Tilfinningin er eins og ýtt hafi verið á pásu og allt mannlíf sett í bið. En kannski er það ekki bara tilfinning heldur fúlasta alvara. Undanfarnar vikur hafa íbúar Papúa Nýju-Gíneu sem er annað tveggja ríkja sem skipta hinni frjósömu og gjöfulu eyju á milli sín. Hið sjálfstæða ríki Papúa Nýja-Gínea er á austurhelmingi eyjarinnar og Vestur-Papúa, sem er stjórnað af Indónesíu er eins og nafnið gefur til kynna á vesturhluta eyjarinnar. Ástralía liggur suður af eyjunni.
Það eru miklar samgöngur og tengsl á milli Papúa Nýju-Gíneu og Ástralíu bæði af menningarlegum toga þar sem Ástralir voru síðustu nýlenduherrarnir og efnahagslega. Áströlsk fyrirtæki stunda mikla námavinnslu í landinu og þróunaraðstoð er mikil. Minna fer fyrir samskiptum Ástrala við Vestur-Papúa sem er að reyna af veikum mætti að fá sjálfstæði frá Indónesíu. Það er, að sinni, borin von þar sem landið, eins og sjálfstæði hlutinn, er mjög gjöfult af náttúruauðlindum og Indónesar munu ekki sleppa sínum tökum fyrr en í fulla hnefana og Ástralir vilja ekki styggja þennan fjölmenna nágranna sinn í norðvestri.
Eðalmálmar, kol, olía, gas er til staðar á eyjunni í töluverðum mæli. Skógarhögg er stundað beggja vegna landamæranna af mikilli ákefð. Landið er fjölskrúðugt. Hér eru regnskógar, votlendi, mikið fjalllendi og auðvitað strendur sem umlykja landið. Náttúrufegurð mikil en ásókn námufyrirtækja og skógarhöggsmanna er mikil og náttúruperlur landsins hafa orðið fyrir miklu tjóni og það sér ekki fyrir endann á þeirri þróun.
Á eyjunni og eyjunum í kring eru eldfjöll sem láta fyrir sér finna með reglulegu millibili sem er að mestum líkindum ein ástæða þess að jarðvegurinn er einstaklega frjór.
Í PNG eiga um 800 ættbálkar megnið af landinu og skipta því á milli sín. Það eru oft töluverður róstur og erjur, á milli ættbálkanna, sem eru stundum blóðugar þegar ágreiningur um landamerki og hagsmuni keyrir úr hófi. Þrátt fyrir þetta hefur landinu sem öðlaðist sjálfstæði 16. september 1975 tekist að komast í gegnum flestar þær hremmingar sem steðja að ný sjálfstæðum ríkjum þó að spilling sé landlæg.
Það er talið að um átta milljónir manna búi í Papúa Nýju-Gíneu, þó að hærri tölur hafi verið nefndar. Höfuðborgin er Port Moresby með um 260.000 íbúa og Lae sem er aðal hafnar- og iðnaðarborg landsins státar af um 101.000 íbúum. Talið er að um 80 prósent þjóðarinnar búi í dreifbýli, í þorpum, sem rækta allt það grænmeti sem íbúarnir þurfa og svína, kanínu, geita og hænsnarækt er stunduð í nokkrum mæli einnig. Landið gefur vel af sér og það sem ekki er nauðsynlegt til að brauðfæða þorpsbúana er selt á markaði.
Sjálfsþurftarbúskapur þessi hefur gert þjóðinni kleift að lifa af efnahagsþrengingar sem hafa verið og eru töluverðar án þess að fólk svelti heilu hungri. Fátækt er þó mikil og næringarskortur á meðal barna er mikill. Heilbrigðiskerfið og menntakerfið eru vel hönnuð, ef svo má að orði komast, en fjársvelt þannig að þau veita ekki þá þjónustu sem til er ætlast.
Enn sem komið er hefur ekki reynt mikið á heilbrigðiskerfið í sambandi við alheimspláguna Covid-19. Þegar þetta er skrifað hefur aðeins eitt tilvik greinst með veiruna og lifði viðkomandi af.
Ástralía er næsti nágranninn og þar er útbreiðsla veirunnar töluverð og þrátt fyrir aðgerðir þarlendra stjórnvalda er útbreiðslan enn að aukast. Stjórnvöld í Papúa Nýju-Gíneu vita það fullvel að þau eru ekki vel í stakk búin til að takast á við faraldur sem þennan og nú um síðustu helgi var gripið til mikilla varúðarráðstafana. Landinu var hreinlega skellt í lás í einu vetfangi. Flug til og frá landinu var að mestu lagt niður á laugardegi. Tveimur dögum seinna var allt innanlandsflug lagt niður og þar sem vegasamgöngur eru vægast sagt bágbornar þá eru flugsamgöngur lífæð þjóðarinnar. Fólki er einnig gert að sitja heima og mörkuðum hefur verið lokað og allar samkomur meira og minna bannaðar. Þetta er risaskref fyrir þjóðina þar sem daglegt líf snýst að miklum hluta um markaði og það að hitta vini og kunningja á förnum vegi og tyggja með þeim hnetu sem hér kallast buai sem hefur mild örvandi áhrif. Almennt tekur fólk þessu með jafnaðargeði og margir hafa farið heim í þorpið sitt eða halda sig heima við. Verslunum og annarri þjónustu eru settar nokkrar skorður um styttri opnunartíma og eins og tíðkast hér þegar mikið gengur á reyna stjórnvöld að hefta aðgang að verslunum sem selja alkóhól til þess að stemma stigu við of mikilli drykkju sem er nokkuð algeng hér.
Ég er búsettur í bæ sem heitir Gorka sem er staðsettur í austurhluta hálendis landsins og vinn þar við samnefndan háskóla. Hér er loftslagið einstakt og allt hreinlega blómstrar allan ársins hring. Dagarnir eru nokkuð hlýir, oft um 22 til 23 gráðu hiti en kvöldin mun svalari og of rignir töluvert að mestu þó á kvöldin og nóttunni. Papúa Nýja-Gínea er þekkt fyrir töluverða glæpatíðni og nokkuð er um ofbeldi en Goroka er talin vera öruggasti bær landsins. Íbúarnir eru almennt mjög vinalegir og þó að þeir vilji þiggja smáræði fyrir hvaða viðvik sem þeir þurfa að sinna – þó að það tilheyri starfslýsingu þeirra – þá er flest á ljúfum nótum.
Háskólanum, sem staðsettur er á hæð utan megin byggðarkjarna bæjarins, hefur verið lokað og hér eru fáir á ferli. Undanfarnar vikur hef ég í rauninni verið í töluverðri einangrun þar sem við fjölskyldan höfum ekki farið mikið út af háskólalóðinni nema til að ná í nauðsynjar. Hér er töluverður ótti og kannski ekki af ósekju þar sem að ef þessi farsótt nær að fóta sig hér og dreifa sér þá er voðinn vís og alls óvíst með útkomuna. Ríkisstjórn landsins undir stjórn forsætisráðherrans James Marape hefur unnið nokkuð ötullega að því að reyna að fræða þjóðina um þá ógn sem steðjar að. Það hefur gengið þokkalega og ekki hefur borið á miklum múgæsingi sem er ekki óþekkt fyrirbæri hér. Hinsvegar varð mér hugsað til ábendinga um handþvott og önnur þrif þegar vatnið fór loks að renna úr krananum aftur eftir langa mæðu hér í Global Village þar sem ég á heima, brúnt að lit. Með það fór ég og sótti drykkjarvatn í tank sem er ekki langt í burtu frá húsinu.
Á föstudag hringdi ég í leigubílstjórann sem ekur mér iðulega á milli staða og bað hann að skutlast með mig í verslunarferð til að kaupa inn það sem við þurfum fyrir næstu tvær til þrjár vikur. Mér skilst að háskólinn hjálpi við að koma starfsmönnum á milli staða og heim aftur en sú þjónusta er nokkuð stopul og ég vildi ekki eyða lunganu úr deginum í þessa ferð. Þar sem skólalóðinni hefur verið lokað gekk ég niður að aðalhliðinu til móts við leigubílstjórann, Nixon, sem beið fyrir utan hliðið. Á skólalóðinni er iðulega líf og fjör og mikið af fólki saman komið en að þessu sinni voru harla fáir á ferli. Það eru verslanir rétt fyrir utan hliðið sem selja helstu nauðsynjavöru og sígarettur og auðvitað buai. Þessar búðir voru lokaðar og götusalarnir voru líka á bak og burt. Ég kom út um hliðið eftir að hafa heilsað öryggisvörðunum og vippaði mér í framsætið og kastaði kveðju á bílstjórann sem þar sat með grímu fyrir vitunum sem hann hafði væntanlega notað í nokkra daga og garðyrkjuhanska á höndunum sem héldu um stýrið. Hann sá undrunina á andliti mínu og sagði: „Eitthvað verður maður að gera til að bjarga sér.“ Með það ók hann af stað og það voru mjög fáir á ferli miðað við það sem við eigum að venjast á föstudagseftirmiðdegi. Það voru þó nokkrir að versla en langt því frá eins margir og vanalegt er á þessum tíma dags. Matvörubúðum og öðrum verslunum hafa verið settar nokkuð þrengri skorður um opnunartíma en þeir markaðir þar sem fólk kemur saman til að selja grænmeti, ávexti og allra handa aðrar vörur hefur verið lokað. Lögreglan rekur götusala til síns heima og lífið er um margt mun litlausara en við eigum að venjast hér.
Á leiðinni upp hæðina aftur röbbuðum við Nixon saman og eins og starfsbræðrum hans er von og vísa veit hann margt um það sem er að gerast í nærumhverfinu og eins og er venjan í hans starfsstétt þá hefur hann skoðun á flestu. Hann trúði mér fyrir því að hann væri viss um að faraldurinn væri jú staðreynd og að það væri víst að fólk veiktist og dæi af völdum veirunnar en hann sagðist viss um að annað og meira byggi undir. Þarna var á ferðinni alheims-samsæriskenning og okkur vannst ekki tími til að kryfja hana til mergjar þar sem að leiðin er ekki löng frá bænum að háskólanum. Við fengum að aka upp hæðina vegna þess að ég sagði öryggisvörðunum að ég gæti ekki haldið á öllu því sem ég keypti alla leiðina heim. Að öðrum kosti er öll umferð ökutækja sem ekki tengjast háskólanum beint bönnuð.
Það er í rauninni mikil kyrrð og ró sem ríkir hér og eftir því sem best er vitað er sama hægt að segja um aðra staði landsins. Port Moresby er mun rólegri en vant er og það sem kemur við kaunin á íbúum þar er að verð á buai hefur hækkað frá einu kína upp í 7 kína fyrir eina hnetu. Þetta kemur sér vel fyrir þá sem selja hana og borgarstjórinn sem hefur reynt að gera neyslu á hnetunni útlæga úr borginni hlýtur að vera mjög ánægður með þá hjálp sem þetta veitir í að hefta neysluna.
Þetta er skrifað á laugardagseftirmiðdegi og ég var svo heppinn að fá að fara í stuttan rúnt um bæinn rétt í þann mund sem útgöngubann átti að taka gildi núna klukkan fjórtán. Það voru harla fáir á ferð og þeir sem voru á ferðinni í einhverjum erindum voru stoppaðir af sveitum lögreglumanna og hermanna sem kvaddar höfðu verið út til að fylgja eftir útgöngubanninu. Ég var í ökutæki sem notað er sem sjúkrabíll og merkt í bak og fyrir sem slíkt en þar sem ég var að sveifla farsímanum til að ná þeim myndum sem fylgja þessari grein vorum við stoppaðir og lögreglumaðurinn sem það gerði krafðist þess að fá að sjá myndasafnið í símanum til að vera fullviss um að ég hefði ekki tekið myndir af því sem þeir voru að fást við. Kannski ekki nema von þar sem lögreglan liggur undir ámæli fyrir ofbeldi í garð þeirra sem þeir handtaka.
Þær aðgerðir sem eru í gangi núna eru tímabundnar og munu standa yfir til og með sjötta apríl. Það er ekki vitað hvað tekur við eftir það en það fer auðvitað eftir stöðu mála í landinu og hvort að fleiri tilvik af Covid-19 hafi greinst eður ei.