COVID-19 hefur sannarlega breytt heiminum þó við reynum öll að gera okkar besta til að tryggja að samfélagið fari ekki á hliðina. Fyrirtæki berjast í bökkum og starfsfólk reynir að skila sínu samhliða heimaskólun og sóttvarnaraðgerðum, oft gegnum misskilvirka fjarfundarbúnaði og snjallkerfi. Forgangsröðun er enn mikilvægari en áður, við einbeitum okkur að því allra mikilvægasta og frestum öðru.
Hættan á auknu misrétti
Rannsóknir sýna að á tímum sem þessum, þegar álagið er mikið, gefur fólk sér hvorki tíma né aðstæður til að ígrunda forgangsröðunina. Hið viðtekna verður enn viðteknara en áður og hið jaðarsetta enn jaðarsettara. Innbyggð skekkja verður áhrifameiri en nokkru sinni sem gerir það að verkum að við dettum í hefðbundin kynhlutverk og gerum ráð fyrir því sama hjá öðru fólki. Við slíkar aðstæður er hætt við bakslagi á sviði jafnréttis- og fjölbreytileikamála ef við gætum þess ekki að þær aðgerðir sem við grípum til taki mið af fjölbreytileika samfélagsins.
Aðgerðir stjórnvalda
Það er mikilvægt að við gefum okkur öll tíma til að sporna gegn þessu. Aðgerðir ríkisvaldsins mega ekki aðeins ná til karllægra atvinnugreina og efnahagslegra áhrifa. Það verður að tryggja öryggi kvenna og barna sem búa við ofbeldi á heimilum, það verður að tryggja að heimaskólun og aukið álag á heimilum lendi ekki á herðum kvenna umfram karla og það verður að tryggja að uppbygging innviða veiti tækifæri á sviði heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála til jafns við mannvirkjagerð og vegavinnu. Þetta verður aðeins gert með ígrundaðri samþættingu kynjasjónarmiða við alla ákvarðanatöku, sem krefst þekkingar og færni og raunverulegs samráðs og yfirlegu. Og þó öll hafi í nógu að snúast núna, þá er óboðlegt að ætla að gera þetta seinna enda ólíklegt að hægt verði að leiðrétta mistök sem nú kunna að verða gerð.
Aðgerðir atvinnurekenda
Sömuleiðis er mikilvægt að vinnustaðir hafi kynjasjónarmið að leiðarljósi við breyttar aðstæður. Tryggja þarf að ræstingafólk hafi allan nauðsynlegan búnað og aðstöðu til að mæta stórauknum kröfum án þess að hætta eigin heilsu og að þau fái greitt í samræmi við álag og áhættu. Gera þarf sambærilegar kröfur um afköst til allra kynja og gera ráð fyrir sambærilegum slaka til allra kynja vegna aukins álags á heimilum með börn. Miða þarf hagræðingaraðgerðir við stöðu fólks, gæta að því að uppsagnir leiði ekki til aukins kynjahalla eða jaðarsetningar á vinnustaðnum, að kjaraskerðingar nái síst til þeirra lægstlaunuðu og að fríðindi og tækifæri verði minnkuð hjá þeim sem best þola slíkt. Það er nefnilega ekki síður mikilvægt að taka mið af jafnréttis- og fjölbreytileikaáætlunum á erfiðum tímum en uppgangstímum.
Gerum þetta saman!
Við getum öll lagt okkar af mörkum til að tryggja sem minnst áhrif COVID-19. Það gerum við með því að þvo okkur um hendur, virða samkomubann og tveggja metra regluna og vera góð hvert við annað. Við þurfum líka að muna að við erum í senn afurð og áhrifavaldar í kynjuðu samfélagi og allt sem við gerum, segjum og ákveðum getur haft jákvæð eða neikvæð áhrif á stöðu fólks í samfélaginu. Leggjum okkar af mörkum og stuðlum að áframhaldandi og vaxandi jafnrétti og umburðarlyndi fyrir okkur öll.
Höfundur er kynja- og fjölbreytileikaráðgjafi hjá JUST Consulting.