Í ljósi heimsfaraldurs kórónaveirunnar, stöndum við sem þjóð nú frammi fyrir erfiðum og flóknum ákvörðunum. Við búum við fordæmalaust ástand sem einna helst verður líkt við heimsfaraldur inflúensu árið 1918 og seinni heimsstyrjöldina. Við slíkar aðstæður þarf að bregðast við með hraði, af festu og nákvæmni. Aðgerðir íslenskra stjórnvalda hafa verið leiddar af embætti sóttvarnarlæknis, embætti landlæknis og ríkislögreglustjóra. Svo virðist sem við höfum staðið okkur vel í fyrri hluta þeirrar vinnu við að draga úr smiti með rakningu tilfella, en nú er komið að seinni hálfleiknum með auknu álagi sem kallar á skjót viðbrögð.
Heilbrigðisstarfsmenn hérlendis og í nágrannalöndunum hafa komið á framfæri skýrum skilaboðum til allra að halda sig heima til að þeim sé mögulegt að vinna sína vinnu. Á mánudag tilkynni forsætisráðherra Breta að þjóðin yrði að standa saman og vera heima, nema algjör nauðsyn krefði. Þá tók hann fram að með því væri verið að kaupa tíma til að undirbúa heilbrigðiskerfið frekar, bæði hvað varðar tækjabúnað og mögulega meðferð. Læra má að einhverju leyti af þeim löndum sem þegar hafa orðið illa úti, s.s. Ítalíu og Kína. Þá hefur Alþjóðaheilbrigðismálstofnunin, WHO, gefið út leiðbeiningar um hvernig eigi berjast við þennan sjúkdóm.
Sérstaklega verður að huga að hagsmunum framlínu heilbrigðisstarfsmanna og annara sem sinna nauðsynlegum störfum í þágu almannavarna á þessum erfiðu tímum. Með hliðsjón af skyldu stjórnvalda og vinnuveitanda til að tryggja starfsfólki öruggt starfsumhverfi, sbr. t.d. ákvæði laga um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum og ákvæða EBE tilskipana nr. 89/391/EBE og 92/57/EBE er tvímælalaust skylda á yfirvöldum að takmarka útsetningu heilbrigðisstarfsmanna, kennara og annarra sem gert er að starfa í dag. Á yfirborðinu hafa stjórnmálamenn a.m.k. ekki skipt sér af einstökum ákvörðunum, þeir bera þó á endanum alla ábyrgð á viðbrögðum við faraldrinum og geta ekki skýlt sér á bak við ráðleggingar annarra.
Núna liggur fyrir að samfélagssmit hefur orðið í íslensku samfélagi. Hlutfall greindra nýsmita sem ekki er hægt að rekja til erlends uppruna fer hækkandi. Takmarkanir á sýnatökum vekja grun um að fjölda smitaðra sé vangreindur. Við samfélagssmiti hefur verið brugðist með samkomubanni. Þrátt fyrir það eru leikskólar og grunnskólar ennþá opnir. Með þessu er ljóst að hluti starfsmanna sveitarfélaga er að sinna störfum. Þeir starfsmenn þurfa að vera í nánu samneyti við mögulega smitbera og eru þannig lagðir í hættu til að halda samfélaginu gangandi. Þá eru samgöngur ennþá frjálsar af smituðum svæðum inn á ósmituð, en ósmituð byggðarlög kalla eftir breytingum þar á.
Aðstæður á Íslandi eru um margt einstakar. Millilandasamgöngur hafa að mestu lagst af tímabundið og við þær gríðarlegu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir er það að mati undirritaðra illskiljanlegt hvers vegna stjórnmálamenn grípa ekki tafarlaust til aðgerða eins og útgöngubanns og takmarkana á samgöngum milli landshluta, með það að markmiði að stöðva dreifingu veirunnar innanlands. Hafa verður í huga að um 10% smitaðra bæði á Ítalíu og Kína eru heilbrigðisstarfsmenn. M.t.t. öryggis þeirra, og annarra sem sinna nauðsynlegum störfum í samfélaginu, er mikilvægt að fækka smituðum eins mikið og kostur er. Að takmarka sóttvarnaraðgerðir vegna mögulegra efnahagslegra afleiðinga er að mati undirritaðra alltaf óréttlætanlegt. Mannlíf verða ekki metin til fjár. Öryggi og heilsa þjóðarinnar ásamt öryggi framlínu starfsmanna í heilbrigðiskerfinu verður að vera leiðarljósið við allar ákvarðanir.
- Útgöngubann og takmarkanir á samgöngum í nokkrar vikur myndi hafa takmörkuð efnahagsleg áhrif, umfram það sem þegar er orðið.
- Hjól efnahagslífsins á Íslandi gætu aftur farið að snúast þegar búið væri að takmarka og/eða stöðva allt smit innanlands innan nokkurra vikna.
- Útgöngubann og samgöngutakmarkanir minnka útsetningu nauðsynlegra starfsstétta s.s. leikskólakennara og heilbrigðisstarfsmanna fyrir smitefni.
- Takmörkun á smiti núna, myndi gera undirbúning að mögulegri síðari bylgju veirunnar betri, þ.m.t. með tilliti til mögulegra lyfjameðferða eða bólusetningar sem þá gæti verið komin til.
- Engar staðfestar óyggjandi upplýsingar liggja fyrir um að einstaklingar sem smitast af veirunni núna hafi myndað mótefni um alla framtíð og þannig liggur ekki fyrir hvort hjarðónæmi geti yfir höfuð myndast.
- Að mati undirritaðra fer það gegn lögum að grípa ekki til frekari sóttvarnarráðstafana tafarlaust gagnvart framlínu heilbrigðisstarfsmanna og annara lykilstarfsmanna.
Með þessu viljum við skora á stjórnmálamenn, sem ráða ferðinni í viðbrögðum við heimsfaraldri kórónaveirunnar, að hugsa sinn gang alvarlega. Þá viljum við hvetja önnur stjórnvöld, þ.m.t. sveitarfélög, til að taka sjálfstæðar ákvarðanir á grundvelli ábyrgðar sinnar til verndar starfsmanna. Einstaklingum sem nú er gert að starfa í þágu almannavarna eiga rétt á því gripið sé til allra mögulegra aðgerða. Eru ráðamenn virkilega tilbúnir til að standa frammi fyrir þjóðinni síðar og réttlæta það að ekki hafi verið gripið til allra mögulegra úrræða til að stöðva útbreiðslu veirunnar?
Okkur öllum ber skylda til að vinna saman, stöðva faraldurinn og bjarga þannig mannslífum.
Annar höfunda er lögfræðingur en hinn lögmaður og læknir.