Ás stjórnmálanna milli vinstri og hægri er ekki bein lína heldur liggur hann í skeifu, svo að öfgarnar milli vinstri og hægri snertast næstum. Furðu oft er samhljómur í því hvernig talað er og hugsað á þessum pólitísku jöðrum. Til dæmis fáum við reglulega að heyra úr þeim áttum að við búum í „ógeðslegu samfélagi“ – hægra megin telja menn að sú lýsing gefi leyfi til að haga sér af fullkominni eigingirni, stela, svíkja og pretta – taka þátt í „ógeðinu“ – en öfgamennirnir til vinstri telja að hér þurfi „byltingu“ til að þoka málum í betra horf.
En þetta er ekki ógeðslegt samfélag, öðru nær. Hér býr gott og duglegt fólk upp til hópa, og skárra væri það nú ef þess sæi ekki stað í sjálfu samfélaginu. Við eigum hefð fyrir samhjálp og samlíðan; hjálparsveitirnar okkar eru fullar af fólki sem reiðubúið er að leggja mikið á sig til að bjarga mannslífum en svo höfum við líka ótal ósögð dæmi um hjálpsama nágranna og umhyggjusama ættingja – það er líka samfélag. Pisakannanir leiða ekki bara í ljós veikleika í notkun ritaðs máls heldur kemur líka fram í rannsóknum á högum ungs fólks að hér hefur náðst markverður árangur í skólakerfinu í því að efla félagsþroska barna og unglinga, auka meðvitund um einelti og draga úr notkun vímugjafa, ekki síst áfengis. Við eigum þetta tungumál, sögurnar og ljóðin og allar listirnar.
Hér blómgast margs konar félagsstarf meðal almennings, kórar og lestrarfélög, alls konar nærandi samvera sem er ekkert síður „íslenskt samfélag“ en bakherbergjaplott og klíkuskapur, sem svo sannarlega fyrirfinnst líka. Launafólk hefur mikilsverð réttindi á vinnumarkaði, hér starfar öflug verkalýðshreyfing og neytendavernd hefur aukist jafnt og þétt hin seinni árin. Jafnrétti kynjanna er hér meira en víða um lönd. Á nokkrum áratugum hefur orðið bylting í almennum viðhorfum til hinsegin fólks og hér starfa nokkrir öflugir fjölmiðlar sem tryggja opna og líflega þjóðfélagsumræðu. Ekkert af þessu er sjálfsagt. Allt kostaði þetta baráttu, blóð og tár hugrakkra einstaklinga. Og allt er þetta til vitnis um samfélag sem ekki er ógeðslegt.
En hér á landi er samt ekki jafn gott samfélag og það gæti hæglega verið. Hið fullkomna samfélag er auðvitað ekki til en við eigum samt að reyna að stefna að því að hver og einn sem hér býr geti notið sín og sinna eiginleika á eigin forsendum eins vel og mögulegt er.
Verst af öllu er að hér skuli enn vera til fátækt sem bitnar á gömlu fólki og öryrkjum – og börnum. Fátæktin birtist okkur ekki bara í því að börn og gamalt fólk fái ekki nóg að borða, líði skort – sem í sjálfu sér er glæpur í svo auðugu samfélagi – heldur getur hún líka birst okkur í einstæðingsskap og félagslegri útskúfun fólks með lítið net í kringum sig. Hún kemur fram í vanrækslu barna. Og hún sést í andlegum næringarskorti sem peningaleysinu fylgir, með þeim afleiðingum að hæfileikar ná ekki að blómstra, fólk fær ekki þau tækifæri í lífinu sem því ber.
Í hvert sinn sem manneskja rís úr fátækt til mannsæmandi kjara græðir allt samfélagið. Það var hugsunin bak við breytingartillögu okkar í Samfylkingunni við fjárlögin 2020, sem þingmenn úr Pírötum og Flokki fólksins fluttu með okkur, og snerist um hækkun á framlagi til lífeyris aldraðra og öryrkja svo að tryggt yrði að enginn sé með minna en lágmarkslaun í tekjur. Fátækt er ólíðandi í sjálfu sér og fyrir þau sem við hana búa; hún er óskynsamleg fyrir þjóðarbúið og hefur tilkostnað í för með sér. Ekki er til betri fjárfesting en sú að lyfta fólki úr fátækt. Það er samfélagslegt verkefni en á ekki að vera komið undir góðvild auðugra einstaklinga.
En þó að þetta sé ekki ógeðslegt samfélag og Íslendingar séu gott fólk upp til hópa þá er svo ótal margt sem hægt væri að bæta með svolítið betra skipulagi og meiri skynsemi að leiðarljósi – og almannahagsmuni. En þar er við ramman reip að draga. Hér eru hagsmunaaðilar geysisterkir, og eiga sér hauka í horni þar sem núverandi stjórnarflokkar eru.
Við búum við þunglamalegt landbúnaðarkerfi þar sem erfitt er fyrir ungt fólk að hasla sér völl og skapandi hugsun á erfitt uppdráttar; orkukerfið okkar miðast allt við stóriðju, á meðan grænmetisframleiðendur eiga margir í mesta basli með að fá til sín rafmagn, aukinheldur á svipuðu verði og stóriðjan, þó að flestir landsmenn vilji sjá færri álver og fleiri kálver. Það samræmist betur grænni ímynd sem við Íslendingar viljum hafa og rækta, að greiða götuna fyrir slíka vistvæna matvælaframleiðslu en að auka enn á álbirgðir heimsins með tilheyrandi losun á koldíoxíði sem okkur ætlar að sækjast hægt að draga úr eins og við verðum að gera, og ættum að geta gert með samstilltu átaki.
Áralöng vanræksla á innviðum er tekin að bitna á okkur í öllum þeim kerfum sem við ætlumst til að séu í lagi: menntakerfinu, vegakerfinu, orkukerfinu (þar sem náttúruverndarsinnum er kennt um allt saman eins og fyrri daginn) og heilbrigðiskerfinu. Ráðleysi og fálm einkennir viðbrögð ríkisstjórnarinnar þegar brestirnir birtast eins og nú á dögunum – helst að viðraðar séu óljósar hugmyndir um að láta almenning borga fyrir uppbygginguna með vegasköttum og ógagnsæjum þjónustugjöldum og slíkum tilfæringum.
Heilbrigðiskerfið er ennþá skammarlega dýrt fyrir almenning, þó að ríkisstjórnin hafi stigið undir forystu Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra jákvæð skref í áttina að þeim sjálfsögðu réttindum að heilbrigðisþjónustu standi fólki til boða því að kostnaðarlausu.
Allt hangir þetta saman við skattkerfið okkar og innbyggt misrétti þar. Endalaus tregða stjórnvalda við að tryggja sómasamlegar varnir gagnvart peningaþvætti og sinna sjálfsögðum kröfum um gagnsæi í eignarhaldi fyrirtækja hefur nú komið okkur Íslendingum á gráan lista yfir þjóðir þar sem varnir við alþjóðlegum fjármálaglæpum eru ónógar. Það er ömurlegra en orð fá lýst.
Ríkisstjórnin þverskallast við að veita rannsóknaraðilum nægilega fjármuni til að fletta ofan af markvissum og hugsanlega stórfelldum skattsvikum, sem eru óþolandi meinsemd í þjóðlífi okkar; ósiður sem vitnar um félagslegan vanþroska og skilningsleysi á því hvernig gott samfélag verður byggt. Það kann að vera snúið að sjá við hámenntuðum viðskiptafléttumeisturum sem sérhæft hafa sig í þeirri þjónustu að auðvelda ríkisbubbum að komast hjá því að greiða sinn skerf til samfélagsins – en það er eftir miklu að slægast fyrir samfélagið í heild og til vinnandi að leggja töluvert á sig til þess, ekki síst til að efla siðferðislega sjálfsmynd okkar. Þarna verður þjóðarbúið af miklum fjármunum: innviðauppbyggingin á sér stað í aflöndunum.
Sá er líka reginmunur á norræna velferðarkerfinu og því íslenska – og sér þar stað Sjálfstæðisflokksins sem alltaf skal leiddur hér til öndvegis í fjármálaumsýslu þjóðarbúsins – að á Norðurlöndum ríkir almenn sátt um að nota skattkerfið til tekjujöfnunar, með stighækkandi sköttum eftir því sem tekjur fólks eru meiri, en hér á landi þykir slíkt af einhverjum ástæðum mikil goðgá. Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, hefur jafnan eitt svar á reiðum höndum þegar hann kemst í þrot í rökræðum við talsmenn Samfylkingarinnar: „Og svo vill Samfylkingin bara hækka skatta!“ Þetta finnst Bjarna góð spæling hjá sér en meinið er að við lítum ekki á skatta sem andstyggð heldur einfaldlega smíðaefni í innviðina, sem svo aftur auka verðmætin og lífsgæðin í samfélaginu. Skattar eru fjárfesting okkar allra í eigin velferð. En þetta er líka alveg rétt hjá Bjarna: við í Samfylkingunni viljum hækka skatta – á hann sjálfan, vini hans og félaga, og líka okkur sem njótum góðra launa; við viljum hækka skatta á fjármagnstekjur og á þær tekjur sem faldar eru í skattaskjólum – en – og því má aldrei gleyma – við viljum að sama skapi lækka skatta á láglauna- og millitekjufólk; við viljum að skattar fari lækkandi eftir því sem tekjurnar minnka svo að allir hafi meira að moða úr, sér og samfélaginu til heilla.
Allt hangir þetta saman. Og svo margt af því sem aflaga hefur farið í samfélaginu birtist okkur í Samherjamálinu. Það er vissulega dæmi um það hvernig lítil og fátæk þjóð er rænd lífsbjörginni af spilltum valdamönnum og dyggðasnauðum kapítalistum sem einungis hugsa um að hámarka sinn eigin arð. Þetta er gott dæmi um það sem gerist í einflokkskerfi þegar aðgangur að gæðum er í höndum stjórnmálamanna svo að úr verður eitrað samband viðskipta og stjórnmála sem endar í ránskap á eigum almennings.
En Samherjamálið snýst ekki bara um Namibíu – þar er réttur að okkur spegill sem við þurfum að horfa í: hvernig er háttað hjá okkur sambandi stjórnmála og viðskipta? Nú hefur sjávarútvegsráðherrann – og fyrrum stjórnarformaður Samherja – að minnsta kosti í þrígang „sagt sig frá“ málum sem snerta Samherja – hvernig getur hann það? Hvað er það í sjávarútvegi sem ekki snertir Samherja, þennan risa í íslenskum sjávarútvegi? Og svo er það hitt: hvernig viljum við koma fram á alþjóðavettvangi sem fiskveiðiþjóð? Erum við strandveiðiríki sem stendur óhagganlegan vörð um réttindi þeirra sem við auðug fiskimið búa til að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran og arðbæran hátt eða viljum við draga taum auðhringa sem fara um heiminn og hremma þau verðmæti sem í augsýn eru? Erum við þjóð sem vill rétta öðrum hjálparhönd eða ætlum við að leika leikinn af fyllstu hörku og skeytingarleysi? Viljum við vera sá aðili í samskiptum?
Málið hefur minnt okkur óþyrmilega á fyrirkomulag okkar hér á auðlindanýtingu okkar, sem aldrei hefur náðst sátt um, því að útgerðin hefur ekki tekið í mál að greiða sanngjarnt gjald fyrir afnotin af fiskimiðunum, en hefur á sínum snærum hagfræðinga sem reyna að telja okkur trú um að þessi fiskimið væru verðlaus ef ekki væri fyrir útgerðina: eins og engum hafi hugkvæmst, eða kæmi til hugar, að stunda hér fiskveiðar nema núverandi risum, sem kerfið hefur gert kleift að stækka og stækka og stækka og stækka – alla leið til Namibíu.
Nú er svo komið að gjaldið sem útgerðinni er gert að greiða dugir ekki einu sinni fyrir kostnaðinum sem samfélagið tekur á sig vegna veiðanna. Stórútgerðirnar njóta niðurgreiðslu frá almenningi. Það er löngu tímabært að endurskoða þetta kerfi – en það er alveg borin von að það verði gert í tíð núverandi ríkisstjórnarflokka sem standa vörð um þetta fyrirkomulag, í nafni einhvers konar byggðastefnu. Við verðum að ljúka við auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar vegna allra annarra auðlinda okkar líka sem ekki mega lenda í tröllahöndum auðhringa – vatnins, víðernanna, fossanna, landsins góða og fagra. Raunverulegt og skilvirkt auðlindaákvæði og sanngjarnt gjald fyrir afnotin af þjóðarauðlindinni stuðlar að langþráðri sátt í samfélaginu, betra andrúmslofti, meiri jöfnuði milli landshluta og fólks, meiri ánægju – sanngjarnara og betra samfélagi. Um það á Sjálfstæðisflokkurinn ekki að hafa neitunarvald – frekar en nokkuð annað.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.