Á almennum vinnumarkaði gerðu félög innan ASÍ og Samtök atvinnulífsins svokallaðan lífskjarasamning sl. vor. Honum fylgdi aðgerðapakki frá ríkisstjórn Íslands í mörgum liðum, m.a. um skattalækkanir. Ljóst er að fall flugfélagsins WOW hafði nokkur áhrif á samningsvilja aðila þegar á reyndi. Lífskjarasamningurinn grundvallast á krónutöluhækkunum sem hækka lægstu launin hlutfallslega mest. Þar var einnig kveðið á um hagvaxtarauka sem tryggja á hlut launafólks í verðmætasköpun á landsvísu. Hverju hagvaxtaraukinn skilar á eftir að koma í ljós.
Aukinn kaupmáttur og stytting vinnuvikunnar
Í sömu viku og samningar náðust á milli SA og ASÍ losnuðu kjarasamningar allra opinberra starfsmanna í landinu, þ.e. bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Það var ljóst frá upphafi að ekki yrði einfalt að semja við þrjá viðsemjendur samtímis. En engan óraði fyrir að yfirstandandi samningalota yrði jafn hæggengt og raun ber vitni. Tæplega níu mánuðum síðar hafa sex aðildrfélög BHM undirritað kjarasamninga við ríkið. Fjórir þeirra voru samþykktir, einn felldur og einn er í atkvæðagreiðslu þegar þessi pistill er ritaður. 15 aðildarfélög eru því enn með lausa samninga við ríkið og ekkert hefur þokast í kjarviðræðum við Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga. Þetta er hvort tveggja í senn, áhyggju- og umhugsunarefni.
Í upphafi ársins var ljóst að aðildarfélög BHM leggðu mesta áherslu á kaupmáttaraukningu og styttingu vinnuvikunnar í komandi kjaraviðræðum. Kjararýrnun í formi krónutöluhækkana var því afþökkuð og mikið kapp lagt á að stytting vinnuvikunnar næði fram að ganga. Í þeim samningum sem gerðir hafa verið er stefnt að því að 36 stunda vinnuviku verði innleidd á næsta ári. Nú mun reyna á vilja og hæfni stjórnenda hjá ríkinu við að útfæra styttinguna í samvinnu við starfsfólkið.
Endurgreiðslubyrði námslána
Kjarasamningar við háskólamenntaða opinbera starfsmenn snúast ekki síður um lífskjör en þeir sem gerðir voru á almenna markaðnum. Því leggur BHM þunga áherslu á að stjórnvöld grípi til aðgerða sem bæta lífskjör þeirra tugþúsunda Íslendinga sem tekið hafa námslán. Aðalkrafa BHM er að lækka endurgreiðslubyrði námslána og létta kjörin hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Starfshópur forsætisráðherra, sem BHM átti fulltrúa í, skilaði samstæðum og raunhæfum tillögum um þetta í haust og nú er þess beðið með óþreyju að stjórnvöld leggi tillögurnar á borðið og þær verði settar í framkvæmd.
Í frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra um stofnun nýs Menntasjóðs námsmanna sem nú er til umfjöllunar á Alþingi er lagt til að ábyrgðir námslána sem tekin voru fyrir árið 2009 falli niður til samræmis við það sem gilt hefur um námslán tekin eftir það ár. Óhætt er að segja að hér sé á ferðinni mikið þjóðþrifamál enda verið baráttumál BHM um árabil. Taka verður fram að niðurfellingin á aðeins við um lán sem eru í skilum en á samt sem áður við um langstærstan hluta námslána.
Rétturinn til launa í fæðingarorlofi
Að lokum er ástæða til þess að nefna lengingu fæðingarorlofsins úr 9 í 12 mánuði (í tveim skrefum) sem samþykkt var á Alþingi fyrir jól. Í almennri umræðu um þetta mikilvæga mál vill oft gleymast að hér á landi er greiðsla launa í fæðingarorlofi hluti af vinnumarkaðstengdum réttindum foreldra. Þau sem ekki eru á vinnumarkaði fá ekki greidd laun heldur fæðingarstyrk. Réttindin eru – eins og önnur réttindi á vinnumarkaði – einstaklingsbundin og því í raun ekki millifæranleg. Við útfærslu fæðingarorlofs hefur þó verið gerð undantekning á þessari meginreglu því að hluti réttindanna er sameiginlegur foreldrum (séu þeir fleiri en einn). Þannig verður skiptingin 4+4+2 við lenginguna í 10 mánuði sem tekur gildi á nýársdag. Fjórir mánuðir eru þá bundnir hvoru foreldri um sig en tveimur mánuðum má ráðstafa að vild.
Staða foreldra á vinnumarkaði
Það er að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni að fæðingarorlof skuli loksins lengt í heilt ár og engin spurning um mikilvægi þess fyrir börn og fjölskyldur þessa lands. Það vill þó stundum gleymast að löggjöfin um fæðingar- og foreldraorlof hefur tvíþætt markmið: Að tryggja börnum samvistir við foreldra sína og að gerum körlum og konum kleift að samræma atvinnuþátttöku og fjölskyldulíf. Þessi markmið eru jafngild. Þess vegna er lykillinn að farsælli útfærslu fæðingarorlofsins að báðir foreldrar (séu þeir tveir) eigi þess kost að mynda tengsl við barn þegar það er á mikilvægustu mótunarmánuðum lífs síns.
Að sama skapi er brýnt að fjarvera af vinnumarkaði vegna fjölgunar í fjölskyldunni lendi ekki að stærstum hluta á herðum annars foreldrisins. Allir þekkja söguna af ungu konunni sem ekki fengu framgang í starfi vegna „hættunnar“ á því að hún yrði barnshafandi. Sú „hætta“ þarf einnig að fylgja því að ráða karl í starf. Og gleymum því ekki að karlar eru frá náttúrunnar hendi þannig gerðir að þeirra geta víst eignast börn fram eftir öllum aldri.
Fyrir hönd Bandalags háskólamanna óska ég lesendum og landsmönnum öllum heillaríks nýs árs!
Höfundur er formaður BHM.