Gott samfélag

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, horfir yfir svið stjórnmála og áskoranir framundan.

Auglýsing

Ás stjórn­mál­anna milli vinstri og hægri er ekki bein lína heldur liggur hann í skeifu, svo að öfgarnar milli vinstri og hægri snert­ast næst­um. Furðu oft er sam­hljómur í því hvernig talað er og hugsað á þessum póli­tísku jöðr­um. Til dæmis fáum við reglu­lega að heyra úr þeim áttum að við búum í „ógeðs­legu sam­fé­lagi“ – hægra megin telja menn að sú lýs­ing gefi leyfi til að haga sér af full­kominni eig­ingirni, stela, svíkja og pretta – taka þátt í „ógeð­in­u“  – en öfga­menn­irnir til vinstri telja að hér þurfi „bylt­ingu“ til að þoka málum í betra horf.

En þetta er ekki ógeðs­legt sam­fé­lag, öðru nær. Hér býr gott og dug­legt fólk upp til hópa, og skárra væri það nú ef þess sæi ekki stað í sjálfu sam­fé­lag­inu. Við eigum hefð fyrir sam­hjálp og sam­líð­an; hjálp­ar­sveit­irnar okkar eru fullar af fólki sem reiðu­búið er að leggja mikið á sig til að bjarga manns­lífum en svo höfum við líka ótal ósögð dæmi um hjálp­sama nágranna og umhyggju­sama ætt­ingja – það er líka sam­fé­lag. Pisakann­anir leiða ekki bara í ljós veik­leika í notkun rit­aðs máls heldur kemur líka fram í rann­sóknum á högum ungs fólks að hér hefur náðst mark­verður árangur í skóla­kerf­inu í því að efla félags­þroska barna og ung­linga, auka með­vit­und um ein­elti og draga úr notkun vímu­gjafa, ekki síst áfeng­is. Við eigum þetta tungu­mál, sög­urnar og ljóðin og allar list­irn­ar. 

Hér blómg­ast margs konar félags­starf meðal almenn­ings, kórar og lestr­ar­fé­lög, alls konar nær­andi sam­vera sem er ekk­ert síður „ís­lenskt sam­fé­lag“ en bak­her­bergjaplott og klíku­skap­ur, sem svo sann­ar­lega fyr­ir­finnst líka. Launa­fólk hefur mik­ils­verð rétt­indi á vinnu­mark­aði, hér starfar öflug verka­lýðs­hreyf­ing og neyt­enda­vernd hefur auk­ist jafnt og þétt hin seinni árin. Jafn­rétti kynj­anna er hér meira en víða um lönd. Á nokkrum ára­tugum hefur orðið bylt­ing í almennum við­horfum til hinsegin fólks og hér starfa nokkrir öfl­ugir fjöl­miðlar sem tryggja opna og líf­lega þjóð­fé­lags­um­ræðu. Ekk­ert af þessu er sjálf­sagt. Allt kost­aði þetta bar­áttu, blóð og tár hug­rakkra ein­stak­linga. Og allt er þetta til vitnis um sam­fé­lag sem ekki er ógeðs­leg­t. 

Auglýsing

En hér á landi er samt ekki jafn gott sam­fé­lag og það gæti hæg­lega ver­ið. Hið full­komna sam­fé­lag er auð­vitað ekki til en við eigum samt að reyna að stefna að því að hver og einn sem hér býr geti notið sín og sinna eig­in­leika á eigin for­sendum eins vel og mögu­legt er. 

Verst af öllu er að hér skuli enn vera til fátækt sem bitnar á gömlu fólki og öryrkjum – og börn­um. Fátæktin birt­ist okkur ekki bara í því að börn og gam­alt fólk fái ekki nóg að borða, líði skort – sem í sjálfu sér er glæpur í svo auð­ugu sam­fé­lagi – heldur getur hún líka birst okkur í ein­stæð­ings­skap og félags­legri útskúfun fólks með lítið net í kringum sig. Hún kemur fram í van­rækslu barna. Og hún sést í and­legum nær­ing­ar­skorti sem pen­inga­leys­inu fylgir, með þeim afleið­ingum að hæfi­leikar ná ekki að blómstra, fólk fær ekki þau tæki­færi í líf­inu sem því ber. 

Í hvert sinn sem mann­eskja rís úr fátækt til mann­sæm­andi kjara græðir allt sam­fé­lag­ið. Það var hugs­unin bak við breyt­ing­ar­til­lögu okkar í Sam­fylk­ing­unni við fjár­lögin 2020, sem þing­menn úr Pírötum og Flokki fólks­ins fluttu með okk­ur, og sner­ist um hækkun á fram­lagi til líf­eyris aldr­aðra og öryrkja svo að tryggt yrði að eng­inn sé með minna en lág­marks­laun í tekj­ur. Fátækt er ólíð­andi í sjálfu sér og fyrir þau sem við hana búa; hún er óskyn­sam­leg fyrir þjóð­ar­búið og hefur til­kostnað í för með sér. Ekki er til betri fjár­fest­ing en sú að lyfta fólki úr fátækt. Það er sam­fé­lags­legt verk­efni en á ekki að vera komið undir góð­vild auð­ugra ein­stak­linga.

En þó að þetta sé ekki ógeðs­legt sam­fé­lag og Íslend­ingar séu gott fólk upp til hópa þá er svo ótal margt sem hægt væri að bæta með svo­lítið betra skipu­lagi og meiri skyn­semi að leið­ar­ljósi – og almanna­hags­muni. En þar er við ramman reip að draga. Hér eru hags­muna­að­ilar geysi­sterkir, og eiga sér hauka í horni þar sem núver­andi stjórn­ar­flokkar eru. 

Við búum við þung­lama­legt land­bún­að­ar­kerfi þar sem erfitt er fyrir ungt fólk að hasla sér völl og skap­andi hugsun á erfitt upp­drátt­ar; orku­kerfið okkar mið­ast allt við stór­iðju, á meðan græn­met­is­fram­leið­endur eiga margir í mesta basli með að fá til sín raf­magn, auk­in­heldur á svip­uðu verði og stór­iðj­an, þó að flestir lands­menn vilji sjá færri álver og fleiri kál­ver. Það sam­ræm­ist betur grænni ímynd sem við Íslend­ingar viljum hafa og rækta, að greiða göt­una fyrir slíka vist­væna mat­væla­fram­leiðslu en að auka enn á álbirgðir heims­ins með til­heyr­andi losun á koldí­oxíði sem okkur ætlar að sækj­ast hægt að draga úr eins og við verðum að gera, og ættum að geta gert með sam­stilltu átaki. 

Ára­löng van­ræksla á innviðum er tekin að bitna á okkur í öllum þeim kerfum sem við ætl­umst til að séu í lagi: mennta­kerf­inu, vega­kerf­inu, orku­kerf­inu (þar sem nátt­úru­vernd­ar­sinnum er kennt um allt saman eins og fyrri dag­inn) og heil­brigð­is­kerf­inu. Ráð­leysi og fálm ein­kennir við­brögð rík­is­stjórn­ar­innar þegar brest­irnir birt­ast eins og nú á dög­unum – helst að viðr­aðar séu óljósar hug­myndir um að láta almenn­ing borga fyrir upp­bygg­ing­una með vega­sköttum og ógagn­sæjum þjón­ustu­gjöldum og slíkum til­fær­ing­um.

Heil­brigð­is­kerfið er ennþá skammar­lega dýrt fyrir almenn­ing, þó að rík­is­stjórnin hafi stigið undir for­ystu Svan­dísar Svav­ars­dóttur heil­brigð­is­ráð­herra jákvæð skref í átt­ina að þeim sjálf­sögðu rétt­indum að heil­brigð­is­þjón­ustu standi fólki til boða því að kostn­að­ar­lausu.

Allt hangir þetta saman við skatt­kerfið okkar og inn­byggt mis­rétti þar. Enda­laus tregða stjórn­valda við að tryggja sóma­sam­legar varnir gagn­vart pen­inga­þvætti  og sinna sjálf­sögðum kröfum um gagn­sæi í eign­ar­haldi fyr­ir­tækja hefur nú komið okkur Íslend­ingum á gráan lista yfir þjóðir þar sem varnir við alþjóð­legum fjár­mála­glæpum eru ónóg­ar. Það er ömur­legra en orð fá lýst.

Rík­is­stjórnin þverskall­ast við að veita rann­sókn­ar­að­ilum nægi­lega fjár­muni til að fletta ofan af mark­vissum og hugs­an­lega stór­felldum skattsvik­um, sem eru óþol­andi mein­semd í þjóð­lífi okk­ar; ósiður sem vitnar um félags­legan van­þroska og skiln­ings­leysi á því hvernig gott sam­fé­lag verður byggt. Það kann að vera snúið að sjá við hámennt­uðum við­skiptafléttu­meist­urum sem sér­hæft hafa sig í þeirri þjón­ustu að auð­velda rík­is­bubbum að kom­ast hjá því að greiða sinn skerf til sam­fé­lags­ins – en það er eftir miklu að slæg­ast fyrir sam­fé­lagið í heild og til vinn­andi að leggja tölu­vert á sig til þess, ekki síst til að efla sið­ferð­is­lega sjálfs­mynd okk­ar. Þarna verður þjóð­ar­búið af miklum fjár­mun­um: inn­viða­upp­bygg­ingin á sér stað í aflönd­un­um. 

Sá er líka reg­in­munur á nor­ræna vel­ferð­ar­kerf­inu og því íslenska – og sér þar stað Sjálf­stæð­is­flokks­ins sem alltaf skal leiddur hér til önd­vegis í fjár­málaum­sýslu þjóð­ar­bús­ins – að á Norð­ur­löndum ríkir almenn sátt um að nota skatt­kerfið til tekju­jöfn­un­ar, með stig­hækk­andi sköttum eftir því sem tekjur fólks eru meiri, en hér á landi þykir slíkt af ein­hverjum ástæðum mikil goð­gá. For­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins, Bjarni Bene­dikts­son, hefur jafnan eitt svar á reiðum höndum þegar hann kemst í þrot í rök­ræðum við tals­menn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar: „Og svo vill Sam­fylk­ingin bara hækka skatta!“ Þetta finnst Bjarna góð spæl­ing hjá sér en meinið er að við lítum ekki á skatta sem and­styggð heldur ein­fald­lega smíða­efni í inn­við­ina, sem svo aftur auka verð­mætin og lífs­gæðin í sam­fé­lag­inu. Skattar eru fjár­fest­ing okkar allra í eigin vel­ferð. En þetta er líka alveg rétt hjá Bjarna: við í Sam­fylk­ing­unni viljum hækka skatta – á hann sjálfan, vini hans og félaga, og líka okkur sem njótum góðra launa; við viljum hækka skatta á fjár­magnstekjur og á þær tekjur sem faldar eru í skatta­skjólum – en – og því má aldrei gleyma – við viljum að sama skapi lækka skatta á lág­launa- og milli­tekju­fólk; við viljum að skattar fari lækk­andi eftir því sem tekj­urnar minnka svo að allir hafi meira að moða úr, sér og sam­fé­lag­inu til heilla. 

Allt hangir þetta sam­an. Og svo margt af því sem aflaga hefur farið í sam­fé­lag­inu birt­ist okkur í Sam­herj­a­mál­inu. Það er vissu­lega dæmi um það hvernig lítil og fátæk þjóð er rænd lífs­björg­inni af spilltum valda­mönnum og dyggða­snauðum kap­ít­alistum sem ein­ungis hugsa um að hámarka sinn eigin arð. Þetta er gott dæmi um það sem ger­ist í ein­flokk­s­kerfi þegar aðgangur að gæðum er í höndum stjórn­mála­manna svo að úr verður eitrað sam­band við­skipta og stjórn­mála sem endar í rán­skap á eigum almenn­ings. 

En Sam­herj­a­málið snýst ekki bara um Namibíu – þar er réttur að okkur speg­ill sem við þurfum að horfa í: hvernig er háttað hjá okkur sam­bandi stjórn­mála og við­skipta? Nú hefur sjáv­ar­út­vegs­ráð­herr­ann – og fyrrum stjórn­ar­for­maður Sam­herja – að minnsta kosti í þrí­gang „sagt sig frá“ málum sem snerta Sam­herja – hvernig getur hann það? Hvað er það í sjáv­ar­út­vegi sem ekki snertir Sam­herja, þennan risa í íslenskum sjáv­ar­út­vegi? Og svo er það hitt: hvernig viljum við koma fram á alþjóða­vett­vangi sem fisk­veiði­þjóð? Erum við strand­veiði­ríki sem stendur óhagg­an­legan vörð um rétt­indi þeirra sem við auðug fiski­mið búa til að nýta auð­lindir sínar á sjálf­bæran og arð­bæran hátt eða viljum við draga taum auð­hringa sem fara um heim­inn og hremma þau verð­mæti sem í aug­sýn eru? Erum við þjóð sem vill rétta öðrum hjálp­ar­hönd eða ætlum við að leika leik­inn af fyllstu hörku og skeyt­ing­ar­leysi? Viljum við vera sá aðili í sam­skipt­um?

Málið hefur minnt okkur óþyrmi­lega á fyr­ir­komu­lag okkar hér á auð­linda­nýt­ingu okk­ar, sem aldrei hefur náðst sátt um, því að útgerðin hefur ekki tekið í mál að greiða sann­gjarnt gjald fyrir afnotin af fiski­mið­un­um, en hefur á sínum snærum hag­fræð­inga sem reyna að telja okkur trú um að þessi fiski­mið væru verð­laus ef ekki væri fyrir útgerð­ina: eins og engum hafi hug­kvæmst, eða kæmi til hug­ar, að stunda hér fisk­veiðar nema núver­andi risum, sem kerfið hefur gert kleift að stækka og stækka og stækka og stækka – alla leið til Namib­íu.

Nú er svo komið að gjaldið sem útgerð­inni er gert að greiða dugir ekki einu sinni fyrir kostn­að­inum sem sam­fé­lagið tekur á sig vegna veið­anna. Stór­út­gerð­irnar njóta nið­ur­greiðslu frá almenn­ingi. Það er löngu tíma­bært að end­ur­skoða þetta kerfi – en það er alveg borin von að það verði gert í tíð núver­andi rík­is­stjórn­ar­flokka sem standa vörð um þetta fyr­ir­komu­lag, í nafni ein­hvers konar byggða­stefnu. Við verðum að ljúka við auð­linda­á­kvæði stjórn­ar­skrár­innar vegna allra ann­arra auð­linda okkar líka sem ekki mega lenda í trölla­höndum auð­hringa – vatn­ins, víð­ern­anna, foss­anna, lands­ins góða og fagra. Raun­veru­legt  og skil­virkt auð­linda­á­kvæði og sann­gjarnt gjald fyrir afnotin af þjóð­ar­auð­lind­inni stuðlar að lang­þráðri sátt í sam­fé­lag­inu, betra and­rúms­lofti, meiri jöfn­uði milli lands­hluta og fólks, meiri ánægju – sann­gjarn­ara og betra sam­fé­lagi. Um það á Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn ekki að hafa neitunar­vald – frekar en nokkuð ann­að.

Höf­undur er þing­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins á Kjarvalsstöðum í gær.
„Engin áform“ um að ríkið auki rekstrarframlög með tilkomu Borgarlínu
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segist ekki sjá fyrir sér að ríkið auki framlög sín til rekstrar almenningssamgangna höfuðborgarsvæðisins, eins og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Strætó bs. hafa kallað eftir.
Kjarninn 29. nóvember 2021
Franskur fiskveiðibátur lokar á skipaumferð um Calais í Frakklandi.
Frakkar og Bretar berjast enn um fiskinn í Ermasundi
Enn er ósætti á milli Frakklands og Bretlands vegna fiskveiða í breskri landhelgi eftir Brexit. Á föstudaginn reyndu franskir sjómenn reyndu að loka fyrir vöruflutninga á milli landanna tveggja til að krefjast úthlutunar fleiri fiskveiðileyfa.
Kjarninn 28. nóvember 2021
Sunnlenskir sjálfstæðismenn kalla eftir skýringum frá Bjarna Benediktssyni.
Ósáttir sunnlenskir sjálfstæðismenn krefja Bjarna um skýringar
Sjálfstæðismenn á Suðurlandi eru með böggum hildar yfir því að Guðrún Hafsteinsdóttir oddviti flokksins í kjördæminu eigi ekki sæti við ríkisstjórnarborðið nú þegar. Tíu af tólf ráðherrum eru þingmenn kjördæma höfuðborgarsvæðisins.
Kjarninn 28. nóvember 2021
Bresk myndlistarkona málaði eitt hundrað málverk af eldgosinu í Fagradalsfjalli
Eldgosið í Fagradalsfjalli sem hófst í vor hefur vakið allskonar væringar hjá fólki. Amy Alice Riches ákvað að mála eitt málverk á dag af því í 100 daga. Hún safnar nú fyrir útgáfu bókar með verkunum.
Kjarninn 28. nóvember 2021
Allt sem þú þarft að vita um nýjan stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar
Stefnt er að því að lækka skatta, selja banka og láta fjármagnseigendur greiða útsvar. Auðvelda á fyrirtækjum að virkja vind og endurskoða lög um rammaáætlun.
Kjarninn 28. nóvember 2021
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við kynningu stjórnarsáttmálans á Kjarvalsstöðum í dag.
Talað um að lækka mögulega skatta en engu lofað
Engar almennar skattkerfisbreytingar eru útfærðar í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra segir að horft verði til þess að lækka skatta á þá tekjulægstu eða til að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja ef svigrúm gefist.
Kjarninn 28. nóvember 2021
Álfheiður Eymarsdóttir
Kosningaframkvæmd fjórflokksins
Kjarninn 28. nóvember 2021
Ríkisstjórnin stokkast upp í dag, eftir rúmlega tveggja mánaða viðræður þriggja flokka um áframhaldandi samstarf.
Þessi verða ráðherrar
Willum Þór Þórsson og Jón Gunnarsson verða ráðherrar í nýrri ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem kynnt er í dag. Guðrún Hafsteinsdóttir er sögð koma inn sem ráðherra dómsmála síðar á kjörtímabilinu.
Kjarninn 28. nóvember 2021
Meira úr sama flokkiÁlit