Í tilefni af grein sem birtist í Kjarnanum í gær 14. janúar 2020 undir fyrirsögninni „Dýravernd, blóðmerahald og fallin folöld þeirra á Íslandi“, vill undirritaður koma eftirfarandi á framfæri:
Greinin er uppfull af hálfsannleik, uppspuna og rógburði, þar sem vegið er að bændum, dýralæknum, dýraverndarsamtökum, ráðherra, eftirlitsaðilum sem og líftæknifyrirtækjum þ.m.t. Ísteka ehf. sem ég er í forsvari fyrir.
Eftirlit með velferð og heilsu blóðgefandi hryssa er mjög virkt hérlendis og felst m.a. í eftirfarandi þáttum:
- Dýralæknar sjá um blóðgjöfina og staðfesta heilbrigði hryssu fyrir blóðgjöf.
- Við hjá Ísteka gefum fyrirmæli um meðferð hrossanna. Þau eru m.a. byggð á lögum og reglugerðum ásamt fleiri atriðum sem trygga dýravelferð. Virkt eftirlit er með því að þessum fyrimælum sé framfylgt.
- Matvælastofnun (MAST) sér um stjórnvaldseftirlit með starfseminni í samræmi við lög og reglugerðir og önnur viðeigandi ákvæði.
Blóðgjafahryssur búa við mikið frjálsræði árið um kring. Þær lifa í stórum beitarhólfum þar sem þær geta athafnað sig, hreyft sig, hvílst, notið útivistar, beitar eða viðhaft annað atferli sem þeim er eðlilegt. Afskipti mannsins eru í lágmarki, nema í tenglsum við blóðgjafir, almenna umönnun, fóðrun og eftirlit. Hryssurnar njóta náttúrlegs eða manngerðs skjóls. Misskilnings gætir í greininni sem hér er vísað til, um að hross hafi skort skjól í aftakveðrinu sem gerði í desember síðastliðnum. Þá voru það einmitt hross í skjóli sem urðu verst úti.
Blóðgjafahryssur, fylin og folöldin lifa og þroskast á nákvæmlega sama hátt og önnur hross á Íslandi.
Umræðum um þessa grein landbúnaðar ber að fagna. Hún þarf þó að vera hófstillt og byggjast á vísindalegum rökum og staðfestum heimildum.
Höfundur er framkvæmdastjóri Ísteka ehf.