Á dögunum var heilbrigðisráðherra í Vikunni með Gísla Marteini. Þar gaf hún þjóðinni þetta ráð á óvissutímum: Anda. Munið bara að anda. Þá líður manni betur.
Þetta er alveg satt. Rétt öndun skiptir máli. Að veita önduninni athygli hjálpar okkur að vera hér og nú. Sama hvað á okkur dynur, við getum reynt að anda. Öndunin er akkerið.
Stundum er einfalt að anda, stundum ekki.
Ætli það sé, til dæmis, einfaldara að anda í náttfötunum heima heldur en með grímu yfir andlitinu? Ætli það sé einfaldara að anda þegar maður er á ofurlaunum? Ætli það sé ekki erfiðara að anda þegar maður er hver mánaðamót minntur svart á hvítu á verðgildi sitt sem mannauður? Og mikið hrikalega hlýtur að vera erfitt að anda eðlilega yfir deyjandi manneskju sem ekki einu sinni fjölskyldan fær að kveðja – að horfa í þau augu og anda – nei, þá vildi ég heldur vera á náttfötunum heima.
Anda. Anda.
Anda. Muna að anda. Og muna að betla til baka hjúkrunarfræðingana sem við hröktum í önnur störf.
Því það er svo merkilegt að þegar mest á reynir eru það ekki náskyldir ráðgjafar eða aðstoðarmenn ráðherra sem við treystum á, þótt launaseðlar bendi til annars – nei, við treystum á mæður sem snúa til baka úr fæðingarorlofi með fimm mánaða gömul börn á brjósti, ömmur á eftirlaunum, fórnfúsar frænkur og frændur – þetta eru manneskjurnar sem við treystum á.
Svo næst þegar heilbrigðisráðherra hugar að andardrættinum vona ég að í fullkominni hugarró fái hún eftirfarandi hugmynd: Það þarf að hækka laun hjúkrunarfræðinga. Peningarnir eru til. Þeir hafa alltaf verið til. Nú er bara að hugsa sig um eitt andartak og finna tölu sem segir: Takk.
Höfundur er rithöfundur.