Í kjölfar hrunsins 2008 var ráðist í verkefnið Inspired by Iceland sem hafði það að markmiði að fjölga ferðamönnum einkum utan hefðbundins ferðamannatíma. Íslandsstofa hafði veg og vanda af verkefninu og setti ríkissjóður Íslands verulegar upphæðir í það sem að stórum hluta fóru í markaðsátak sem keyrt var áfram á auglýsingum. Herferðin, sem að miklu leyti var unnin í samvinnu við auglýsingastofuna Brooklyn Brothers í New York og London, vann til ýmissa verðlauna en menn deila enn um það hvort hún hafi skilað því sem stefnt var að. Eldgos og veik staða krónunnar hafi mögulega haft þar meira að segja en auglýsingar í neðanjarðarlestarkerfum stórborganna. En auðvitað studdi þetta markaðsátak við og hjálpaði en spurningin er hvort ekki hefði mátt nýta peningana betur.
Fyrir hrunið 2008 þá fengu margir Íslendingar þá flugu í höfuðið að við værum bestu bankamenn í heimi. Hér væri að rísa fjármálamiðstöð hins vestræna heims eða í það minnsta eitt af stærstu útibúum fjármálamarkaðanna. Þjóð sem hafði stærstan hluta 20. aldarinnar búið við höft, óðaverðbólgu, helmingaskiptakerfi stjórnmálaflokka og gjaldmiðil sem fallið hafði í gengi um 99,5% frá árinu 1930 átti að eiga bestu bankamenn heimsins rétt tveimur til fjórum árum eftir að bankarnir voru einkavinavæddir. Gullgerðarmeistarar eru ekki til og þegar einhver telur sig hafa fundið uppskriftina ber að varast hana með öllu. Enda kom það á daginn og bestu bankamenn heimsins í gær urðu að þeim allra lélegustu í dag.
Covid-19 hefur sett samfélög heimsins í hálfgerða kyrrstöðu. Það þrengir verulega að og fyrirtæki jafnt sem einstaklingar sjá fram á fjárhagslega erfiðleika og óvissu. Á Íslandi hefur faraldurinn nú þegar haft gríðarlegar afleiðingar bæði fjárhagslegar sem og samfélagslegar. Ferðaþjónustan, sem á síðasta ári var orðin ein af megin stoðum hagkerfisins, er í verulegum þrengingum. En það eru fleiri greinar sem þannig er ástatt með. Tónlistarmenn og þeir sem starfa í kringum tónlistargeirann urðu nánast tekjulausir yfir nótt. Vorvertíðin sem alla jafna er aðalvertíð geirans var blásin af. Sumarið virðist vera að fara sömu leið. Þannig var tónlistarhátíðinni Secret Solstice frestað um eitt ár og út í heimi hafa Glastonbury, Roskilde festival, SXSW, Coachella, The Great Escape auk fjölda annarra hátíð verið frestað til haustsins eða til næsta árs.
Núna er tækifæri til að gera hlutina rétt. Nú þegar stjórnvöld sitja með hinum klassísku ráðgjöfum sínum að skipuleggja boðað markaðsátak fyrir Ísland og ferðamannaiðnaðinn megum við ekki falla aftur í Brooklyn Brothers gryfjuna frá 2010. Gerum þetta að þessu sinni með það fyrir augum að nota það sem við eigum og hefur skilað okkur mestum hróðri langt út fyrir landsteinana. Það eru ekki bankamennirnir heldur menning og listir. Höldum viðburði á vesturströnd Bandaríkjanna, á austurströndinni og í miðríkjunum. Höldum viðburði í norður og suður Evrópu og höldum viðburði í Japan, Kína og Ástralíu. Kynnum menningu, listir, nýsköpun og náttúru landsins með þeim hætti sem aldrei hefur áður verið gert. Sláum með því margar flugur í ein höggi: Listamenn fá vinnu, nýsköpun verður gefinn frekari gaumur og landkynningin fær raunverulegt andlit í stað gjaldþrota gervis hins liðna tíma. Framtíðin liggur í þessum raunverulegu verðmætum þjóðarinnar sem við skulum nota á þessum tímum – það er eina leiðin.
Höfundur er framkvæmdastjóri og tónleikahaldari.