Ég hef minnst á það áður – í leiðaraskrifum þar sem minnt er á mikilvægi listamanna fyrir samfélagið – þegar við á ritstjórn Kjarnans heimsóttum sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn. Þá tók Benedikt Jónsson, sendiherra, á móti okkur og spjallaði við okkur um utanríkisþjónustuna, alþjóðastjórnmál og ýmislegt fleira.
Eftirminnilega skemmtilegur fundur og fræðandi, enda Benedikt reynslumikill og með yfirburðaþekkingu á hinum ýmsu málum sem tengjast ímynd Íslands erlendis.
Eitt af því sem hann sagði, var að sterkasta vopnið sem Ísland hefði, þegar kæmi að orðstír um heim allan, væri einstaklega jákvæð og góð ímynd sem íslenskt listalíf hefði lagt grunninn að. Hvar sem hann hefði komið, þá væri þetta alltaf það sem blasti við; góð og sterk ímynd Íslands þegar kæmi að menningarlífinu og listum.
Ótrúlegur árangur Hildar Guðnadóttur á sviði kvikmyndatónlistar heldur áfram að vekja heimsathygli. Það var gaman að sjá það í beinni í gær, hér í Bandaríkjunum, þegar hún tók við Golden Globe verðlaununum fyrir tónlistina í hinni stórbrotnu mynd Joker. Jóhann Jóhannsson heitinn tónskáld hafði verið í sömu sporum, á sínum tíma, og manni fannst þetta hálf óraunverulegt þá líkt og nú.
Það að Hildur hafi verið með tónlistina í Chernobyl þáttunum – svo til samhliða því að Joker birtist á hvíta tjaldinu – verður að teljast með ólíkindum, og sýnir óvenjulega mikla hæfileika og afköst. Tónlistin í þáttunum er öllum þeim sem hafa horft og hlustað, eftirminnileg.
Vonandi gefur þetta tóninn fyrir Óskarinn – þó það sé óþarfi að gera kröfu um það. En það má láta sig dreyma.
Það er hollt fyrir Íslendinga að muna hvaðan útþenslan á samfélaginu kemur oft á tíðum. Hvernig okkur tekst að búa til ný sjónarhorn, staðsetja okkur utan við rammann, stinga á kýlum og stuðla þannig að framförum og nýsköpun. Listamenn eru í þessum hlutverkum og hvernig hið litla íslenska listalíf hefur stutt við íslenskt samfélag að undanförnu – og í gegnum tíðina – sýnir mikilvægið.
Listamenn vísa nefnilega oft veginn, og á því verður vonandi almenn viðurkenning. Ég hef áður skrifað um mikilvægi listamanna og þá hvers vegna mér finnst að það þurfi að fjárfesta með mun ríkulegri hætti í starfi þeirra. Ég læt því nægja að tengja hér á tvo síðustu leiðara um þessi mál. Annars vegar, Að gera hlutina vel, og síðan Heilindin á bak við hvíta fíla.