tækni og mun fækka enn frekar á næstu árum. Atvinnustig á þeim landsvæðum sem hafa reitt sig á fiskvinnslu mun því ráðast í auknum mæli af nýsköpun og annarri framleiðslu og þjónustu. Þó að atvinnuleysi sé lágt hér á landi á alþjóðlegan mælikvarða þá er rúmlega fjögurra prósenta atvinnuleysi ekki ásættanlegt í okkar samfélagi. Endurmenntun og áherslubreytingar í fræðslumálum eru lykillinn að farsælum umskiptum á vinnumarkaði og það skýtur skökku við að þegar fé hefur verið aukið verulega til háskólastigsins síðustu ár, hefur dregið úr fjárframlögum til fullorðinsfræðslu. Hér þurfum við að taka okkur verulega á!
Annað stórverkefni sem hreyfingin tekst á við á nýju ári er að móta stefnu fyrir breyttan vinnumarkað í ljósi loftslagsbreytinga. Engar stórar ákvarðanir verða teknar í framtíðinni án þess að áhrif þeirra á umhverfið verði í brennidepli. Alþýðusambandið er í miðjum störfum við að móta umhverfisstefnu sem verður lögð fyrir þing sambandsins á haustdögum 2020. Kjarninn í þeirri vinnu er það sem kallað hefur verið „just transition“ eða sanngjörn umskipti í hinni alþjóðlegu hreyfinu.
Markmið þeirrar hreyfingar er risastórt, að tryggja að fólk og samfélög eigi sér framtíð hér á jörð. Kolefnishlutleysi er mikilvæg varða á þeirri leið. Lykillinn að farsælum umskiptum er sterk verkalýðshreyfing og virkt samtal og samningar á milli atvinnurekenda, vinnandi fólks og stjórnvalda. Hér á landi búum við einmitt við slíka umgjörð og erum um margt vel í stakk búin til að umskiptin verði farsæl fyrir almenning. Þegar reynir á og risastór samfélagsleg verkefni bíða úrlausna skiptir það öllu fyrir hag almennings að verkalýðshreyfingin sé sterk og njóti trausts. Það er gott að fara inn í nýtt ár með þá fullvissu í farteksinu.
Gleðilegt ár!
Höfundur er forseti ASÍ.