Árið 2018 var Samherja skipt upp í tvö félög: Samherja hf. og Samherja Holding. Skiptingin var nánast til helminga. Engin sérstök skýring var gefin á þessari aðgerð en innan íslenska stjórnkerfisins hafa verið uppi grunsemdir um að ástæðuna megi finna í því að Samherji vildi komast hjá víðtækri upplýsingagjöf sem fylgir svokallaðri ríki-fyrir-ríki skýrslu til ríkisskattstjóra. Slíkri skýrslu þurfa fyrirtæki að skila sem eru með veltu yfir ákveðnu, og mjög háu, viðmiði.
Í henni felst að veita þarf ríkisskattstjóra upplýsingar um tekjur og skatta í öllum þeim ríkjum þar sem félög innan heildarsamstæðunnar eiga heimilisfesti. Skýrslu sem ætti einnig innihalda lýsingu á atvinnustarfsemi heildarsamstæðunnar í hverju ríki, auk upplýsinga um hvert samstæðufélaga og þá efnahagslegu starfsemi sem félögin hafa með höndum. Meðal annars á skattaskjólum á borð við Kýpur eða í löndum á borð við Namibíu.
Samherji heldur því fram að samstæðan hafi ekki verið yfir umræddum viðmiðunarmörkum en uppskiptingin gulltryggir það að frekari vöxtur hvorrar einingar fyrir sig muni ekki fleyta henni þangað.
Tug milljarða eign í eigu þjóðar færð milli kynslóða
Fyrr í þessum mánuði greindu eigendur Samherja svo frá því að þeir ætluðu að færa hlutafé í öðru félaganna, Samherja hf., til barna sinna. Sá hluti heldur utan um starfsemi í íslenskum og færeyskum sjávarútvegi auk annarra innlendra fjárfestingaverkefna, t.d. eignarhlut í smásölurisanum Högum.
Eigendurnir, fyrrverandi hjónin Þorsteinn Már Baldvinsson og Helga S. Guðmundsdóttir, og Kristján Vilhelmsson, munu áfram halda á eignarhlut sínum í Samherja Holding. Þar eru dótturfélög samstæðunnar í Þýskalandi, Noregi, Bretlandi og í fjárfestingafélagi á Íslandi. Þar er til að mynda 27,06 prósent hlutur í Eimskip.
Með þessu vildu stofnendur Samherja „treysta og viðhalda þeim mikilvægu fjölskyldutengslum sem félagið hefur ætíð byggst á og hafa verið hornsteinn í rekstrinum“.
Sá tæpi helmingur konungsríkisins sem nú rennur til barna stofnendanna átti bókfært eigið fé upp á um 60 milljarða króna í lok árs 2018. Innan hans er, beint og óbeint, um 16,5 prósent af öllum úthlutuðum kvóta innan íslenskrar landhelgi. Auk þess er þar að finna fasteignir, skip og hlutabréf, svo fátt eitt sé talið.
Kemur okkur ekki við
Hvorki stjórnendur Samherja né helstu eigendur hafa verið fáanlegir til að útskýra yfirfærslu eignanna frá foreldrum til barna nema með óljósum hætti.
Þegar Kjarninn spurðist fyrir um hvernig framsal eignanna ætti sér stað fengust þau svör að börnin myndu annars vegar fá fyrirframgreiddan arf og hins vegar færi hún fram með sölu milli ótilgreindra félaga. Enginn vilji hefur verið til að svara fyrirspurnum um hvert virði þess hlutar sem færður verður á milli kynslóða sé né hvernig tilfærslunni var skipt milli fyrirframgreidds arfs og sölu. Það kemur okkur einfaldlega ekkert við hvernig þau færa á milli sín þjóðareign.
Af fyrirframgreiddum arfi ber að greiða tíu prósent erfðafjárskatt af öllum arfshlutanum. Af söluhagnaði hlutabréfa ber að greiða fjármagnstekjuskatt, sem er í dag 22 prósent.
Skattgreiðslurnar af þessum gjörningi ættu því nokkuð augljóslega að hlaupa á milljörðum króna. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort svo verði. Margt bendir til að svo verði ekki.
Að erfa eitthvað sem þú átt ekki
Það vakna upp margar spurningar þegar svona athæfi á sér stað. Þarna er enda verið að færa eign frá þeim sem fengu hana til vörslu, til barna þeirra. Um er að ræða stærstu eignatilfærslu milli kynslóða sem átt hefur sér stað í Íslandssögunni. Tilfærslu á eign sem hvorki foreldrarnir né börnin eiga.
Í lögum um stjórn fiskveiða segir nefnilega í 1. grein að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Fyrir liggur að þverpólitískur vilji er til að setja inn sérstakt auðlindaákvæði í stjórnarskrá Íslands til að skerpa endanlega á þessu.
Ákvæðið, sem stefnt er að því að samþykkja fyrir lok kjörtímabilsins og kjósa síðan inn í stjórnarskrá á því næsta er eftirfarandi: „Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Nýting auðlinda skal grundvallast á sjálfbærri þróun. Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar. Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“
Sumir stjórnmálaflokkar vilja eðlilega ganga lengra, í ljósi þess hvernig vörslumenn fiskveiðiauðlindarinnar hafa hagað sér frá því að kvótakerfið var sett á. Þar skiptir mestu að sérstaklega sé tiltekið að um tímabundna úthlutun aflaheimilda sé að ræða sem fyrir þyrfti að koma sanngjarnt verð. Með því er til að mynda ekki hægt að færa aflaheimildir sem eign milli kynslóða. Stjórnarflokkarnir þrír hafa verið mótfallnir þeirri breytingu.
Skammvinn von um kerfisbreytingar
Það er auðvitað skammarlegt, á svo margan hátt, að auðlindaákvæði sé ekki fyrir löngu komið inn í stjórnarskrá. Að það sé ekki fyrir löngu búið að grípa inn í þessa stöðu sem er uppi, og hefur tryggt litlum hópi einstaklinga algjört tak á íslensku samfélagi. Það tak birtist í áhrifum þeirra á íslensk stjórnmál, áhrifum þeirra á hagsmunagæsluaðila atvinnulífsins, kaupum þeirra á fjölmiðlum, stórfelldum fjárfestingum á öðrum sviðum íslensks samfélags og almennum tuddaskap gagnvart öllum sem voga sér að andmæla þeim eða rannsaka, þótt tilefnið sé ærið.
Í nóvember virtist um tíma ætla að verða þvinguð breyting á þessari fullkomnu undirgefni gagnvart þessum óformlegu ráðendum Íslands. Það gerðist í kjölfar þess að umfangsmikil rannsóknarvinna nokkurra fjölmiðla, ásamt huguðum uppljóstrara, sýndu fram á meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðugöngu Samherja í tengslum við starfsemi fyrirtækisins í Namibíu.
Loksins var lagt af stað í vegferð til að breyta lögum þannig að kvótaþak yrði raunverulegt fyrirbæri sem ekki væri hægt að sniðganga að vild og jafnvel, bara jafnvel, að það væri að skapast eitthvað pólitískt þor til að brjóta upp þetta fáveldi örfárra fjármagnseigenda sem framsal kvóta hefur leitt af sér, og birtist í því að örfáir einstaklingar eiga nokkur hundruð milljarða króna, vegna þess að þeir fengu að nýta auðlind í eigu þjóðar. Þessari vegferð virðist nú lokið. Hún var líklega aldrei annað en leikrit til að þykjast vilja breytingar, til að fela skýran vilja til að breyta engu.
Í íslenska sjávarútvegskerfinu ríkir öfugsnúinn kapítalismi. Í stað þess að einblínt sé á að hámarka arðsemi hluthafa, í þessu tilfelli þjóðarinnar allrar, þá gengur allt út á að reyna að skila sem minnstu til þeirra. Þess í stað á sem mest að verða eftir hjá daglegum stjórnendum, útgerðarmönnunum og fjölskyldum þeirra, með velþóknun meirihluta kjörinna stjórnarmanna. Fyrir vikið eru vistmennirnir komnir langt með að taka yfir hælið.
Hversu ríkir þurfið þið að vera?
Þrátt fyrir að Samherji sé í lögreglurannsókn í að minnsta kosti þremur löndum þá hringja stjórnmálamenn enn og spyrja hvernig stjórnendur þess hafi það. Þrátt fyrir að skýr krafa þjóðarinnar um að eigendur auðlindar fái bróðurpart þess arðs sem fellur til vegna nýtingar hennar þá eru stjórnmálamenn frekar uppteknir við að draga úr skattgreiðslum útgerðarmanna, nú síðast með því að afnema stimpilgjald af fiskiskipum.
Þrátt fyrir að augljós þörf sé á því að uppfæra löggjöf sem skilgreinir raunverulega tengda aðila í sjávarútvegi, og brýtur þannig upp þá gríðarlegu samþjöppun sem leyft hefur verið að verða, þá er sífellt reynt að þynna hana út og slá uppfærslunni á frest. Þrátt fyrir að kallað hafi verið eftir auðlindaákvæði í stjórnarskrá frá því að raunverulegar afleiðingar af framsali kvóta fóru að birtast, þá hefur það enn ekki verið afgreitt.
Á þessum vettvangi, þann 26. febrúar síðastliðinn, birtist eftirfarandi efnisgrein úr framsögu sem höfundur flutti á fundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um gagnsæi í greininni daginn áður: „Í nafni gagnsæis er fullt tilefni, í fullri einlægni, að spyrja: Fyrir hvað eru stærstu sjávarútvegsfyrirtækin eiginlega að undirbúa sig með því að safna saman öllum þessu auði? Hversu stóran hluta atvinnulífs er eðlilegt að fólk úr einum geira, sem nýtir náttúruauðlindir í almannaeigu, nái að sölsa undir sig? Hversu mikið þurfa menn að eiga til að verða sáttir?“
Fáveldið fest í sessi
Svarið blasir líklega við. Þetta snýst ekki lengur um peninga, heldur völd og áhrif. Hvorki foreldrum né börnum endist enda ævin til að eyða öllum þeim fjármunum sem eigendur stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna hafa söðlað undir sig á undanförnum áratugum.
Það verður aldrei til eitthvað sem er nóg. Það er ekki nóg, líkt og í tilfelli Samherja, að halda á kvóta langt umfram anda laganna. Að fá að brjóta gegn reglum og almennum samfélagsviðmiðum án þess að það hafi neinar sérstakar afleiðingar. Að stýra nær alfarið stærsta skipafélagi landsins í krafti rúmlega fjórðungs eignarhlutar og fá að losna undan yfirtökuskyldu þar eftir pöntun án eftirmála. Að vera einfaldlega með þorra eftirlitskerfisins í landinu í vasanum, þeim hinum sama og inniheldur fjölda stjórnmálamanna úr ýmsum flokkum.
Það er ekki nóg að vera líklega að fá, í krafti rúmlega fjögurra prósenta eignarhlutar, stjórnarformennsku í stærsta smásölufyrirtæki landsins. Að hafa verið leiðandi í hópi sem keypti rótgróin fjölmiðil og beitti honum eins og dreka fyrir sig til að ná fram þröngum og arðbærum sérhagsmunum sínum árum saman. Og það er ekki nóg að ein kynslóð hafi komist upp með þetta allt saman. Nú þarf að láta þjóðareign erfast til þeirrar næstu svo vegferðin geti haldið áfram.
Kannski mun örla á seddu ef þessi hópur eignast líka flugfélag og banka. En líklega ekki.
Möguleg vatnaskil ef vilji er til
Það er komið að ögurstundu. Staðan er þannig í dag að við erum orðin hluti af þeirra olígarkíska fáveldi, í stað þess að útgerðirnar séu hluti af okkar almannahagsmunakerfi. Við erum til fyrir þær, ekki öfugt.
Hlutirnir þurfa auðvitað ekki að vera þannig. Þetta er ekki náttúrulögmál heldur mannanna verk. Það þarf þor og dug til að stíga fram að breyta þeim. Það er hægt að breyta stjórnarskrá til að tryggja án vafa að eini eignarrétturinn á auðlindum landsins liggi hjá þjóðinni. Það er hægt að breyta lögum þannig að mun stærri hluti arðins af nýtingu þeirra lendi hjá eigendum hennar. Það er hægt að breyta lögum þannig að hægt sé að vinda ofan af of mikilli samþjöppun í sjávarútvegi, sem er úr öllu hófi. Það er hægt að setja á þrepaskiptan erfðafjárskatt með það markmiði að brjóta upp fáveldi, sem birtist meðal annars í því að tíu prósent landsmanna eiga 60 prósent eigna, og draga úr þeirri augljósu misskiptingu sem tilfærsla á tugum milljarða króna milli kynslóða hefur í för með sér.
Um þessi grundvallaratriði í íslenskri samfélagsgerð þurfa næstu kosningar að snúast. Nýjar leikreglur. Ætlum við að viðhalda þessu kerfi sem hefur þurrkað út öll mörk milli stjórnmála og viðskipta til að færa auð, völd og áhrif til fárra fyrirferðarmikilla einstaklinga, eða ætlum við að tryggja að raunverulega valddreifingu og að auður af nýtingu náttúruauðlinda lendi að uppistöðu hjá raunverulegum eigendum sínum?
Það verður að teikna upp skýra valkosti. Áður en að það verður einfaldlega um seinan.