Landsmenn eldast eins og hjá öðrum þjóðum og er sífellt verið að tala meira og hærra um að hækka þurfi lífeyristökualdur í skrefum í 70 ár. Frakkland logar stafnanna á milli í mótmælum vegna breytinga á lífeyriskerfinu en þar er lífeyristökualdur 62 ár. Hann var reyndar lækkaður á sínum tíma til að mæta auknu atvinnuleysi. Í Frakklandi stendur til að hækka lífeyristökualdurinn í 64 ár eða um tvö ár og jafna réttindi, sameina kerfi og sjóði. Þetta er gert vegna þess að kerfin eru ekki talin standa undir sér í þeirri mynd sem þau eru í dag og vegna gríðarlegra skuldbindinga á framtíðar kynslóðir.
Íslenska kerfið er sjóðsöfnunarkerfi þar sem hver kynslóð safnar fyrir sínum réttindum með sjóðsöfnun. Sá hængur er á að kerfið sem er markaðsdrifið þarf að selja verðbréf á markaði til að standa undir greiðslu lífeyris. Þar kemur inn markaðsáhætta eins og í hruninu 2008. Eða þegar kerfið verður fullþroskað og iðgjöldin standa ekki lengur undir útreiðslum og selja þarf eignir til að standa undir útgreiðslum munu sveiflur á mörkuðum hafa ófyrirsjáanleg áhrif á kerfið og réttindi sjóðfélaga.
Fljótlega eftir hrun eða árið 2009 var opnað fyrir greiðslu séreignasparnaðar og var almenningi heimilt að taka út allt að eina milljón á mann til að létta undir þeim forsendubresti sem varð með falli krónunnar og stökkbreytingu lána. Á þessum tímapunkti var seljanleiki lítill sem enginn á mörkuðum nema þá að losa eignir á brunaútsölu. Var gripið til þess ráðs að leyfa sjóðunum að dreifa greiðslunni á 10 mánuði eða 100.000 á mánuði í stað einnar milljóna eingreiðslu. Þannig þurftu sjóðirnir ekki að selja eignir á hrakvirði og gátu notað iðgjöld að mestu til að standa straum á útgreiðslum.
Þegar lífeyriskerfið verður fullþroskað, eða ef fólksfækkun verður, mun þessi kerfisáhætta leggjast á sjóðina af fullum þunga. Hvernig mun fara fyrir þeim kynslóðum sem þurfa að reiða sig á fullþroskað markaðsdrifið kerfi? Þegar djúpar niðursveiflur eða markaðshrun verða og seljanleiki á mörkuðum verður ekki til staðar, nema á brunaútsölum, munu réttindi þeirra kynslóða brenna með.
Þetta hljómar ekki vel en því miður bláköld staðreynd því markaðssveiflur og kerfishrun munu alltaf eiga sér stað með ákveðnu millibili. Það sannar sagan.
Þar með er ekki sagt að kerfið sé handónýtt og ómögulegt en það hefur þennan stóra og augljósa galla.
Kerfið hefur ekki þann sveigjanleika sem það þarf að hafa. Það hafa gegnumstreymiskerfi ekki heldur og geta þau einnig lagst þungt á komandi kynslóðir. Lausnin gæti hinsvegar falist í því að blanda þessum kerfum saman þar sem hægt er að vigta vægi kerfana hverju sinni eftir því hvernig gengur á mörkuðum og í þjóðarbúinu og hjá þeim kynslóðum sem þá taka lífeyri þess tíma. Hægt væri að trappa niður sjóðsöfnun þegar þannig árar og öfugt. Auka vægi gegnumstreymis þegar þannig viðrar. Með blöndu af báðum kerfum skapast sá sveigjanleiki sem fyrirsjáanlegt er að núverandi kerfi þurfi til að ganga upp. Hægt væri að kalla slíkt kerfi borgaralaun með sjóðsöfnun eða borgarasjóð.
Hækkun lífaldurs er óumflýjanleg þróun en stóra spurningin er hvernig við ætlum að bregðast við. Til eru nokkrar leiðir eins og að auka vægi gegnumstreymis, almannatrygginga, eða hækka töku lífeyrisaldurs.
Með hækkun lífaldurs er ekki reiknað með því í hvaða ástandi við verðum þegar við lifum lengur. Lífstílstengdir sjúkdómar og alvarlegir öldrunarsjúkdómar eru raunveruleiki sífellt stækkandi hóps aldraðra og því ekki hægt að reikna með því að með hækkun lífaldurs geti eldra fólk sjálfkrafa unnið lengur eða notið eldri áranna eins og frægasta mantra lífeyrissjóðanna hljómar. Vandamálið gæti orðið það sama og núverandi kerfi stendur frami fyrir miða við óbreytt ástand. Sérstaklega þegar breytingar á vinnumarkaði eru teknar með þar sem margt bendir til að störfum muni fækka vegna fjórðu iðnbyltingarinnar.
Þær hugmyndir sem nú eru ræddar gerir það að verkum að við erum að færa vanda eins kerfis yfir á annað því einhvern vegin þurfum við að sjá fólki fyrir framfærslu hvort sem það hafi getu til að vinna eða ekki.
Þess vegna mætti skoða það af fullri alvöru hvort lífeyrisréttindi verði tröppuð niður með hækkandi aldri. Þannig fengi fólk hærri lífeyri við lífeyristöku en síðan myndu réttindi trappast niður eftir því sem aldur hækkar. Þannig mætti bæta lífskjör þeirra sem fara af vinnumarkaði og á lífeyri og hafa heilsu til að njóta og aftur trappa niður greiðslur hjá aldurshópum sem þurfa minni framfærslu vegna aldurs og heilsu.
Við gætum allt eins þurft að lækka aldur til töku lífeyris frekar en að hækka hann og í stað þess að koma vanda sjóðanna yfir á tryggingastofnun eða aðrar stofnanir gæti heildarendurskoðun kerfanna leyst vanda þeirra allra.
Breytingar á örorkulífeyriskerfinu eru einnig varasamar í þessu samhengi þar sem til stendur að taka upp starfsgetumat þannig að fólk með skerta starfsgetu verður metið til vinnu eða hlutastarfa. Þetta hljómar kannski sem góð hugmynd og jafnvel stórsniðug ef það væri ekki fyrir þá staðreynd að þessi störf eru ekki til og verða líklega ekki til fyrir þann hóp sem kerfisbreytingin ætlar sér að þvinga út á vinnumarkaðinn. Þetta hefur m.a. annars komið í ljós í Bretlandi þar sem starfsgetumat var innleitt með skelfilegum afleiðingum. Eina leiðin sem virðist fær í að breyta er að afnema skerðingar. Þær eru ósanngjarnar, ala á mismunun og eru andfélagslegar. Að refsa einhverjum fyrir viðleitni sína til lífsbjargar er ein versta sortin af mannréttindabrotum sem almannatryggingakerfið hefur alið af sér. Og þótt víða væri leitað. „Kostnaður“ við afnám skerðinga er gríðarlega mikill ef rýnt er í Excell skjöl fjármálaráðuneytisins. Hinsvegar hefur ávinningurinn ekki verið metin til fulls og ólíklegt er að til lengri tíma kosti nokkuð í krónum að fara þessa leið. Ef að lýðheilsusjónarmið eru tekin með í reikninginn, afleidd áhrif, hærri skatttekjur og útsvar þeirra sem geta unnið eitthvað í stað þess að þvinga til kyrrsetu og þannig minni ásókn í önnur stuðningskerfi hins opinbera og mun meiri líkum á starfsendurhæfingu stórra hópa.
Breytingar á vinnumarkaði vegna fjórðu iðnbyltingarinnar eru gríðarlegar og ljóst að þær munu hafa víðtæk áhrif á öll samfélög og allar þjóðir. Margir hafa spáð fyrir um hvernig þróunin mun verða og eru ekki allir á eitt sammála um hvernig hún verði. Einhverjir vilja meina að ný störf muni skapast í staðinn aðrir eru svartsýnni og telja að störfum muni fækka gríðarlega mikið. Sama hvernig þetta fer þá eru miklar áskoranir framundan á vinnumarkaði og hvernig við munum takast á við breytingarnar, breytt störf, allt aðrar kröfur.
Þess vegna ættum við að skoða kerfin okkar í miklu víðara samhengi en við gerum í dag. Þetta er ekki eitthvað sem við getum reiknað okkur niður á í excell skjali, það eru miklu fleiri þættir sem hanga á þessari spítu.
Hvernig gengur sú formúla upp að fjölga fólki á vinnumarkaði með starfgetumati og hækkun lífeyristökualdurs á meðan störfum er að fækka í bland við náttúrulega fólksfjölgun?
Það er alveg ljóst að þörf er á miklu dýpri naflaskoðun á okkar grunnstoðum og kerfum heldur en hingað til hefur verið haldið fram. Það er einnig margt sem bendir til þess að lífeyriskerfið okkar sé offjármagnað en meðallaunaréttindi eru reiknuð út frá 40 ára inngreiðslu en ekki 50 ára en við byrjum að greiða frá 16 ára aldri en ekki 26 ára. Þetta gjörbreytir allri réttindaávinnslu. Einnig er mjög ólíklegt að sjóðirnir nái að sneiða framhjá kerfisbundnum markaðsáföllum framtíðarinnar og standa þannig við lögbundið loforð um ávöxtun en krafan ein og sér er óraunhæf án þess að skerða til muna lífsgæði vinnandi fólks með einhverjum hætti.
Það er einnig margt sem bendir til þess að kerfið sé orðið of frekt til fjárins. Geta okkar til bæta lífskjör frá degi til dags verður erfiðari þar sem sífellt hærra hlutfall af launum og hærri launatengd gjöld renna til sjóðanna.
Einnig má spyrja hvort há ávöxtunarkrafa sjóðanna hafi neikvæð áhrif á lífsgæði heildarinnar. Innlendar eignir lífeyrissjóðanna eru um 3.500 milljarða. Í gegnum vexti á lánum til almennings og fyrirtækja og arðsemiskröfu á verðbréf þurfa lífeyrissjóðirnir að ná 3,5% meðalraunávöxtun sem þýðir 122,5 milljarðar á ári og fer hækkandi, bara til að sjóðirnir geti staðið við lögbundið viðmið um meðallaunaréttindi. Iðgjöldin 15,5% af allri launaveltu og séreign 4 til 6% bætast svo við. Þannig er hægt að álykta að sjóðirnir taki til sín á fjórða hundrað milljarða á ári úr hagkerfinu með beinum og óbeinum hætti.
Það er ljóst að sjóðirnir halda uppi vaxtagólfi í bland við óþarfa áhættusækni þegar innbyggð ávöxtunarkrafa kerfisins er of há og í sannanlegri mótsögn við tilganginn.
Hafa ber í huga að sjóðirnir greiða tugi milljarða til baka í formi greiðslu lífeyris, örorku, barna og makalífeyris.
Samtrygging er orð sem ekki á við um núverandi kerfi nema þá helst sem öfugmæli. Skattkerfið okkar er að mörgu leyti samtrygging þar sem innviðir tryggja sömu þjónustu til allra óháð tekjum eða stöðu. Sama vegakerfi, sama menntakerfi og sama grunnþjónusta fyrir alla. Eða svona í grunninn því alltaf eru frávik í öllum kerfum þar sem t.d. þeir allra ríkustu lifa eftir öðrum gildum og lögmálum en hinir, greiða helst ekki skatta en nota samt innviðina sem þeir reyna eftir fremsta megni að komast hjá að greiða fyrir.
En hvernig komust menn að þeirri niðurstöðu að kalla samtryggingarhluta lífeyrissjóðanna samtryggingu? Það er jú einhver samtrygging fólgin í greiðslu barna, örorku og makalífeyris en í grunninn elur kerfið á innbyggðri mismunun í réttindauppbyggingu. Frægt er orðið þegar fyrrum bankastjóri Arion banka var leystur út með 150 milljóna starfslokasamningi. Það sem margir gera sér síður grein fyrir að með þessu fékk bankastjórinn fyrrverandi ígildi eftirlaunaréttinda sem tæki verkamann heila starfsævi að vinna sér inn.
Réttindin byggja á hlutfalli meðallauna yfir starfsævina þannig að hálaunamaður fær sama hlutfall af sínum svimandi ævitekjum og verkakonan sem varla gat lifað af sínum. Þegar kemur að lífeyri er mun líklegra að hálaunamaðurinn hafi komið yfir sig skuldlausu þaki á starfsævinni og þurfi því minna til að lifa öfugt við þau sem lægst höfðu launin.
Það sem toppar svo vitleysuna er að þeir sem hafa lægri réttindi úr lífeyriskerfinu eru þeir sömu og lenda hvað verst í skerðingum almannatrygginga, en ekki hinir.
Önnur mismunun liggur í mismunandi örorkubyrði sjóðanna. Þær starfsstéttir sem vinna erfiðustu störfin og oft þau lægst launuðu, sem líklegri eru til að slíta út vinnandi höndum fyrir töku lífeyris, er komið fyrir í ákveðnum sjóðum sem greiða lægri réttindi fyrir hverja inngreidda krónu en hjá öðrum.
Það er því ljóst að heildarendurskoðun þarf að eiga sér stað. Sú endurskoðun mun taka tíma og margir þurfa að koma að henni. Það er ekki seinna vænna en að byrja.
Höfundur er formaður VR.