Á árinu 2019 var umheimurinn minntur á það hversu háð við erum góðum flugsamgöngum og trausti á flugvélum.
Kyrrsetningin á 737 Max vélum Boeing tók gildi í lok mars og stendur enn. Það sem leiddi til kyrrsetningarinnar voru flugslys í Indónesíu, 29. október 2018, og síðan í Eþíópíu 13. mars í fyrra. Gallar í tiltölulega nýjum Max vélum – í svonefndu MCAS kerfi sem á að sporna gegn ofrisi – eru taldir hafa leitt til þess að vélarnar toguðust til jarðar með þeim afleiðingum að 346 létu lífið, allir um borð í báðum vélum.
Margt hefur verið skrifað um þessi mál – meðal annars í fréttaskýringum á vef Kjarnans – eins og eðlilegt er. Kyrrsetningin á Max vélunum hefur haft mikil áhrif á efnahag Íslands, og eru þar bein fjárhagsleg áhrif á Icelandair aukaatriði.
Í greiningum Seðlabanka Íslands, meðal annars í Peningamálum, hefur verið fjallað um víðtæk áhrif af kyrrsetningunni á íslenskan efnahag, en hún hefur leitt til minna sætaframboðs til landsins og umfangsminni ferðaþjónustu, og þannig dregið úr landsframleiðslu í okkar litla landi.
Fordæmalaust er í heiminum, að kyrrsetningin hafi jafn víðtæk hlutfallsleg áhrif á þjóðríki, enda ferðaþjónustan hryggjarstykkið í hinu „nýja” íslenska hagkerfi sem byggst hefur upp eftir hrunið.
Siðleysi afhjúpað
Eitt af því sem hefur gerst frá því að flugslysin hjá Boeing komu upp, er að kastljós fjölmiðla og rannsakenda hefur beinst að félaginu. Hverjum steini er nú velt við til að greina það, hvernig gallaðar vélar komust í loftið og hröpuðu svo með skelfilegum afleiðingum til jarðar – svo mál séu viljandi smættuð niður og einfölduð.
Í gögnum sem nú hafa verið birt – og meðal annars verið fjallað um í rannsókn Bandaríkjaþings – hefur komið fram að siðlaust andrúmsloft virðist hafa verið ríkjandi hjá þessu stærsta útflutningsfyrirtæki Bandaríkjanna.
Reynt var að hafa áhrif á framleiðsluferlið þannig að það gæti tekið sem stystan tíma, og að eftirlitsaðilar væru ekki fyrir. Sjálfstæði eftirlitsaðila FAA – flugmálayfirvalda í Bandaríkjunum – hefur einnig verið dregið í efa, og margt sem bendir til þess að Boeing hafi í raun verið með eftirlitsaðila í vasanum.
Rannsakendur í Indónesíu og Eþíópíu – sem hafa gagnrýnt Boeing harðlega og birt afhjúpandi gögn máli sínu til stuðnings – hafa unnið merkilegt starf og sýnt fram á skelfilegt verklag Boeing, og sértæka galla í vélunum sem leiddu til dauðaslysa.
Seattle Times greindi raunar frá þessu eitraða andrúmslofti, fyrir slysin, og hafði fyrir því heimildarmenn, að framleiðsluferlið væri ekki nægilega faglegt, meðal annars vegna framleiðslupressu. Boeing er stærsti vinnuveitandi Seattle svæðisins með 80 þúsund starfsmenn á svæðinu, og því er Seattle Times með sérhæfða blaðamennsku á sviði flugmála, og hefur leitt umfjöllun um Max-vandann. Framlag blaðamanna ritstjórnar Seattle Times til þessa máls, hefur verið lýsandi dæmi um mikilvægi aðhaldssamrar blaðamennsku gagnvart valdhöfum í stjórnmálum og atvinnulífi.
The “daily miracle” of putting out a daily paper was put to the test last night. Thanks to a 6-hour Internet outage, we came perilously close to not producing a printed paper for the first time in our 123-year history. But fueled by free pizza and journalistic pride, we did it. pic.twitter.com/NBnR1rri1C
— Rick Lund (@rlundscoop) January 11, 2020
Hvað ef þetta hefði verið Ísland?
Ég hef stundum – og óþægilega oft undanfarin misseri – fært hugann að því hvernig umræða um þessi vandamál hjá Boeing væri á Íslandi, ef Max vél Icelandair hefði hrapað á leið sinni út í heim, með þeim afleiðingum að allir um borð hefðu látið lífið. Kórfélagar, saumaklúbbar, ráðamenn, venjulegt fólk.
Ég er ekki viss um að forstjóri Icelandair myndi þá fullyrða, að hann yrði fyrsti maður um borð í Max vél. Ég er heldur ekki viss um, að horft yrði til þessara mála með jafn léttvægum hætti eins og gert hefur verið á Íslandi, á undanförnum tíu mánuðum, og að bréf væru send til Seðlabankans til að kvarta yfir því að nefndarmaður í peningastefnunefnd hefði gert það að umtalsefni á fundi þingnefndar, að Icelandair ætti mikið undir bótagreiðslum frá Boeing.
Augljóst er – fyrir mér, í það minnsta – að íslensk stjórnvöld ættu að höfða sjálfstætt bótamál gegn Boeing. Þá ættu stéttarfélög flugmanna Icelandair og flugfreyja, einnig að höfða sjálfstæð bótamál, alveg eins og flugfélagið.
Flugmenn Southwest flugfélagsins hafa gert þetta, og krafist 100 milljóna Bandaríkjadala – jafnvirði 12,5 milljarða – í bætur vegna þess hvernig Boeing hefur haldið málum.
Ástæðan er sú, að Boeing stóð sig ekki eins og það átti að gera og sýndi óafsakanlegt kæruleysi við framleiðslu á einu mikilvægasta innviðafyrirbæri samfélaga – farþegaþotum.
Mikilvægt er að þessi mál séu skoðuð út frá alvarlegum afleiðingum þeirra – ekki aðeins hinum alvarlegu efnahagslegu afleiðingum, sem gætt hefur á Íslandi – heldur einnig virðingu fyrir hinum látnu og aðstandendum þeirra, sem nú leita réttar síns frammi fyrir ofurefli stærsta útflutningsfyrirtækis Bandaríkjanna.
Það er huggun í því að Bandaríkjaþing – bæði Repúblikanar og Demókratar – hafa saumað að Boeing, við rannsókn á málinu, og dregið ýmislegt fram í dagsljósið sem sýnir brestina hjá félaginu, en betur má ef duga skal.
Skýr skilaboð frá litlu eyríki sem á mikið undir skilvirkum og traustum flugsamgöngum geta skipt máli í þessu samhengi.