Hér á þessum stað voru fyrir ári viðraðar áhyggjur af því að kjarasamningalota ársins 2019 myndi enda með ósköpum af því að verkalýðshreyfingin hefði með nýrri forystu tapað stofnanaminninu og gleymt því hversu vond þau vinnubrögð voru þegar krafizt var innistæðulausra nafnlaunahækkana, sem voru svo teknar af launþegum aftur í gegnum verðbólgu og gengisfellingar.
Nálgun að norrænu vinnumarkaðsmódeli
Þetta reyndust á endanum ástæðulausar áhyggjur. Ekki kannski beinlínis af því að stofnanaminnið kæmi aftur, heldur af því að í miðri kjarasamningalotu reið áfall yfir efnahagslífið með falli WOW Air og færði fólki hratt heim blákaldan sanninn um að ferðaþjónustan þyldi ekki verkfallsaðgerðir og óróa. Niðurstaðan, lífskjarasamningarnir svokölluðu, liggur mun nær línum hins norræna vinnumarkaðsmódels, sem stefnt var með SALEK-samkomulaginu heitnu, heldur en hinum gömlu kollsteypuaðferðum íslenzks vinnumarkaðar sem nýja verkalýðsforystan virtist um stund svo hrifin af.Lífskjarasamningarnir ganga þannig út á hóflegar launahækkanir, þótt vissulega fái þeir lægst launuðu drjúga hækkun í prósentum talið. Í samningunum er líka bein tenging á milli launahækkana og gengis atvinnulífsins – ef hagvöxtur fer yfir tiltekin mörk, hækka laun meira en ella. Þannig er samið um sanngjarna skiptingu ávinningsins af rekstri fyrirtækjanna á milli eigenda þeirra og launþega. Á meðal markmiða samninganna er verðlagsstöðugleiki og samtök atvinnurekenda og launþega stóðu saman að því að hvetja fyrirtæki eindregið til að halda verðhækkunum í skefjum eftir að samningar náðust. Það hefur sömuleiðis komið á daginn að lífskjarasamningarnir hafa stuðlað að því að Seðlabankinn geti lækkað vexti sína, þótt smærri fyrirtæki og heimili séu kannski ekki farin að njóta þeirrar lækkunar sem skyldi. Lendingin eftir uppsveiflu síðustu ára virðist ætla að verða með mýkra móti, þótt vissulega séu víða erfiðleikar í atvinnulífinu. Við erum að mörgu leyti á betri stað en fyrir ári.
Það er ekki þar með sagt að íslenzka vinnumarkaðsmódelið sé fundið – en það grillir mögulega í einhverjar útlínur þess. Ein meginástæða þess að SALEK dó drottni sínum er að hluti samtaka opinberra starfsmanna neitaði að skrifa upp á það. Langdregnar viðræður við samtök opinberra starfsmanna, sem ekki hafa skilað árangri, benda til að á þeim bæjum sé fólk ekki reiðubúið að horfast í augu við að launastefnan í landinu verði að mótast á almenna markaðnum og taka mið af því sem útflutningsgreinarnar geta skapað. Í skilningi á þeirri staðreynd liggur þó lykillinn að langtímaárangri við að móta skynsamlegt vinnumarkaðsmódel á Íslandi.
Mál til að lækka verðlag og bæta kjör
Félag atvinnurekenda hefur á árinu bent á ýmis mál, þar sem samtök atvinnurekenda og launþega gætu í sameiningu unnið með stjórnvöldum að breytingum, sem myndu lækka verðlag í landinu og bæta lífskjör.Þar má fyrst nefna lækkun launatengdra gjalda, en í skýrslu sem var unnin fyrir FA í vor kemur fram að þau hafa hækkað um 60% frá aldamótum. Há launatengd gjöld draga úr samkeppnishæfni fyrirtækja, letja þau til að bæta við sig fólki og ýta undir útvistun verkefna til útlanda og gerviverktöku. Það er borðleggjandi sameiginlegt hagsmunamál launþega og vinnuveitenda að ná tökum á þessum hækkunum og vinda ofan af þeim.
Í öðru lagi er gamalt baráttumál FA, sem er lækkun tolla og skatta á neyzluvörur. Íslendingar búa við einhverja hæstu tolla á búvörur á byggðu bóli og hæstu áfengisskatta í hinum vestræna heimi, svo dæmi sé nefnt. Í flestum öðrum ríkjum væri lækkun þessara álagna eitt af helztu baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar.
Samstarf um nýtt kerfi fasteignagjalda?
Í þriðja lagi er mál, þar sem FA og Alþýðusambandið hafa raunar náð ágætum samhljómi á árinu, en það er lækkun fasteignagjalda. Sveitarfélögin hafa mörg hver sýnt algjört ábyrgðarleysi í því að þiggja milljarða hækkanir í sveitarsjóðina vegna sjálfkrafa hækkana fasteignamats, í stað þess að spyrna við fótum og lækka álagningarprósentu. Frá þessu eru heiðarlegar undantekningar, en almennt falla sveitarstjórnarmenn í þá freistni að taka í sveitarsjóðina hækkanir fasteignagjalda fólks og fyrirtækja sem eru vel umfram þau 2,5% sem sveitarfélögin þóttust ætla að sætta sig við þegar verið var að ganga frá kjarasamningum. Hér er líka samvinnuverkefni fyrir samtök launþega og atvinnurekenda og fleiri sem hagsmuna eiga að gæta á nýju ári; að beita sér fyrir breytingum á þessu kerfi, þar sem skattar eru reiknaðir af afar sveiflukenndum skattstofni sem hefur ekkert með afkomu heimila eða fyrirtækja að gera.Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.