Þú verður að deyja fyrir samfélagið!

Auður Jónsdóttir rithöfundur veltir því fyrir sér hvernig við erum öll þátttakendur í því að móta veruleikann í upplausninni og þeirri óvissu sem fylgir COVID-19 faraldrinum.

Auglýsing

Stuttu eftir jól var ég beðin um að semja fjóra pistla um fram­tíð­ina til að flytja í útvarps­þætt­inum Víð­sjá. Mér fannst verk­efnið spenn­andi, en eftir á séð leysti ég það í nokkuð fyr­ir­sjá­an­legum ramma. Ég tal­aði um lofts­lags­breyt­ing­ar, mis­skipt­ingu og fals­fréttir og annað sem þótti eitt skipta máli þá – þá segi ég því bara jan­úar nú í ár er orðin for­tíð í þeim skiln­ingi að ég hugsa um hann í öðru tíma­bili en núið, maí­mánuð sama ár. Í skynjun minni eru gríð­ar­leg skil á milli þess­ara mán­aða, þó að þeir séu á einu og sama árinu. Þannig skil að allt sem ég sagði um fram­tíð­ina er í ein­hverjum skiln­ingi strax orðið úrelt. 

Fram­tíðin er alltaf öðru­vísi en við ímyndum okk­ur.

Mögu­legar breyt­ingar



Síð­ustu vikur og mán­uði hafa ótelj­andi raddir út um allan heim velt fyrir sér mögu­legum breyt­ingum sem far­sóttin kann að hafa á heim­inn. Sumir ræða helst heimskreppu sem eigi eftir að dýpka, aðrir þjást af svo ágengum heilsu­kvíða að þeim líður eins og fram­tíðin sé að ein­hverju leyti búin og nú sé bara að reyna að tefja enda­lok­in. Svo eru það raddir sem vilja nýta COVID-19 til að gagn­rýna hluti eins og alþjóða­væð­ingu, Evr­ópu­sam­bandið og annað alþjóða­sam­starf, hinar ýmsu stofn­anir og svo fram­veg­is. Sumir vilja um leið ýta undir lýð­hyggju og þjóð­ern­is­hyggju, í versta falli mylja undan frjáls­lyndri lýð­ræðis­virkni í nafni neyð­ar­á­stands, nokkuð sem er auð­veld­ara að fram­kvæma en að end­ur­heimta og hætta á að slík hugsun gæti haft miður góð áhrif á fram­tíð­ina. 

Auglýsing

Ein­hverjir leggja tákn­ræna merk­ingu í far­sótt­ina, á þann hátt að hún lýsi upp van­kant­ana í sam­fé­lags­gerðum heims­ins: marg­flók­inni og djúp­stæðri stétta­skipt­ingu, gild­is­mati í heimi sem stjórn­ast af auð­valdi, væru­kærð okkar í lofts­lags­málum o.s.frv. Sumir segja jafn­vel að nú verði margt í per­sónu­legu lífi fólks skýr­ara, svo það öðlist vissu til að gera grund­vallar breyt­ingar á lífi sínu. Þeir, sem ljá atburð­unum merk­ingu af þessum toga, vilja margir nýta það til að lýsa upp veg­inn fyrir umbreyt­ing­ar, betri heim og líf­væn­legri fram­tíð.  

Jú, og ófáir skilja ástandið til marks um að það geti skerpt sam­líðan og sam­kennd okkar með öldruð­um, veik­um, fátækum og fólki í leit að alþjóð­legri vernd. Dæmi um það er þýsk kunn­ingja­kona sem póstaði á Face­book: Dag­inn sem þú byrjar að hamstra dósamat, ótt­ast um börnin þín, líf þitt og líf þinna nánustu, og hræð­ast nágranna þína, þá fyrst ertu fær um að byrja að skilja dag­legt líf flótta­fólks. 

Vald­efl­ing að ljá kaosi merk­ingu

Raunar hugs­aði ég eitt­hvað svipað um dag­inn, þar sem ég á vin­konur sem eiga lang­veik börn, en ástandið fékk mig til að hugsa að svona hefur líf þeirra verið árum sam­an, þær hafa þurft að búa við sótt­kví, stans­lausar var­úð­ar­ráð­staf­anir og sker­andi með­vit­und um fall­valt­leika, van­mátt og örþunn skilin á milli lífs og dauða. Óvissan um fram­tíð­ina er þeirra dag­lega brauð, svo orðið for­dæma­laust er ef til vill ekki orðið sem þær nota nú jafn oft og margir aðr­ir. 

Þetta er for­dæma­laust ástand, heyrum við sagt í sífellu, en er það alfarið for­dæma­laust? Fer það ekki nokkuð eftir skiln­ingnum sem við leggjum í það?

Að ein­hverju leyti er það undir okkur sjálfum komið hvaða merk­ingu við leggjum í þetta ástand og þessa atburði – og áhrif þeirra á ver­öld­ina. Við sjáum reyndar ekki ennþá fyrir end­ann á þessu, sem er kannski hæpið að tala um sem ástand í ein­tölu því það sem er að ger­ast og á eftir að ger­ast er svo síbreyti­leg­t. 

Nú er langt í frá að við vitum hvert veru­leik­inn stefn­ir, veira þessi virð­ist vera komin til að vera um langa hríð og aðgerðir háþró­aðra nútíma­sam­fé­laga gegn henni, eru, þrátt fyrir allt hug­vitið og tækn­ina, for­dæma­laus­ar. 

Á nútíma­skeið­inu sem við þekkjum eru raunar aðgerðir sam­fé­lag­anna for­dæma­laus­ar, fremur en far­sóttin sem slík. Víða fel­ast þær í því sem sér­fræð­ingar og reikni­líkön telja að sé mögu­lega skásti mögu­leik­inn í stöð­unni, hverju sinni, en þó ekki með vissu. 

Radd­irnar og merk­ing­arnar sem þær leggja í atburð­ina eru fleiri en ég nefndi og þær hafa tek­ist á um merk­ing­una sem eigi eða eigi ekki að leggja í atburð­ina. En kannski felst kjarni máls­ins einmitt í þessum átökum um hvaða merk­ingu við getum mögu­lega lagt í ástand sem við segjum vera for­dæma­laust. 

Þegar ég hef haldið fyr­ir­lestra um skap­andi skrif hef ég reynt að miðla því að skrif séu vald­efl­andi að því leyti að þau eru tæki til að ljá veru­leik­anum merk­ingu – út frá eigin skynj­un. Þannig má greina veru­leik­ann með skap­andi hugsun – sem stækkar hann. Og þannig má ljá því til­gang, því sem virð­ist með öllu til­gangs­laust, jafn­vel að það eyði til­gang­i. 

Og nú eru þannig tímar að það getur hjálpað okkur að stuðla að betri heimi, ef við erum óhrædd við að leggja upp­byggj­andi merk­ingu í atburða­rás sem virð­ist vera óskilj­an­leg. Um leið verður hún aðeins skilj­an­legri, af því við sjálf tökum okkur vald til að skilja hana á for­sendum okk­ar, ljá henni merk­ingu og vinna út frá þeirri merk­ing­u. 

Sam­fé­lagið lifir en þú deyrð

Nú kann þetta að hljóma svo­lítið rugl­ings­lega. En! 

Fyrst kemur hug­sýn­in, efnið fylgir á eft­ir. Því styrk­ari sem við erum að ljá því sem er að ger­ast merk­ingu, því meiri stjórn öðl­umst við – held ég, án þess að vilja með nokkru gera lítið úr hörm­ung­un­um, sorg­inni og von­leys­inu sem svo margir út um allan heim eru að upp­lifa í þessum töl­uðu orð­um. Ég held að ef við leyfum okkur að horfa þannig á COVID-19 að það í raun og veru lýsi upp brotnar lamir í sam­fé­lög­um, væru­kærð í lofts­lags­mál­um, stóra hópa sem hafa verið stimpl­aðir sem HINIR frekar en við, hættu­lega stétta­skipt­ingu og þar fram eftir göt­um, þá efl­umst við í leið­inni í því að sjá til­gang í ham­för­unum og eygja færi í upp­lausn­inni, og getum unnið að því að sá til­gangur verði til ein­hvers. Umbóta í fram­tíð­inn­i. 

Við getum ákveðið að fíflefl­ast í and­anum til að gera raun­veru­legar breyt­ingar og reyna að bæta veru­leika þeirra sem upp­lifa ekki aðeins von­leysi nú heldur þekkja ekk­ert annað í líf­inu sökum fátækt­ar, bágra aðstæðna og heilsu­leys­is. Alla­vega eru meiru líkur á því að svo megi verða, ef við trúum á merk­ing­una. 

Trúum á umbreyt­inga­kraft­inn. 

Mátt hug­sýn­ar­inn­ar. 

Fram­tíðin getur þannig tekið á sig mynd merk­ing­ar­innar sem við leggjum í fram­vind­una. 

Í augna­blik­inu er ágeng spurn­ing: Hvort er hættu­legra að vera hræddur eða ekki hrædd­ur? 

Ef við ótt­umst aðeins, sjáum aðeins það hrika­lega og gefum fyr­ir­fram upp von um að eitt­hvað annað en normalís­er­ing geti komið út úr öllu þessu eða trúum að við séum með öllu van­máttug að gera breyt­ing­ar, þá er hættar við að veru­leik­inn verði sá. 

Að fram­tíðin verði það sem við ótt­umst. 

Þetta má líka yfir­færa yfir á efna­hags­leg áhrif. Ef við hættum að þora að eyða, skapa, flæða, versla og gera samn­inga, þá er við­búið að veru­leik­inn þreng­ist enn frekar, kreppan verður ennþá dýpri. 

Svo mikið veltur á hug­sýn okkar allra. 

Ef við hins vegar trúum að við getum stemmt stigu við svo mörgu, að við séum ekki van­máttug í lofts­lags­málum eða því að spyrna gegn mis­rétti o.s.frv., þá er mun lík­legra að okkur tak­ist að mjakast í rétt­ari átt.

Síð­ustu vikur höfum við horft upp á að á önnur Vest­ur­lönd hafa þurft að vísa frá þeim elstu og veikustu, í nafni björg­un­ar­að­gerða fyrir sam­fé­lagið í heild; allt í einu er eins og frum­stæð praktík ráði ferð­inni, þeir yngri fá lækn­ingu og þeir sem meiri von er til að bjarga en hinir ekki, þannig að læknar eru settir í þá stöðu að taka ómann­eskju­legar ákvarð­an­ir. Svo margir hafa dáið í rúmunum heima hjá sér því sam­fé­lagið þarf að bjarga sér frekar en þeim. Kannski má segja að þeim sé fórnað fyrir hags­muni fjöld­ans, hent útbyrðis svo skipið fái siglt. 

Þetta eitt hefur vakið mann til umhugs­unar um hvernig ásýnd sam­fé­laga, meira að segja þró­aðra vel­ferð­ar­sam­fé­laga, getur virst örugg­ari en hún er í raun og veru. Síð­ustu vikur höfum við fylgst með ólíkum aðgerðum stjórn­valda í ólíkum löndum og svo virð­ist sem víða hafi of margir dáið vegna van­getu til að takast á við ástand­ið. Þá gæti fólk skynjað að kjörnir full­trúar hafi öðl­ast vald yfir lífi og dauða kjós­enda sinna, skynjun sem gæti breytt hvernig við hugsum skipan mála til fram­tíð­ar. 

Þetta er bara vanga­velta, en atburð­irnir kveikja ófáar vanga­velt­ur. 

Það má spyrja sig

Nú er við­búið að fleiri en áður, hér og þar um heim­inn, eigi eftir að spyrja sig ólíkra spurn­inga á borð við: 

Hversu vel þjónar efna­hags­kerfi heims­ins í raun og veru fólki? Eða núver­andi efna­hags­kerfi þjóð­ríkj­anna? Fólk spyr sig: Eru und­ir­stöður virkni kerf­is­ins þannig að það þjóni almenn­ingi nægi­lega eða er kerfið of mikið hugsað í þágu stór­fyr­ir­tækja og sér­hags­muna?

Himalaya-fjöllin sáust loks frá Punjab-héraði á Indlandi.

Fyrst veirunni tókst það sem aðgerðasinnum í lofts­lags­málum hefði ekki tek­ist á fjöru­tíu árum, eins og sagði ein­hver stað­ar, að stöðva flug heims­ins og slökkva á meng­andi iðn­aði – eru þá meiri aðgerðir ger­legar en við töldum okkur trú um? 

Hversu margir hafa haft atvinnu sem reynd­ist miklu óör­ugg­ari og gagns­laus­ari en þeir gerðu sér grein fyr­ir? Ein­hvers staðar las ég grein eftir fræð­ing sem sagði ástandið lýsa upp hversu mikið af fólki vinnur störf sem eru í raun og veru gagns­laus fyrir sam­fé­lagið – og slíkar pæl­ingar tengj­ast pæl­ingum um fjórðu iðn­bylt­ing­una, en þær kveikja vissu­lega spurn­ing­ar. Um leið má segja að veiran hafi lýst upp mik­il­vægi ann­arra starfa, svo um mun­i. 

Þá má spyrja hversu vit­ur­legt það er að leggja svo mikið traust á eina atvinnu­grein eins og ferða­manna­iðn­að­inn? 

Hvernig eigum við eftir að hugsa um mat­væla- og lyfja­ör­yggi í fram­tíð­inni?

Mun fólk fram­vegis vinna og funda meira raf­rænt og spara sér ferð­ir, með til­heyr­andi umhverf­is­á­hrif­um? 

Hvaða áhrif á það eftir að hafa á börn að hafa verið lokuð inni vikum og mán­uðum sam­an, víða í litlum íbúðum með tak­mörk­uðu útsýni, jafn­vel við erf­iðar heim­il­is­að­stæð­ur? Á það eftir að marka atferli kyn­slóð­ar­?  

Hversu mikið má mann­úðin sín í raun og veru þegar flótta­fólk, fátækir, heilsu­tæpir og aldrað fólk er svo víða skilið eftir til að deyja? Er kom­inn tími til að við hugsum um mannúð sem auð­magn, eitt­hvað sem geti stuðlað að vexti almanna­hags (svo ég bregði aðeins á leik með orðið hag­vöxt)? 

Hvernig eigum við eftir að hugsa um opin landa­mæri eftir aðgerðir síð­ustu vikna? Og hvaða áhrif eiga þessir atburðir eftir að hafa á hug­myndir um alþjóða­sam­starf? 

Ég rakst á kvót eftir banda­ríska sam­fé­lags- og menn­ing­arrýn­inn Susan Sontag þar sem hún sagði hug­hrif fólks tengja saman pestir og hið erlenda. Við hugsum um spænsku veik­ina, Napolí-veik­ina, Kína­veik­ina o.s.frv. ... og þetta segir hún til marks um að við skynjum pestir og hið erlenda í einni og sömu andrá. 

Hvaða áhrif hafa þá aðrir eins atburðir á hug­renn­inga­tengsl almenn­ings? Munu þeir með tím­anum ýta undir öfga­full þjóð­ern­is­öfl? Ef skynjun fólks segir því að pestin komi ávallt að utan ...

Ótti við hið erlenda getur búið til ógn úr sjálfum sér, stuðlað að inni­lok­un, átök­um, skorti á mann­úð, jafn­vel stríð­i. 

Nú reynir á hug­sýn­ina, á svo mörgum svið­u­m. 

Nú þegar við vitum við ekki hvað er framund­an. Hvernig á heim­ur­inn eftir að fún­kera næstu árin? Hvað ger­ist eftir fimmt­ánda júní? Hversu margar eða jafn­vel engar til­tak­an­legar bylgjur af COVID-19 á íslenskt sam­fé­lag á eftir að fara í gegn­um? Hvert verður umfang þeirra? Hver verða áhrif atburða erlendis á okk­ur? Hversu vel getur hag­kerfi okkar fún­kerað þegar vist­kerfi hag­kerfa heims­ins hefur hægt á sér svo um mun­ar? 

Þá er því brýnna að við þorum að hugsa um allar þessar spurn­ingar af ábyrgð og víð­sýni, og raunar miklu fleiri spurn­ing­ar. Að við leyfum okkur að hugsa upp á nýtt, ljá hrær­ing­unum merk­ingu; þá merk­ingu að veiran lýsi upp það sem má betur gera, og trúa á merk­ing­una, til að hún megi raun­ger­ast í fram­tíð­inni. Þá getur fram­tíðin orðið góð og betri en for­tíð­in.

Ein­hver sagði við mig, heim­ur­inn verður bara aftur eins og hann hefur alltaf ver­ið. Fólk sagði líka í Hrun­inu að allt myndi breytast, svo varð það bara samt. Allt normalíser­ast, fólk breyt­ist ekki. 

En! Sumt breytt­ist vissu­lega eftir Hrun­ið, þó svo margt hafi farið í sama far­ið. Og kannski er þessi hugs­un­ar­háttur var­huga­verð­ur, því hann kemur í veg fyrir að við nennum að hugsa og eygja nýja mögu­leika. 

Við erum öll ger­end­ur, þátt­tak­end­ur, í að skapa hug­sýn fyrir fram­tíð­ina. Í því felst ábyrgð okk­ar. Á tímum sem reyna fyrst og fremst á hug­sýn okk­ar. 



Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiÁlit